04. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Skilið á milli kaupanda og seljenda

- Rætt við Jónínu Bjartmarz alþingismann um tillögur nefndar um verkaskiptingu sjúkrahúsa og sérfræðiþjónustu ásamt fleiru

Tvívegis með stuttu millibili troðfylltist fundar­sal­urinn í Öskju af áhugafólki um heilbrigðismál. Fyrst var það þegar Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórn­sýslufræðingur hélt erindi um sameiningu sjúkra­húsanna og í seinna skiptið var það þegar kynntar voru niðurstöður tveggja nefnda sem fjöll­uðu um veigamikla þætti íslenskra heilbrigðis­mála. Önnur nefndin laut forystu Guðríðar Þor­steins­dóttur lögfræðings í heilbrigðisráðuneytinu en hún samdi frumvarp til nýrra laga um heilbrigðisþjónustu. Um það frumvarp fjallar Páll Torfi Ön­und­ar­son í leiðara þessa blaðs.

Hin nefndin laut einnig forystu löglærðrar konu, var reyndar kennd við Jónínu Bjartmarz al­þing­is­mann og kölluð Jónínunefnd. Eftir fundinn líf­lega gekk Læknablaðið á fund Jónínu og ræddi við hana um nefndarstörfin og afrakstur þeirra.

Samkvæmt erindisbréfi ráðherra til nefndarinnar sem gefið var út haustið 2003 var nefndinni falið að gera tillögur um endurskipulagningu verksviða Landspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og verkaskiptingu þessara sjúkrahúsa og annarra aðila í heilbrigðisþjónustu, svo sem einkarekinna læknastofa. Jónína sagðist hafa fengið heimild ráðherra til þess að skoða hlutina í stærra samhengi.

Einn kaupandi heilbrigðisþjónustu

En nú liggur álit nefndarinnar fyrir og þá gerist það að fjölmiðlar taka upp eina hugmynd sem nefndin biður menn að hugleiða og gleyma öllum tillögunum. Hugmyndin um það hvort rétt sé að leyfa þeim sem það geta að borga meira, eða fullt verð án greiðsluþátttöku almannatrygginga, var sett fram sem einn af fjórum valkostum sem þjóðin stæði frammi fyrir í ljósi vaxandi útgjalda til heilbrigðismála. Nú hafa þingmenn og ráðherrar slátrað þeirri hugmynd í þingsölum og kannski hægt að snúa sér að hinum kostunum þremur sem nefndin bað okkur að hugleiða, sem sé hvort það eigi að hækka skatta eða þjónustugjöld eða taka upp nýtt greiðslukerfi vegna ferliverka að evrópskri fyrirmynd.

Svo væri ekki úr vegi að ræða hinar raunveru­legu tillögur nefndarinnar en þær eru allrar at­hygli verðar. Nefndin gerir tillögu um að efla Land­spítala og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri með því að styrkja stöðu þeirra sem burðarása í heilbrigðiskerfinu. Það verði gert með því að lögfesta hlutverk og sérstöðu stóru sjúkrahúsanna tveggja og skipta landinu í tvö svæði sérhæfðrar þjónustu og skilgreina sjúkrhaúsin tvö sem svæðissjúkrahús.Einnig eru tillögur um að styrkja kennslu- og háskólahlutverk þessara tveggja stofnana.

En það sem kannski eru mestu nýmælin í tillögum nefndarinnar er að þar er lagt til að kaupandi heilbrigðisþjónustu verði aðeins einn og að greint verði á milli kaupanda og veitenda þjónustunnar.

"Við viljum að á Landspítala verði sérhæfðustu verkin unnin en þróunin hefur verið sú að æ fleiri verk eru unnin á göngudeildum eða stofum sérfræðinga utan sjúkrahúsa og þar sjáum við fyrir okkur að samninganefnd geti valið um útboð eða samninga, jafnt við sjúkrahúsin og aðra um ferliverk. Við verðum þó að átta okkur á því að á alltof mörgum sviðum er mjög erfitt um vik að koma á samkeppni vegna þess hversu fámenn við erum og markaðurinn lítill," segir Jónína.

Ráðgjafarnefnd greinir þarfirnar

Jónína segir að nefndin taki ekki afstöðu til þess hvar samninganefndinni sé fyrirkomið í stjórnkerfinu en að það geti allt eins verið í heilbrigðisráðuneytinu. "Hennar starf byggist hins vegar á þarfagreiningu sem unnin verður af þverfaglegri nefnd sem á að vera kaupanda þjónustu til ráðgjafar. Úrskurður hennar á að liggja til grundvallar öllum kaupum á þjónustu. Hún á einnig að veita ráðuneytinu ráðgjöf og meta kostnað, hagkvæmni og ávinning af læknisverkum og meðferðarúrræðum. Þar má sjá fyrir sér að nefndin hafni greiðsluþátttöku hins opinbera í einhverjum verkum. Við gerum það reyndar þegar fegrunaraðgerðir, vissar augnaðgerðir og tannlækningar fullorðinna eiga í hlut og það getur alveg farið svo með vaxandi fjárþörf að þeim aðgerðum fjölgi. Fólk er ekki tilbúið til að veita meira fjármagni til heilbrigðisþjónustu.

Eftir því sem útgjöld til heilbrigðismála aukast í takt við fjölgun aldraðra og auknar kröfur lækna og sjúklinga um þátttöku hins opinbera í nýjum meðferðarúrræðum þá hlýtur sú spurning að verða æ áleitnari hvað við viljum borga fyrir. Á einhverjum tímapunkti segja menn hingað og ekki lengra, þetta borgum við ekki fyrir. En slíkar ákvarðanir þurfa að byggjast á mati þessarar nefndar."

Jónína segir að þessi nefnd eigi að vera skipuð óháðum einstaklingum - læknum, siðfræðingum, heilsuhagfræðingum og öðrum fagmönnum. Hún á að fylgjast með því sem gert er í öðrum löndum og geta byggt ákvarðanir sínar á vinnu annarra.

"Nú er þetta hlutverk á mörgum höndum, samninganefnd ríkisins er að skoða þarfirnar, læknadeild HÍ og landlæknir einnig. En þetta á að vera á einum stað og þar eiga allir að geta leitað ráða, bæði ráðherra og veitendur þjónustu. Meginmarkmið tillagnanna er að auka skilvirkni kerfisins, auðvelda samskipti og auka samstarf þeirra mörgu sem starfa á sviði heilbrigðisþjónustu."

 

Margt er órætt

Jónína segir að samskipti sjúkrahúsanna við heilsugæsluna hafi ekki verið á dagskrá nefndarinnar og það sama eigi raunar við um öldrunarþjónustuna. ?Það var hins vegar samdóma álit nefndarmanna að heilsugæsluna beri að efla og að hún eigi að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga í kerfinu. Ég vil líka fá fleiri fagstéttir þangað inn. Það er líka brýnt að skilgreina betur verkaskiptingu milli heilsugæslunnar og sjúkrahúsanna, svo sem það hvenær fólk eigi að leita til heilsugæslu eða slysadeildar. En þetta var ekki á okkar verksviði.

Nú liggja þessar tillögur fyrir og framhald málsins í höndum ráðherra. Jónína segir að sumt sé tiltölulega einfalt og um það vill hún sjá frumvörp á næsta þingi. Annað krefst meiri undirbúnings. Þar nefnir hún fjármögnun heilbrigðisþjónustu og aðferðir við greiðslu kostnaðar, spurninguna um föst fjárlög og afkastahvetjandi greiðslukerfi.

"Það urðu okkur nokkur vonbrigði að umræðan skuli hafa farið í þann farveg sem hún gerði því það er margt í tillögunum sem þarf að ræða. Þar berum við nefndarmenn nokkra ábyrgð og okkur ber að stuðla að því að tillögurnar verði ræddar sem víðast um samfélagið. Í þessu tilviki gerðist það að pólitíkin gjaldfelldi tillögurnar en umræðan þarf að vera þverfagleg og þverpólitísk. Það er eina leiðin til að ná sátt um það hvernig við viljum fjármagna heilbrigðiskerfið. Nefndin tók ekki afstöðu til neinnar leiðanna en hvatti til umræðu um þær."

 

Ánægjulegt nefndarstarf

Á fundinum í Öskju heyrðist sú gagnrýni að tillögur nefndarinnar bæru þess merki að sjónarhornið hefði verið út um glugga á sjúkrahúsi. Þessu er Jónína ekki sammála því auk fulltrúa fagfólksins hafi starfað í nefndinni alþingismenn sem heyra daglega reynslusögur fólks úr kerfinu og vita því hvar skórinn kreppir að sjúklingum.

Á einum stað í tillögum nefndarinnar eru talin upp aðkallandi verkefni sem vinda þurfi bráðan bug að því að ráðast í. Þar er efst á blaði nauðsyn þess að fjármunum verði veitt til uppbyggingar rafrænnar sjúkraskrár og miðlunar upplýsingar innan heilbrigðiskerfisins. Það auki öryggi sjúklinga og bæti samskiptin og sé í raun forsenda þess að Landspítali og FSA geti rækt þær skyldur sem þessum stofnunum eru lagðar á herðar.

Jónína sagði að nefndarstarfið hefði gengið ákafleg vel og verið fræðandi og gefandi fyrir alla sem þátt tóku í því. "Þetta var einvalalið, áhugasamt og heiðarlegt fólk sem lagði sig fram um að setja sig vel inn í málin. Ég gæti alveg hugsað mér að vinna meira með þessum hópi," sagði Jónína Bjartmarz að lokum

Tillögur nefndarinnar eru í átta liðum en að baki þeim liggur ýtarleg skýrsla sem ber titilinn Hver geri hvað í heilbrigðisþjónustunni. Jónína hvetur fólk til að kynna sér tillögurnar og skýrsluna en í hana er hægt að ná á heimasíðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, slóðin er www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2146

Viðtalið við Jónínu Bjart­marz fór fram í þing­flokks­herbergi Fram­sókn­ar­flokksins sem eitt sinn hýsti kennslustofur læknadeildar. Þar hangir upp á verk málverk af lækninum og tónskáldinu Sigvalda Kaldalóns sem er með Jónínu á myndinni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica