04. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Aldarminning

Kjartan R. Guðmundsson læknir

Öld er nú liðin frá fæðingu Kjartans R. Guð­mundssonar læknis. Hann leit fyrst dagsins ljós þann 14. apríl árið 1906 að Ytri-Skógum í Austur-Eyjafjallahreppi í Rangárþingi. Mér þykir vel við hæfi við þessi hans eigin aldarhvörf að minnast hans og votta honum verðskuldað þakklæti og virðingu. Í vitund minni var hann fyrsti íslenzki læknirinn sem helgaði taugalæknisfræðinni starf sitt allt. Hann ruddi þessari merku sérgrein braut til sjálfstæðis og treysti undirstöður hennar og framgang með markvissu klínísku starfi og með miklum rannsóknum. Hann lagði hornsteinana að þeirri sjálfsögðu viðurkenningu á ekki aðeins tilvist heldur og einnig mikilvægi sérgreinarinnar í hinu samtengda mennta- og heilbrigðissamfélagi. Víst var hann ekki ávallt einn á ferð en oftast fór hann fremstur. Hann var og ekki fyrsti íslenzki lækn­irinn sem fékk sérfræðiviðurkenningu í tauga­sjúkdómum. Hann var þar annar í röðinni en Jó­hann Sæmundsson prófessor fékk þessa viður­kenn­ingu fyrstur íslenzkra lækna og var það árið 1938. Prófessor Jóhann kenndi taugasjúkdómafræðin, jók þekkingu á taugasjúkdómum og opnaði hliðin. Þá menntuðust hinir eldri geðlæknar einnig nokkuð í taugasjúkdómafræði og tíðkaðist um árabil að þeir fengju sérfræðiviðurkenningu í bæði geð- og taugasjúkdómum en starf sitt helguðu þeir næsta alfarið og undantekningarlítið geðsjúkdómum.

Kjartan nam taugafræði sín meðal frænda okkar á Norðurlöndum - aðallega í Danmörku en einnig í Svíþjóð. Svo fór hann vissulega víðar um síðar meir og var m.a. tíður gestur á Queen Square í Lundúnum. Hann hóf störf hér árið 1941 og fékk sérfræðiviðurkenningu í taugasjúkdómafræði árið 1942. Hann var mikilvirkur sjálfstætt starfandi taugasjúkdómafræðingur í 25 ár en hann varð jafnframt ráðgefandi sérfræðingur í taugasjúkdómum á Landspítalanum frá árinu 1957 og gegndi því starfi í raun til dauðadags og þá einnig eftir að hann varð yfirlæknir taugasjúkdómadeildarinnar við stofnun hennar árið 1967 ásamt Gunnari Guðmundssyni taugalækni sem var kynslóð yngri.

Kjartan hóf nánast við upphaf ferils síns rannsóknir á faraldsfræði taugasjúkdóma á Íslandi. Hann fór ferðir margar um landið í þessum tilgangi og var óþreytandi. Hann kannaði MS sjúkdóminn, Parkinsonveiki, MND (ALS), heilalömun (cerbral palsy) og fjölmarga sjaldgæfari sjúkdóma í taugakerfi, s.s. dystrophia myotonica og Huntington choreu, syringomyeliu, myotoniur (dystoníur) sérstaklega, muscular dystrophiur og myasthenia gravis og birti um niðurstöður sínar greinar í alþjóðlegum og innlendum vísindaritum og kynnti hér einn eða með öðrum einkum síðar. Hann var og þátttakandi í rannsókn á Akureyrarveikinni (1948) og Patreksfjarðarveikinni (1955) og meðhöfundur að greinum um þær. Þá átti hann samantektir um flogaveiki og heilaæxli og yfirlit um æðasjúkdóma í heila þótt ekki kæmi til greinaskrifa eða þá að frekari vinna kom fyrr eða síðar í hlut annarra. Niðurstöður rannsókna Kjartans hafa haldið velli til dagsins í dag og endurteknar kannanir staðfesta að hann fór nær sanni í hvívetna í niðurstöðum sínum. Rannsóknarstarf Kjartans var með ólíkindum mikið og margþætt og hann varði doktorsritgerð sína um faraldsfræðilegar rannsóknir á taugasjúkdómum á Íslandi árið 1974.

Kjartan varð kennari við læknadeild árið 1959 og hét þá aukakennari en hann kleif upp stigann og árið 1974 varð hann fyrsti prófessorinn í taugasjúkdómafræði við læknadeild Háskóla Íslands og gegndi því starfi þar til sjötugs.

Kjartan beitti sér fyrir stofnun taugasjúkdómadeildar og festi sérgreinina betur í sessi og jók veg hennar, virðingu og sjálfstæði. Sess þennan skipaði sérgreinin auðvitað þá þegar og löngu fyrr meðal þeirra sem við miðum okkur við. Deild bætir klíníska þjónustu við þá sem sjúkdóma hafa í taugakerfi, þekkingaröflun verður meiri með lærdómi og reynslu og betri aðstaða til rannsókna og kennslu sem og til þróunar stoðgreina.

Kjartan gerði sér vel grein fyrir nauðsyn sjálf­stæðrar akademískrar stöðu taugasjúkdómafræð­innar. Hann hafði lagt mikið að mörkum með rannsóknum sínum. Hann beitti sér fyrir háskóla­stöðum í sérgreininni og barátta hans skilaði stig­vax­andi árangri og hann var skipaður prófessor í taugasjúkdómafræði árið 1974 eins og fyrr er greint frá. Sérgreinin var nú enn betur fest í sessi og sjálfstæði hennar aukið og grundvöllur skapaður fyrir enn frekari kennslu, þjálfun og rannsóknum.

Þessir hornsteinar eru verðugir minnisvarðar Kjartans Guðmundssonar. Á þeim hvílir enn og áfram tilvera, þróun og árangur taugasjúkdómafræðinnar hér á landi.

Vissulega studdum við hann taugasjúkdómalæknarnir sem síðar bættumst í hópinn eftir að við komum heim frá sérnámi okkar og erum nú á brottfararaldri hans úr heimi héðan. En hann fór fyrir af dugnaði og hvatvísi og þekkti lítt til hugtaksins að hopa. Vissulega voru oft ljón á vegi en þegar ég horfi til baka finnst mér sem þeir íslenzku læknar kollegar mínir sem fóru í fararbroddi á þessum hluta 20. aldar hafi umfram allt verið dugnaðarmenn og vel gerðir jafnt í heila sem í hjarta þótt þeir stæðu fast á skoðunum sínum og viðhorfum til sérþekkingar sinnar og því þurftu stundum sannfæringarbreytingar nokkurra átaka við að minnsta kosti á hinu ytra borði.

Ég kynntist Kjartani á kandídatsári mínu. Fas hans var sérstakt, hratt og hiklaust. Svo fljóthuga var hann í tali og rituðu máli að ekki entist hon­um alltaf tími til að ljúka orðum áður en það næsta tók við. Sumir skildu hann því á stundum illa en ég skildi hann alltaf nema e.t.v. einu sinni eða tvisvar. Framganga Kjartans var oft með þeim hætti að skilur eftir margar myndir af atvikum með broslegu ívafi og blæbrigðum. Það átti svo eftir að freista mín að vita eitthvað meira um heilann og ég valdi mér taugasjúkdómafræðina sem sérgrein. Ég leitaði til Kjartans og spurði hann ráða um hvert ég skyldi halda til náms. Hann sagði mér umyrðalaust að fara niður á Queen Square í London en það væri bezti staður veraldar til þess að nema taugasjúkdómafræði. Tíu vikna námskeið myndi byrja eftir fjóra daga og hann gaf mér upp símanúmerið. Þetta var snarhuginn hann. Hins vegar kæmist enginn þar að í stöður til frekara náms nema vera úr brezka samveldinu og eiga enska tungu sem sitt fyrsta mál. Ég þakka honum ráðleggingarnar enn í dag en eftir þeim fór ég og tókst að sanna að einnig hér er engin regla án möguleikans á undantekningum og á Queen Square starfaði ég samfellt lengur en í fjögur ár eftir námskeiðið góða.

Eftir heimkomu mína frá sérnámi varð samvinna okkar Kjartans náin í klínísku starfi, kennslu og í rannsóknum auk þess sem ég studdi heilshugar framsækni hans fyrir taugasjúkdómafræðina. Í ýmsu stóðum við hér og þar um landið okkar góða. Saman rannsökuðum við MS sjúkdóminn, MND og þar langlífi sérstaklega svo og parkinsonismus og áfram héldum við að skoða afleiðingar Akureyrar- og Patreksfjarðarveikinnar. Þá skráðum við margvíslegt fágæti. Fleiri komu að þessu með okkur bæði innlendir og erlendir. Flest hefur verið birt í alþjóðlegum vísindaritum og annað kynnt en sumt tekur kannske aldrei enda og nöfn falla af í birtingu í aldursröð. Ég áttaði mig á því hversu hugfanginn Kjartan var af taugasjúkdómafræðinni og hversu heitt hann unni sérgrein sinni. Hún var honum einskonar uppspretta. Hann lét sér afar annt um skjólstæðinga sína. Hann stofnaði MS félag Íslands og þekkti MS sjúkdóminn hér á landi öðrum taugasjúkdómum betur. Hann velti mjög fyrir sér orsökum sjúkdómsins og setti fram hugmyndir sínar. Og með þennan sjúkdóm í huga hef ég alltaf ímyndað mér að strax eftir að Kjartan kom inn fyrir Gullna hliðið og áður en hann gerði grein fyrir sér með nafnnúmeri sínu (sem auðvitað er ekki þörf þar sem Guð þekkir okkur öll) hafi hann leitað til Drottins um svar við orsök MS sjúkdómsins og náttúrlega verið veitt það og Kjartan þá brugðist við með þeim hætti í framkomu sinni sem einkenndi undrun hans svo einföld sem skýringin hefur verið og er vafalaust.

Hægt er að gleðjast yfir stöðu taugasjúkdómafræði á Íslandi í dag því sá veldur miklu sem upphafinu olli svo breytt sé um framsetningarhátt. Taugasjúkdómafræðin stendur föstum fótum á þeim stoðum sem Kjartan reisti öðrum fremur þótt ekki skuli rýrður þáttur annarra sem honum fylgdu og studdu og hvöttu áfram. Nú er hér enn sem fyrr en fjölmennari hópur vel menntaðra taugalækna með jafnframt sérþekkingu innan sérgreinarinnar eins og mikilvægt er í framþróuninni. Vel er staðið að rannsóknum, kennslu og klínísku starfi og stoðrannsóknadeildir hafa eflst. En þörf er enn fleiri taugalækna og sem fyrr mikilvægt að skilgreining og skipulag starfseminnar taki mið af raunveruleikanum og breytum sem fylgja þróun og framvindu í þjóðfélaginu og uppbygging sérgreinarinnar lúti samræmi.

Kjartan andaðist í Reykjavík 5. október árið 1977. Hann átti ekki afkomendur. Blessuð sé minn­ing hans.

Kjartan R. Guðmundsson læknir 1906-1977.Þetta vefsvæði byggir á Eplica