04. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Reglur um meðferð einstaklingsmála hjá Læknafélagi Íslands

Á fundi stjórnar Læknafélags Íslands 14. mars síðastliðinn voru samþykktar eftirfarandi reglur um meðferð einstaklingsmála hjá LÍ.

1. Stjórnarmenn aðildarfélaga og einstakir félagar aðildarfélaga eða LÍ geta óskað eftir aðstoð starfsmanna LÍ í launa- og réttindamálum fé­lags­manna.

2. Stjórnir aðildarfélaga eða einstakir félagar að­ild­arfélaga eða LÍ geta óskað eftir áliti framkvæmda­stjóra á einstaklingsmálum, enda fylgi fyrirspurninni fullnægjandi upplýsingar og eftir atvikum gögn um staðreyndir máls og ágreiningsefni.

3. Stjórn LÍ tekur ákvörðun um hvort LÍ reki dómsmál fyrir hönd félagsmanna. Þó er framkvæmdastjóra heimilt að höfðu samráði við formann LÍ að ákveða að LÍ annist málsvörn fyrir aðildarfélög í vinnumarkaðsmálum fyrir Félagsdómi, s.s. um gildi verkfallsboðunar eða umfang verkfalls m.t.t. undanþágulista. Sama gildir um kærumál til Hæstaréttar ef ekki vinnst tími til þess að leggja málið fyrir stjórn.

4. Við mat á því hvort LÍ tekur að sér að reka mál fyrir félagsmann skal hafa eftirfarandi reglur til viðmiðunar:

a. Ef mál snýst um túlkun kjarasamningsákvæðis þannig að vinnuveitandi beiti ákvæði á annan hátt en stjórn LÍ telur að samið hafi verið um er meginreglan sú að LÍ tekur að sér rekstur dómsmáls, að tæmdum öðrum úrræðum, t.d. í samstarfsnefnd.

b. Ef mál er fordæmisgefandi fyrir fleiri lækna en þann sem mál varðar beint er meginreglan að LÍ tekur að sér rekstur dómsmáls, að tæmdum öðrum úrræðum.

c. Ef stjórn LÍ telur að vinnuveitandi sé að beita lögmætum heimildum er meginreglan að LÍ tekur ekki að sér rekstur dómsmáls um viðkomandi ákvörðun.

d. Ef mál varðar áminningu eða brottrekstur félagsmanns er meginreglan sú að LÍ tekur ekki að sér málarekstur í slíkum tilvikum nema b) liður og í undantekningartilvikum c) liður með gagnályktun eigi við. Það athugist að málarekstur vegna mála skv. þessum lið snýst oftast um ágreining um lögmæti ákvörðunar vinnuveitanda. Meginreglan er sú að það er ekki stjórnar LÍ að leggja mat á lögmætið í slíkum tilvikum.

5. Ef stjórn LÍ ákveður að LÍ sjái um rekstur dómsmáls greiðir félagið einungis þann kostnað sem fellur til af meðferð máls eftir að stjórn LÍ hefur ákveðið að LÍ reki málið, áður tilkominn kostnaður er á ábyrgð aðildarfélags eða einstaklings.

6. Ef stjórn LÍ ákveður að LÍ sjái um rekstur dómsmáls ber félagsmanni að fara að ráðleggingum sem veittar eru á vegum félagsins. Fari félagsmaður ekki að slíkum ráðleggingum er heimilt, með samþykki stjórnar, að afturkalla frekari fjárhagsstuðning.

7. Eftir að stjórn LÍ hefur ákveðið að LÍ reki mál er það í höndum framkvæmdastjóra og formanns, í samvinnu við viðkomandi félagsmann, að ákveða hvort lögmaður félagsins eða annar lögmaður reki málið.Þetta vefsvæði byggir á Eplica