05. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Þankar um þagnarskyldu

Benedikt Ó Sveinsson

Undanfarna mánuði hefur þagnarskylda lækna verið til umfjöllunar hjá Siðfræðiráði Læknafélagsins. Ástæðan eru aðstæður sem upp hafa komið á vissum vinnustöðum lækna þar sem félaga hefur greint á um hversu strangt skuli halda í heiðri þessa ævafornu meginreglu um trúnað við sjúklinga.

Öllum læknum er reglan um trúnað og þagnarskyldu afar mikilvæg og líta margir svo á að hér sé um meginreglu að ræða, sem ekki megi víkja frá. Breyttar þjóðfélagsaðstæður hafa hins vegar knúið löggjafann til að setja lög og reglur sem á tíðum ganga þvert á trúnaðareiðinn um þagnarskyldu og þannig skapast aðstæður sem geta komið okkur læknum í alvarlega samviskuklípu.

Besta dæmið um svona aðstæður eru ,,burðardýr”, þeir sem bera eiturlyf innvortis og leita sér lækninga vegna yfirvofandi garnastíflu, en biðja um leið að trúnaði og að þagnarskyldu sé heitið gagnvart lögreglu, en um þetta hefur nýlega verið fjallað í pistli hér í Læknablaðinu.

Sum samskipti lækna við sjúklinga eru viðkvæmari en önnur, þar sem mikilvægt er að halda algjörum trúnaði. Í þessum flokki eru meðal annars kynsjúkdómar og ótímabærar þunganir unglingsstúlkna. Á þennan trúnað og samskipti reynir oftast hjá heimilislæknum og kven- og kynsjúkdómalæknum. Þar sem slík vandamál koma upp, hjálpa lögin að vissu marki. Sé unglingurinn, barnið, innan fjórtán ára aldurs er um refsiverðan glæp að ræða sem tafarlaust ber að tilkynna barnaverndaryfirvöldum og eða lögreglu og ganga lögin þar ótvírætt framar eið um þagnarskyldu og trúnað. Málið vandast hins vegar þegar um einstakling á aldursbilinu fjórtán til átján ára er að ræða. Ósjaldan koma mæður eða feður með börnum sínum til viðtals og skoðunar á þessum aldri og vilja vita niðurstöður rannsókna, til dæmis úr kynsjúkdómaræktunum, hvort um þungun sé að ræða og hversu langt gengin og svo framvegis. Það er hins vegar alveg klárt að megin þorri þessara unglinga vill vera sjálfstæður og halda þessum upplýsingum leyndum fyrir foreldrum sínum. Hér er greinilega um grátt svæði að ræða þar sem þagnarskyldan og lögin greinir á hvernig tekið skuli á málum. Gott dæmi um þetta er nýlegt baksíðuviðtal í Morgunblaðinu við prófessor og forstöðulækni Kvennadeildar, en þar stendur:,,Dæmi eru um fóstureyðingar hjá stúlkum án vitneskju foreldra”. Þar segir jafnframt: ,,Dæmi eru um að unglingsstúlkur gangist undir fóstureyðingu hér á landi án þess að foreldrar þeirra viti af, en þau tilfelli eru hins vegar fátíð... slík tilvik komi helst upp þegar félagslegar aðstæður eru erfiðar hjá barninu eða foreldrum, svo sem við mikla fíkniefnaneyslu eða óreglu og ef lítið eða ekkert samband er milli unglingsins og foreldranna. Í slíkum tilfellum verðum við læknarnir stundum að láta þagnarskyldu og trúnað ganga framar landslögum.

Geðlæknar lenda og oft í svipaðri stöðu þar sem sjúklingar upplýsa mál gegn þagnarskyldu og trúnaði. Mál sem oftast lúta að nánasta skjólstæðingi, maka, börnum og ættingjum, en geta líka verið játning á alvarlegum refsiverðum glæp samkvæmt hegningarlögum. Hvar á að draga mörkin? Hver er réttarstaða þeirra lækna, sem þegja yfir upplýsingum um refsiverðan glæp? Þetta er vissulega efni til íhugunar.

En hvers virði er annars þagnarskylda okkar læknanna, einkum og sér í lagi þeirra sem vinna á heilsugæslustöðvum og stærri spítölum eins og Landspítala. Þar er nú búið að rafvæða allar sjúkraskrár, þar sem læknar og deildarhjúkrunarfræðingar eiga auðveldan aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum um sjúklinga, sem eru ekki og hafa aldrei verið þeirra skjólstæðingar. Á þetta hefur reynt að undanförnu þar sem ólíklegustu aðilar voru að hnýsast í einkamál eins af veikum félaga okkar. Hér virðist þarft verk að vinna. Hvað sem líður þægindunum að geta án tafar flett upp upplýsingum um sjúklinga, mega þau þægindi aldrei bera þagnarskyldu og trúnað okkar við sjúklinga ofurliði. Ég skora á alla félaga í læknastétt að ígrunda þetta mál vel. Koma með tillögur til úrbóta ella spyrna við fótum.

ben@centrum.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica