07/08. tbl 92. árg. 2006

Ritstjórnargrein

Sjúkdómsgreiningar: Trúverðug lýsing á heilbrigðisvanda - eða villandi hálfsannleikur?

Ludvig Guðmundsson LudvigG@reykjalundur.is

Í þessu tölublaði Læknablaðsins fjalla Sigurður Thor­­la­c­ius og félagar um mikla fjölgun offitugrein­inga hjá öryrkjum (1). Þessi fjölgun bendir til þess að offita valdi æ oftar heilsubresti og örorku. Niður­staða höfunda er að tíðni greiningar alvarlegrar offitu meðal öryrkja geti verið að aukast umfram raun­verulega aukningu ástandsins meðal landsmanna. Þeir sem rannsaka offitu eru sama sinnis, það er að fólk skiptist nú í tvo hópa með tilliti til holda­fars. Annar hópurinn, sá minni, er í nokkurn veg­inn eðli­legum holdum en hinn sem er of feitur verð­ur stöð­ugt feitari. Sé þetta rétt er offita og heilsu­fars­vandi tengdur henni enn meiri en álitið hef­ur verið hingað til.

Offita birtist meðal örorkugreininga hjá rúmlega 7% kvenna og tæplega 4% karla. Offitutíðni (BMI>30) (BMI=Body Mass Index, þyngdarstuðull) fyrir aldurshópinn 20-65 ára er um 20%, of­þyngd (BMI 25-30) 35-40%, eðlilegt holdafar (BMI<25) um 40% (2). Sé þetta borið saman við þekkt áhrif offitu á algengi ýmissa sjúkdóma sem valda örorku má ætla að offita sé vanskráð sem orsök fyrir eða sem meðverkandi þáttur við örorku (3). Hér má nefna að fylgst hefur verið með holdafari sjúklinga sem koma til meðferðar á Reykja­lundi undanfarin ár. Á árunum 2002-2005 var tíðni þeirra sem voru í eðlilegri þyngd um 25%, í ofþyngd um 32% og feitir 42%. Vannærðir voru um 1% sjúklinga.

Annað athyglisvert í rannsókninni á örorkugreiningum er að jafnvel þegar offita er tilfærð sem sjúkdómsgreining koma ekki fram tölulegar upplýsingar um holdafar sjúklings, svo sem BMI eða mittismál. Læknum virðist ekki tamt að nota holdafarsmælingar í klínískri vinnu, jafn einfaldar og þýðingarmiklar og þær eru, krefjast aðeins aðeins vogar og málbands. Rannsóknin tekur 2-3 mínútur. Hún gefur oft mun þýðingarmeiri upplýsingar en dýrar nýtískulegar hátæknirannsóknir en er vissulega óskáldleg og gamaldags miðað við fínheitin. Það ætti að vera fastur liður í klínískri vinnu að skrá holdafar sjúklinga.

Læknar byggja starf sitt á að greina sjúkdóma og meðhöndla. Greiningar byggja nær alltaf á sjúkdómseinkennum eða safni einkenna, heilkennum. Þær ná yfirleitt ekki til orsaka sjúkdómsins, hversu alvarlegur hann er, né til aðstæðna sem kunna að hafa áhrif á afleiðingar hans.

Að minnsta kosti 70% langvinnra sjúkdóma, fatlana og snemmkominna dauðsfalla eru talin lífsstílstengd og afleiðingar félagslegra aðstæðna. Þar koma til streita, óreglulegur svefn og önnur óreiða í lífsháttum, reykingar, misnotkun vímuefna og lyfja, glannaskapur, lítil hreyfing, röng næring, ofeldi, vaneldi, ógætilegt kynlíf, atvinnuleysi, skilnaðir, einsemd, fátækt og erfiðar aðstæður. Ef þessa er ekki gætt verður meðferð þegar best lætur meðhöndlun sjúkdóms en ekki sjúklings.

Dæmin blasa við:

Meðferð lungnateppusjúklinga þar sem ekki er lögð megináhersla á reykleysi getur dregið um hríð úr einkennum sjúkdómsins en leiðir hjá sér horfur eða aðrar heilsufarslegar afleiðingar reykinga.

Lyfjameðferð við sykursýki þar sem ekki er sinnt hreyfingarleysi, rangri næringu og ofþyngd skil­ar takmörkuðum árangri.

Örorkuvottorð sem aðeins greinir frá vefjagigt en lætur ógetið að öryrkinn er ung einstæð móðir sem á aðeins kost á erfiðum, ótryggum láglaunastörfum og nýtur lítils félagslegs stuðnings, lýsir ekki því sem mestu máli skiptir sem ástæðu örorku­umsóknar.

Tinetti og félagar hafa bent á takmarkanir sjúk­dómshugtaksins (4). Með því að einblína á það eitt sé hætta á of- eða vanmeðhöndlun, jafnvel rangri meðferð. Meðferð sjúkdóma þurfi að samhæfa öðrum þáttum sem máli skipta. Hluti slíkrar sam­hæfðrar meðferðar snýr að lífsháttum og að­stæð­um sjúklings, óskum hans og markmiðum. Heilbrigðisþjónustan þarf að temja sér vinnubrögð þar sem lögð er áhersla á forvarnir og aðstoð við lífsháttabreytingar í því skyni að bæta árangur meðferðar og gæði þjónustu.

Heimildir

1. Thorlacius S, Stefánsson SB, Steingrímsdóttir L. Algengi offitu­greiningar hjá öryrkjum á Íslandi 1992-2004. Læknablaðið 2006; 92: 525-9.
2. Guðmundsdóttir SL, Óskarsdóttir D, Franzson L, Indriðason ÓS, Sigurðsson G. Samband líkamlegrar þjálfunar við þyngdar­stuðul, fitumassa og gripstyrk í íslensku þýði. Læknablaðið 2004; 90: 479-86.
3. Overweight and Obesity in Adults; National Health and Medi­cal Research Council, Sept 2003.
4. Tinetti ME, Fried T. The end of the disease era. Am J Med 2004; 116: 179-85.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica