07/08. tbl 92. árg. 2006

Hugleiðing höfundar. Eins og bjart sólskin í hendi. Jón Kalman Stefánsson

jonkalmanHUGLEIÐING AÐ SUMRI

Það hefur oft verið sagt að peningar stjórni heiminum, og auðhringir ráði ferðinni, ég veit að það er ýmislegt til í því, en lífið er sannarlega skrýtið í laginu; þegar á reynir, þegar öllum steinum er velt við, þá skiptir auðmagn litlu sem engu máli. Eða til hvers lifum við, hver er tilgangurinn; að eignast 200 fermetra einbýlishús, 100 fermetra sumarhús, Benzjeppa og fólksbíl, og svo framvegis? Varla. Mannúðin er mikilvægari en hlutabréf, og tilgangurinn með lífi okkar hlýtur að vera að bæta heiminn, við teljum ekki hlutabréfin á dánarbeðinu, heldur minningarnar, við spyrjum ekki út í Dow Jones vísitöluna, við spyrjum, hvað skil ég eftir, hvaða gleði, hvaða birtu skil ég eftir í huga og skynjun þeirra sem lifa mig?

Þetta er sáraeinfalt, öll þráum við hamingju, að líf okkar sé ríkara af birtu en skuggum, efnishyggjan hefur hinsvegar hvorki áhuga á birtu né hamingju. Við viljum að börnum okkar og barnabörnum líði vel inni í sér þegar þau leggjast til svefns og kvíði ekki morgundeginum, efnishyggjan hefur hinsvegar engan áhuga á því hvernig börnum líður þegar þau leggjast til svefns, hún vill bara að við eyðum, og það er hennar kappsmál að fá okkur til að trúa því að hamingjuna, lífsfyllinguna, sé að finna í bílum, sófum, hjólhýsum, 40 sjónvarpsstöðvum. En sé til einhver lykill að hamingjunni, lífsfyllingunni, þá er það einfaldleikinn, þetta eru engin ný sannindi; þau blasa til dæmis við öllum þeim sem flysja allt hismið utan af flestum trúarbrögðum heimsins, byggingarnar, glæsileikann, serimóníurnar, flysja allt burt þar til kjarninn einn stendur eftir. Þar til einfaldleikinn stendur eftir. Bestu minningar, stundirnar sem skína yfir lífum okkar, veita hamingju, sem hugga í andstreymi, eru yfirleitt sáraeinfaldar, og það er jafnvel þýðingarlaust að segja öðrum frá þeim, atvikið eða atburðurinn laus við ytri glæsileika, en sá einn hefur hagnast í þessu lífi sem er ríkur af þeim minningum sem gefa birtu. Ég kynntist einu sinni manni sem átti flest þau efnisleg gæði sem almenningur þráir, mikill efnamaður og öfundaður af mörgum, það hafði kvöldað yfir ævi hans þegar við kynntumst, hin eilífa nótt nálgaðist hratt, og ég spurði, hvað er það besta sem þú manst, lokaðu augunum og segðu mér af hvaða minningu stafar mestri birtu.

Hann lokaði augunum, sagði næstum strax, og líklega ósjálfrátt: þegar við pabbi lékum okkar einn sunnudagsmorguninn saman með tindátana mína.

Og þá skildi ég afhverju þessi kunningi minn átti svona mikið safn af tindátum, þeir voru á annað þúsund og þöktu fjórar hillur á heimili hans, í öllum stærðum og gerðum. Ég vil ekki segja að hann hafi verið hamingjusnauður þegar hann dó, en hamingjusamur var hann ekki, og það sló mig þarna sem ég sat hjá honum, hann enn brosandi yfir minningunni, bros sem var alls ekki laust við trega, að hann hafi gert þau stærstu og verstu mistök sem manneskja getur gert; reynt að kaupa hamingjuna í stað þess að reyna að lifa hana.

Lífið er sáraeinfalt, við þráum hamingju, lífsfyllingu, og erum allt okkar líf að leita hennar, hvert á sinn hátt, og inn á þessa staðreynd spila auglýsingar; þú verður hamingjusamur ef þú drekkur kókakóla, þú verður hamingjusamur ef þú ferð í þessa sólarlandaferð, þú verður hamingjusamur ef þú kaupir þennan bol, þennan bíl, þennan heitapott, þennan sumarbústað, þetta heimabíó - en með leyfi; hvað er hamingja? Eitt besta núlifandi skáld okkar heitir Hannes Pétursson, og hann yrkir á einum stað:

Þegar þú leiðir mig

skín ljós inn í hönd mína

og það svæfir

allar svartar hugsanir.

Svona er það þá; peningar og auðhringir stjórna kannski heiminum, en þeir stjórna ekki hamingjunni, þeir ráða kannski mörgu, ráða hugsanlega yfir stjórnvöldum, en þeir ráða ekki yfir sjálfri lífsfyllingunni. Hamingjan, lífsfyllingin, hún er undir sjálfum okkur komið, engum öðrum, jú, aðrir geta náttúrlega spillt henni, og efnishyggjan getur svo sannarlega óhreinkað og afvegaleitt okkur, en hamingjan, sjálf lífsfyllingin, kemur innan frá, og hún er magnaðasta orkuveita heimsins, getur verið óþrotleg; sólin sem gerir jörðina byggilega. En munið, hamingjan, lífsfyllingin, fær aldrei að stýra bankaráðsfundum, fengi aldrei að valsa um Pentagon, hún kemst aldrei á forsíður dagblaða og er aldrei fyrsta frétt á sjónvarpsstöðunum, svona er maðurinn kominn skammt á veg, því auðvitað ætti Morgunblaðið og Fréttablaðið og Blaðið og DV að leggja stríð, hagvöxt og gráa stjórnmálamenn til hliðar, þó ekki nema dag og dag, og hleypa hamingjunni að - ég held að þetta ljóð Hannesar Péturssonar gæti hæglega talað fyrir hana:

Sumarið er komið.

Sonur minn, við skulum ganga

tveir út í hagann og safna

okkur sóleyjum í vendi

glaðir tína í lófann

nokkur gullin blóm.

Svo berum við þau heim

eins og bjart sólskin í hendi.

Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur, brást vel við beiðni Læknablaðsins um hugleiðingu að eigin vali, sem fylgt gæti lesendum þess inn í sumarið. Enginn vafi leikur á að orð hans munu ná til og mæta skilningi okkar sem flest kynnumst í daglegu starfi okkar um hvað eiginleg hamingja snýst. JB



Þetta vefsvæði byggir á Eplica