06. tbl 92. árg. 2006

Íðorð 188. Meira um sérgreinaheiti

p01-hofny

Frá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins barst fyrirspurn um heitið hematology. Spurt var hvert af eftirtöldum íslenskum heitum ætti helst að nota: blóðfræði, blóðmeinafræði eða blóðsjúkdómafræði.

Hematology

Heitið er grískt að uppruna, myndað úr haimatos, sem þýðir blóð, og logia, sem þýðir fræði eða fræðigrein. Geta má þess að í samsettum læknisfræðiheitum er ýmist vísað til blóðsins með hem-, hema-, hemo-, hemat- eða hemato-. Samkvæmt læknisfræðiorðabók Dorlands er hematologia sú grein heilbrigðisvísinda sem fæst við blóð og blóðmyndandi vefi. Bein þýðing á gríska heitinu er blóðfræði, sem er lipurt, almennt heiti og í fullu samræmi við skilgreiningu orðabókarinnar. Það kemur þegar fram í Íslenskum læknisfræðiheitum Guðmundar Hannessonar frá 1954. Í Íðorðasafni lækna var hins vegar tekin sú stefna að birta einungis heitið blóðsjúkdómafræði.

Sérgreinaheiti

Undirritaður skoðaði ýmsar fleiri skilgreiningar á hematology. Þær reyndust misjafnlega ítarlegar og sértækar, enda vafalaust horft til greinarinnar á svolítið mismunandi hátt. Ítarlegust var skilgreining læknisfræðiorðabókar Stedmans: Sérgrein læknisfræði sem tekur til vefjafræði, lífeðlisfræði, meinafræði, einkenna og meðferðar sjúkdóma í blóði og blóðmyndandi vefjum. Önnur nokkuð sambærileg kom fram við netleit: Sú grein læknisfræði sem fæst við blóðið, blóðmyndandi vefi, blóðsjúkdóma og meðferð þeirra. Rétt er að benda á að þessar heimildir líta til greinarinnar af sjónarhóli læknisfræði, en til hennar mætti einnig líta af sjónarhóli annarra starfs- og fræðigreina, svo sem líffræði, lífeindafræði og hjúkrunarfræði.

 

Fræðigrein - starfsgrein

Áður en lengra er haldið langar undirritaðan til að vekja máls á þeirri hugmynd að gerður sé viss greinarmunur á fræðigrein og starfsgrein. Fræðigrein er það samsafn þekkingar sem tilheyrir nafngreindri og skilgreindri grein, svo sem blóðfræði, en starfsgrein er skilgreindur eða hefðbundinn starfsvettvangur tiltekinna starfsmanna, svo sem blóðrannsóknir og blóðlækningar. Læknaráð Landspítala hefur nýlega sett fram þá almennu stefnumörkun að starfsgreinar lækna beri heiti sem enda á -lækningar.

 

Samheiti eða ekki?

Fyrrgreind íslensk heiti eru því ekki jafngild samheiti. Blóðfræði er ágætt almennt heiti á fræðigreininni hematology, en blóðmeinafræði er heiti á þeirri starfsgrein sem felur í sér rannsóknir á blóði og blóðsjúkdómum, á ensku laboratory hematology. Sú starfsgrein lækninga, sem felur í sér greiningu og meðferð blóðsjúkdóma, á ensku clinical hematology, ætti hins vegar að heita blóð- eða blóðsjúkdómalækningar.

En hvað er þá blóðsjúkdómafræði? Samkvæmt ofanrituðu færi best á því að takmarka notkun þess heitis við þá fræðigrein (þekkingargrein) sem liggur að baki þeim starfsgreinum sem lúta að rannsóknum, greiningu og meðferð á blóðsjúkdómum.

 

Orðskrípi

Ólöf Erna Adamsdóttir, ritari forstjóra Landspítala, er í hópi þeirra mörgu starfsmanna sem vilja vanda hið ritaða mál, en fá stundum ekki rönd við reist þegar margvísleg orðskrípi úr talmáli flæða um síður. Hún sendi tölvupóst og sagðist hafa séð í texta að á spítalanum færi fram móttaka slysa. Þarna átti augljóslega að standa móttaka slasaðra, en fullkomið hugsunarleysi hefur ráðið því að sjúklingarnir gleymdust. Fyrir utan þá rökvillu að „slysið” berist inn á móttökudeild, þá er varla hægt að sýna sjúklingi meiri óvirðingu en að hlutgera hann og tala um „umferðarslysið síðan í morgum” eða „gallblöðruna á stofu 7”.

Ólöf benti einnig á skriflegar leiðbeiningar um sárameðferð þar sem finna má orðið sáraskipting. Samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu er nafnorðið skipting deiling, sundurhlutun, reik í hári, klof, klyftir, breyting, skipti. Hvorki er verið að gefa til kynna að skipta eigi sári í hluta né að skipta eigi um sár. Leiðbeiningarnar snúast um verklag við að skipta um umbúðir á sári eða um það hvernig umbúðaskipti fari fram.

 

Epidermal peel

Sigurður Helgason, læknir, sendi fyrirspurn í tölvupósti um íslenskt heiti á fyrirbærinu epidermal peel. Um er að ræða fegrunaraðgerð á yfirborði andlitshúðar sem felst í því að fjarlægja eitt eða fleiri af ystu lögum húðþekjunnar (epidermis) með tiltekinni aðferð. Aðferðin, sem ber heitið chemical peel, felst í því að sérstakt efni er borið á húðina og látið storkna í samfellda himnu, sem síðan er flett af yfirborðinu með þeim lögum húðþekjunnar (væntanlega fyrst og fremst stratum corneum) sem við himnuna loða. Að sögn getur þetta lagfært hrukkur og ýmsar litarbreytingar.

Fyrir lá sem sagt að finna nafnorð sem lýsti verknaði (aðgerðinni). Í orðabókum mátti ýmislegt finna til að gera úr verknaðarheiti: afhýðing, fláning, fletting, flusun, flysjun, skræling. Af þessu hugnaðist undirrituðum best orðið flysjun, en úr því má búa til heitið efnaflysjun. Um það sem af losnar má nota hvorugkynsnafnorðið flys (flysið). Vilja lýta- eða húðlæknar einnig leggja orð í belg.

johannhj@landspitali.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica