07/08. tbl 92. árg. 2006

Fræðigrein

meðal íslenskra karlmanna á aldrinum 45-75 ára

Ágrip

Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tíðni ristruflana er há meðal karlmanna og að þær aukast með aldrinum. Einnig hefur komið fram sterk fylgni við ýmsa sjúkdóma eins og sykursýki og æðasjúkdóma. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni og orsakir ristruflana meðal íslenskra karlmanna á aldrinum 45-75 ára.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 4000 karlmenn á aldrinum 45-75 ára sem valdir voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Þeir fengu sendan spurningalista með 27 spurningum; þar af voru fimm sértækar spurningar til að meta stig ristruflana samkvæmt alþjóðlegum stöðluðum kvarða (International Index of Erectile Function, IIEF-5). Að auki var spurt um ólíka þætti varðandi sjúkdóma, lyf og kynlífsheilsu.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 40,8%. Í ljós kom að algengi ristruflana meðal þátttakanda var hátt, eða 35,5%. Marktækur munur kom fram meðal yngstu og elstu þátttakendanna: 21,6% karlmanna í yngsta hópnum fá einhvers konar ristruflanir og 62,3% karlmanna í elsta hópnum. Marktækir áhættuþættir fyrir ristruflunum auk aldurs reyndust vera daglegar reykingar, sykursýki, hátt kólesteról, kvíði og þunglyndi. Kynlífsáhugi og kynlífsvirkni karlmanna í öllum aldurshópum er há. Læknar spyrja karlmenn sjaldan út í kynlífsvanda og einungis um 24% þeirra sem hafa ristruflanir hafa fengið meðferð.

Ályktun: Há tíðni ristruflana hér á landi er sambærileg við tíðnina í öðrum löndum. Marktækir áhættuþættir eru þeir sömu og fyrir hjarta- og æðasjúkdóma og gilda því sömu leiðbeiningar til forvarna fyrir ristruflanir og fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.

Inngangur

Ristruflanir hafa verið skilgreindar sem vangeta til að fá eða viðhalda nægilegri stinningu sem nauðsynleg er til fullnægjandi samfara (1).

Með tilkomu nýrra lyfja við stinningarvanda karla hefur aukin athygli beinst að ristruflunum. Um allan heim hafa verið gerðar athuganir á tíðni ristruflana sem hafa leitt í ljós að vandamálið er mjög algengt og fer vaxandi með hækkandi meðalaldri þjóða. Tíðni ristruflana í ýmsum löndum hefur mælst frá 2% hjá körlum yngri en 40 ára til 80% hjá áttræðum og eldri (2). Erfitt er að bera saman niðurstöður um tíðni ristruflana á milli landa og rannsókna þar sem tíðnitölur byggjast á ólíkri aðferðafræði, skilgreiningum eða skilningi meðal þjóða á ristruflun. Einnig þarf að skoða tíðni með tilliti til annarra samhliða sjúkdóma og aldurs. Ein þekktasta rannsóknin sem gerð hefur verið á þessu sviði er svonefnd ?Massachusetts Male Aging Study?. Hún sýndi að ríflega helmingur, eða 52% karlmanna á aldrinum 40-70 ára, fann fyrir ristruflun af einhverju tagi (3). Rannsóknin gaf til kynna mjög sterka fylgni milli ristruflana og aldurs, auk þess sem jákvæð fylgni kom fram við reykingar þátttakenda og samhliða sjúkdómum eins og hjartasjúkdómum, háþrýsting, hækkaða blóðfitu, sykursýki og þunglyndi. Fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á sömu niðurstöður (4, 5). Til er íslensk rannsókn á ristruflunum meðal 226 sykursjúkra karlmanna og sýndi hún sambærilega tíðni og í öðrum löndum. Ristruflun reyndist há: 40% hjá körlum með sykursýki af tegund 1 (meðalaldur 51,9 ár) og 56% hjá körlum með sykursýki af tegund 2 (meðalaldur 62,5 ár) (6).

Hingað til höfum við litið til annarra rannsókna og borið okkur saman við erlendar niðurstöður en ekki hafa legið fyrir upplýsingar um tíðni ristruflana almennt á meðal íslenskra karlmanna.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni og orsakir risvandamála sem og kynhegðun meðal íslenskra karlmanna.

Aðferðir

Í úrtakinu voru 4000 karlmenn á aldrinum 45-75 ára og voru þátttakendur valdir með slembivali úr þjóðskrá. Þeir fengu sendan lista með 27 spurningum sem þeir voru beðnir að svara (sjá spurningalista í viðauka).

Til að meta stig ristruflana var notaður alþjóðlegur kvarði með fimm spurningum (International Index of Erectile Function, (IIEF-5) (7) sem hafði verið þýddur á íslensku og forprófaður. Þetta eru spurningar 3-7 í spurningalistanum. Fyrir hverja spurningu er hægt að fá núll til fimm stig. Stuðull fyrir ristruflun er fundinn með því að leggja saman útkomu úr þessum fimm spurningum. Einstaklingur sem er ekki með neina ristruflun fær 22-25 stig, væga ristruflun 17-21 stig, væga til miðlungs 12-16 stig, miðlungs 8-11 stig og mikla ristruflun 1-7 stig (mynd 1). Þeir karlmenn sem höfðu ekki reynt að hafa samfarir eða fengið kynferðislega örvun voru einungis hafðir með í greiningunni ef þeir voru annaðhvort í föstu sambandi eða höfðu fengið læknisfræðilega greiningu á ristruflun (7). Einhleypir karlmenn sem ekki höfðu reynt samfarir eða fengið kynferðislega örvun voru ekki hafðir með í greiningunni. Auk spurninga til að meta tíðni ristruflana var spurt um ólíka þætti varðandi sjúkdóma, lyf og kynlífsheilsu og um aðra félagslega þætti sem verða ekki til umfjöllunar í þessari grein.

Hópnum var skipt upp í þrjú aldursbil: 45-54 ára, 55-64 ára og 65-75 ára.

Tölfræðileg martækni var reiknuð með t-prófum og dreifigreiningu (ANOVA) þar sem munur á meðaltölum var metinn og með kí-kvaðrat í krosstöflum. Fylgni mögulegra áhrifaþátta við ristruflun karla var skoðuð með Pearsons?s fylgnistuðlinum. Línulegri aðhvarfsgreiningu (ordin­ary least squares multiple regression) var síðan beitt til þess að skoða hversu mikið af breytileika í ristruflunum, mældum með IIEF, þessir þættir skýrðu. Til að skoða hvað greinir einkum á milli þeirra karla sem eiga við ristruflanir að stríða og þeirra sem ekki hafa slík vandamál var notað forritið "AnswerTree" (CHAID algóritma) (8, 9).

Rannsóknin var gerð í apríl 2004 og IMG Gallup sá um framkvæmd hennar.

Niðurstöður

Mynd 1: Tíðni ristruflana hjá íslenskum karmönnum á aldrinum 45-75 ára.

Mynd 2: Tíðni ristruflana með tilliti til aldurs. Í síðasta dálknum eru sýnd meðalstig ristruflana í hverjum aldurshópi.

 

 

Mynd 3: Tíðni samfara skipt eftir aldurshópum.

Mynd 4. Hversu miklu máli kynlíf skiptir íslenska karlmenn með tilliti til aldurs.

Alls bárust svör frá 1633 karlmönnum sem er 40,8% svarhlutfall. Af þeim svöruðu 1503 póstlista, 72 með tölvupósti og 58 í síma. Um 85% voru kvæntir eða í sambúð.

Fyrir allan hópinn kom í ljós að 35,5% karlmanna á aldrinum 45-75 ára höfðu fundið fyrir ristruflunum af einhverju tagi (21 stig eða minna á IIEF-5 kvarðanum) síðastliðna sex mánuði (mynd 1). Þegar þessar niðurstöður eru heimfærðar á þýði samsvarar það að um það bil 14.600 íslenskra karlmanna á aldrinum 45-75 ára þjáist af ristruflun af einhverju tagi.

Þegar tíðni risvandamála er skoðuð með til- liti til aldurs er vandamálið marktækt meira hjá mönnum í elsta aldursflokknum en þeim yngsta (mynd 2). Þeir sem voru með miðlungs eða mikla ristruflun voru 2,7% í yngsta aldurshópnum á móti 25,4 % í elsta hópnum. Niðurstöður sýna jafnframt að rúm 60% karlmanna á aldrinum 65-75 ára finna fyrir ristruflunum af einhverju tagi.

Þegar kynhegðun íslenskra karlmanna er skoðuð kemur einnig í ljós munur á milli aldurshópa (mynd 3). Þar má sjá að yfir 60% karla í elsta aldurshópnum, 65-75 ára, hafa samfarir einu sinni eða oftar í mánuði og 30% oftar en þrisvar í mánuði. Einnig kemur í ljós að kynlíf skiptir karlmenn frekar eða mjög miklu máli í öllum aldurshópum (mynd 4).

Af öllum þeim karlmönnum sem höfðu fund-ið fyrir ristruflun af einhverju tagi fengu aðeins um 24% meðferð og af þeim töldu rúm 84% meðferðina hafa haft mjög góð eða frekar góð áhrif. Þess ber þó að geta að þeir sem svöruðu spurningu um þetta atriði voru tiltölulega fáir, eða 165 karlmenn. Rúmlega helmingur þátttakenda svaraði því til að þeir ættu auðvelt með að ræða risvandamál við lækninn sinn en læknir hafði spurt einungis um 10% karlanna út í risvandamál af fyrra bragði.

Í töflu I er með fjölbreytuaðhvarfsgreiningu litið til þeirra þátta sem taldir voru hafa fylgni við ristruflanir. Í ljós kom að aldur, daglegar reykingar, sykursýki, hátt kólesteról, kvíði og þunglyndi hafa sterkustu fylgnina við ristruflanir. Rúmlega 21% aðspurðra reykti daglega. Í töflunni má sjá hve mikil áhrif þeirra breyta sem sýna marktæka fylgni við ristruflanir eru. Ristruflanir eru mældar á kvarða frá 1-25 (5-25 hjá einhleypum karlmönnum) þar sem lægri einkunn þýðir meiri ristruflanir. Hallatalan segir til um hversu mikil áhrif breyturnar í töflunni hafa á ristruflanir, þannig lækkar einkunnin á kvarðanum 1-25 til dæmis að jafnaði um 0,274 stig fyrir hvert ár sem svarendur eldast. Karlar sem eru 70 ára eru þannig að jafnaði með 6,85 stigum lægri einkunn en þeir sem eru 40 ára eftir að tillit hefur verið tekið til annarra breyta í töflunni. Fjórar breytur eru notaðar til að skoða áhrif reykinga og eru þeir sem reykja daglega líklegri til að eiga við ristruflanir að stríða heldur en þeir sem aldrei hafa reykt eru að jafnaði með 1,037 lægri einkunn. Ekki er marktækur munur á þeim sem reykja sjaldnar en daglega eða eru hættir að reykja og þeim sem aldrei hafa reykt.

Umræður

Rannsóknin sýnir að tíðni ristruflana meðal íslenskra karlmanna er há og fer vaxandi með aldri. Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir (3). Auk aldurs eru reykingar, sykursýki, kvíði og þunglyndi og hátt kólesteról marktækir áhættuþættir. Það vekur athygli að hækkaður blóðþrýstingur sýndi ekki marktæka fylgni við ristruflanir í þessari rannsókn þó að öðru leyti séu áhættuþættir fyrir ristruflun þeir sömu og fyrir kransæðasjúkdóma, enda eru orsakir fyrir ristruflunum taldar í flestum tilvikum vera tengdar blóðrásartruflunum til getnaðarlims. Nýleg rannsókn sýndi að ristruflun ein og sér gefur til kynna æðakalkanir án einkenna óháð hinum hefðbundnu áhættuþáttum fyrir hjarta- og æðasjúkdóma (10). Þannig er ristruflun talin vera viðbótar snemmbúið viðvörunarmerki fyrir hjartasjúkdóma.

Kvíði og þunglyndi hafa sterka fylgni við ris-truflanir sem í raun eru einnig algengt vandamál meðal hjartasjúklinga. Á undanförnum árum hefur farið fram markviss kynning og fræðsla til almennings á áhættuþáttum kransæðasjúkdóma, en þessir áhættuþættir hafa ekki verið kynntir sem þeir sömu og fyrir ristruflanir. Ætla má að allt sem getur dregið úr offitu, lækkað blóðfitu og blóðsykur dragi úr líkum á ristruflunum. Dagleg og markviss líkamsrækt ásamt mataræði skiptir máli í þessu sambandi og hefur jákvæð áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að þriðjungur karlmanna með ristruflun gátu með lífsstílsbreytingu, svo sem líkamsrækt og þyngdartapi, fengið eðlilegt ris (11).

Hlutfall þeirra íslensku karlmanna sem finna fyrir ristruflun er hátt og þegar rýnt er enn frekar í tölurnar og tíðnin skoðuð með tilliti til aldurs kemur fram skýr aldurstengd marktækni. Eldri karlmenn fá frekar ristruflanir: Rúm 60% karlmanna á aldrinum 65-75 ára fá ristruflanir af ein-hverju tagi og um fimmtungur mikla ristruflun eða rís ekki hold.

Það sem kemur mest á óvart í þessari rannsókn er kynlífsvirkni karlmanna á aldrinum 65?75 ára. Sú ímynd er ríkjandi að með aldrinum dragi úr löngun til kynlífs og þar með gildi þess fyrir karlmenn, en þessi rannsókn bendir til hins gagnstæða. Í ljós kom að yfir 60% karla á aldrinum 65-75 ára hafa samfarir oftar en einu sinni í mánuði þrátt fyrir að þetta sé sá hópur sem finnur fyrir hvað mestum ristruflunum. Einnig kom í ljós að 65% karlmanna á aldrinum 65-75 ára sögðu kynlíf skipta miklu máli í lífi þeirra og að áhuginn hefði síður en svo minnkað með aldrinum (mynd 4). Þessar niðurstöður eru enn athyglisverðari í ljósi þess að einungis um fjórðungur þeirra sem finna fyrir ristruflunum hafa fengið viðeigandi meðferð. Þetta er í samræmi við aðrar sambærilegar rannsóknir (12). Ástæður þess að menn leita sér ekki aðstoðar við ristruflunum geta verið margvís-legar en víst þykir að feimni spilar þar stóran þátt. Mörgum þykir óþægilegt og jafnvel óæskilegt að bera þessi vandamál upp við lækninn sinn og að sama skapi finnst lækni vandamálið stundum vera þess eðlis að hann eigi ekki að fást við það. Margir karlmenn, einkum þeir yngri, telja ástandið vera tímabundið og leysast af sjálfu sér. Auk þess má ætla að margir eldri karlmenn telji sér trú um að þetta sé eðlilegt ástand sem fylgi aldrinum.

Í okkar rannsókn var ekki spurt nákvæmlega um einkenni frá neðri þvagvegum að öðru leyti en því hvort menn hefðu haft vandamál frá blöðruhálskirtli. Aðrar rannsóknir hafa hins vegar sýnt marktækt samband á milli þessara einkenna og ristruflana (5).

Svarhlutfall í rannsókninni var einungis 40,8%. Þótt þetta sé fremur lágt hlutfall verður það þó að teljast ásættanlegt í póstkönnun, ekki síst þegar viðfangsefnið er viðkvæmt. Það vaknar þó ?óneitanlega sú spurning hvort þau 40% sem svöruðu könnuninni gefi skekkta mynd af þeim 60% sem kusu að svara ekki. Til að meta hugsanleg áhrif svörunar á hlutfall ristruflunar var ristruflun greind eftir því hvernig og hvenær menn svöruðu. Í ljós kom að meðaleinkunn ristruflana var mjög svipuð í öllum flokkum (19,9-22,0). Þetta er talið vísbending um að vandamálið sem slíkt ráði engu um það hvort menn svara eða ekki. Annað atriði sem styður að um trúverðugan þverskurð af þjóðfélaginu sé að ræða er að hlutfall karla sem reykja daglega er sambærilegt því sem aðrar rannsóknir hafa sýnt (13).

Niðurstöður sýndu að lægst svarhlutfall var meðal einhleypra karlmanna. Í svarendahópnum er töluvert hærra hlutfall giftra/í sambúð heldur en í þjóðskrá og þá um leið lægra svarhlutfall í hópi einhleypra/fráskilinna. Samkvæmt þjóðskrá voru 74,2% karlmanna á aldrinum 45-75 ára kvæntir/í sambúð en rúm 85% í svarendahópnum í könn-uninni. Aðrar rannsóknir sýna að svarhlutfall er alla jafna lægra hjá ungum einhleypum karlmönnum sem hlotið hafa litla formlega menntun (14-16).

Lokaorð

Tíðni risvandamála er síst minna hérlendis en í öðrum löndum. Um 35% íslenskra karlmanna á aldrinum 45-75 ára hafa ristruflun á einhverju stigi. Minnst ber á ristruflun meðal yngri karlmanna en mest meðal þeirra eldri. Daglegar reykingar og sykursýki auka mest líkurnar á ristruflun. Aðrir marktækir áhættuþættir eru kólesteról, kvíði og þunglyndi. Helstu áhættuþættir ristruflana eru þeir sömu og fyrir hjarta- og æðasjúkdóma og því gilda sömu almennu ráðleggingarnar til karlmanna í báðum tilvikum, það er að reykja ekki, halda sér í kjörþyngd og leitast við að halda blóðsykri og blóðfitu innan eðlilegra marka.

Í rannsókninni kom fram að kynlíf skiptir karlmenn á öllum aldri miklu máli. Margir karlmenn eiga erfitt með að ræða kynlífsvanda við lækninn sinn og læknar eiga sjaldan frumkvæðið að umræðu um ristruflanir. Jafnframt kom í ljós að þeir fáu sem leituðu eftir aðstoð fengu í flestum tilvikum einhverja bót.

Þakkir

Við viljum þakka lyfjafyrirtækinu Pfizer fyrir fjárhagslegan stuðning við rannsóknina.

Heimildir

1. NIH Consensus Development Panel on Impotence: Impotence. JAMA 1993; 270: 83-90. 
2. Prins J, Blanker MH, Bohnen AM, Thomas S, Bosch JL. Prevalence of erectile dysfunction: a systematic review of population-based studies. Int J Impot Res 2002; 14: 422. 
3. Feldman HA, Goldstein I, Hatzichristou DG, Krane RJ, McKinlay JB. Impotence and its medical and psychosocial correlates, results of the Massachusetts Male Aging Study. J Urol 1994; 151: 54-61.
4. Seftel AD, Sun P, Swindle R. The prevalence of hypertension, hyperlipidemia, diabetes mellitus and depression in men with erectile dysfunction. J Urol 2004; 171: 2341. 
5. Shabsigh R, Perelman MA, Lochcard DC, Lue TF, Broderick GA. Health issues of men: prevelance and correlates of erectile dysfunction. J Urol 2005;174: 662-7. 
6. Hreiðarsson A, Ásbjörnsdóttir NB, Einarsson GV, Jensdóttir SY, Jóhannesson A. Prevalence of erectile dysfunction in an outpatient population of men with diabetes - relationship to glycemic control. Int J Impot Res 2003; 15, suppl. 6.
7. Rosen RC, Capelleri JC, SmithMD, Lipsky JPena BN. Development and evaluationa of an abriged, 5-item version of the International Index of Erectile Function (IIEF-5) as a diagnostic tool for errectile dysfunction. Int J Impot Res 1999; 11:5 9-74.
8. SPSS (2001). Answer Tree 3.0 User´s guide. Chicago: SPSS Inc. 
9. SPSS (1999). AnswerTree Algorithm Summary. Technical Report ATALGWP-0599. Chicago: SPSS Inc.
10. Chiurlia E, D?Amico R, Ratti C, Granata AR, Romagnoli R, Modena MG. Subclinical coronary artherosclerosis in patients with erectile dysfunction J Am Coll Cardiol. 2005; 46: 1503-6.
11. Esposito K, Giugliano F, Di Palo C, Giugliano G, Marfella R, D?Andrea F, et al. Effect of lifestyle changes on erectile dysfunction in obese men: a randomized controlled trial. JAMA 2004; 291: 2978. 
12. Shabsigh R, Perelman MA, Laumann EO, Lockhart DC. Drivers and barriers to seeking treatment or erectile dysfunction: a comparison of six countries. BJU Int 2004; 94: 1055.
13. Lýðheilsustöð. Umfang reykinga ? samantekt 2004. Sótt 6. nóvember 2005 af www.lydheilsustod.is/media/tobaksvarnir/rannsoknir//13448_tobak_arsskyrsla_191104.pdf
14. Fowler FJ Jr. Nonresponse Bias in mail Surveys of Health Plan Members. Proceedings of the American Statistical Association, Section on Survey Research Methods. Alexandria, VA: American Statistical Association 1998: 576-80.
15. Lasek RJ, Barkley W, Harper DL, Rosenthal GE. An Evaluation of the Impact of Nonresponse Bias on Patient Satisfaction Surveys. Medical Care 1997; 35: 646-52.
16. McHorney CA, Kosinski M, Ware JE. Comparisons of the Costs and Quality of Norms for the SF-36 Health Survey Collected by Mail Versus Telephone Interview: Results from a National Survey. Medical Care 1994; 32: 551-67.

 

gug@landspitali.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica