10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Ný Handbók

í lyflæknisfræðum

Það eru sannarlega tíðindi þegar út kemur bók á íslensku um læknisfræði. Handbók í lyflæknisfræði 3. útgáfa kom út nú síðari hluta septembermánaðar en svo er bókin aukin og endurbætt frá fyrri útgáfum að nánast er um nýja bók að ræða.

Ritstjórar bókarinnar eru Ari J. Jóhannesson og Runólfur Pálsson, læknar á Landspítala, sem styrkir útgáfuna. Útgáfu og dreifingu annast Háskólaútgáfan. Bókin er í A-5 broti og er 342 bls. að lengd. Í formála segir m.a: ?Sem fyrr er það höfuðmarkmið með Handbók í lyflæknisfræði að draga saman í eitt kver aðgengilegar og hagnýtar leiðbeiningar um skynsamlega nálgun og meðferð vandamála í lyflækningum þar sem mið er tekið af aðstæðum á Íslandi. Aðaláherslan er á algeng og/eða bráð vandamál og er reynt eftir megni að samræma kröfur um knappan texta en jafnframt tæmandi efnistök.

Bókin ætti að nýtast breiðum hópi lesenda, lyflæknum, heilsugæslulæknum, læknanemum og læknum í framhaldsnámi og ýmsum öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.

Þessi útgáfa bókarinnar hefur verið lengi í vinnslu eða sex ár og varð að sögn ritstjóranna talsvert miklu lengri en áætlað var. Ekki er þó töfum um að kenna heldur því að ritstjórarnir ákváðu að auka verulega við efni bókarinnar og láta umskrifa fyrri kafla með tilliti til þeirra hröðu framfara sem orðið hafa á sviði lyflæknisfræði. Stenst bókin nú fyllilega samanburð við nýjustu útgáfur erlendra handbóka af sama toga en hefur þann ótvíræða kost að vera sniðin að íslenskum aðstæðum.

Ari J. Jóhannesson og Runólfur Pálsson ritstjórar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica