03. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Aðalfundur félags um lækningahúmor

Aðalfundur HÍFL, Hins íslenska félags um lækn­ingahúmor, var haldinn að Hótel Loftleiðum þann 19. janúar 2006 í tengslum við Læknadaga. Andstætt við aðra stórlæknafundi var þessi ekki "makalaus" í neinum skilningi. Aðalfundarins hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu vegna þess að búist var við miklum átökum vegna stjórnarkjörs í félaginu og hugsanlegs "sprengiframboðs".

Formaður félagsins, Bjarni Jónasson, setti fund­inn og stýrði honum af sinni alkunnu rósemi. Skýrsla stjórnar fyrir árið 2005 og reikningar voru fram lögð og kynnt samkvæmt lögum félagsins. Viðstaddir luku lofsorði á kynninguna og samþykktu hvort tveggja. Að auki var árgjald félagsins fyrir næsta starfsár, kr. 2006, samþykkt einróma. Þá var komið að stjórnarkosningunni sem allir biðu eftir. Kjörnefnd félagsins lagði til að tveir sitjandi stjórnarmenn, þeir Bjarni Jónasson, formaður, og Jóhann Heiðar Jóhannsson, meðstjórnandi, yrðu endurkjörnir. Óvænt var engum andmælum hreyft og ekkert heyrðist af sprengiframboðinu þannig að báðir náðu kjöri til næstu tveggja ára. Fyrir í stjórn var Friðrik Vagn Guðjónsson, varaformaður. Þá voru endurkosnir í kjörnefnd þeir Jón Eyjólfur Jónsson og Ólafur Mixa og var þeim fagnað með ástríðufullu lófaklappi. Kjörnefndin lagði til að Sigurður Guðmundsson skyldi enn sinna starfi skoðunarmanns reikninga og var það sömuleiðis samþykkt með lófunum.

Sérstakir gestir fundarins voru norski læknirinn Stein Tyrdal, forseti Nordisk Selskap for Medisinsk Humor, og kona hans Astrid Gjerland. Stein flutti fyrirlestur um hina ýmsu eiginleika lækningahúmors og þær hættur sem stafað gætu af beitingu hans. Var honum ákaft fagnað og þau heiðursgestirnir leystir út með bókargjöf.

Undir liðnum: "Önnur mál og uppákomur" var eftirfarandi tillaga einróma samþykkt:

Aðalfundur HÍFL (Hins íslenska félags um lækn­ingahúmor) haldinn að Hótel Loftleiðum 19. jan. 2006 harmar þá fljótræðislegu ákvörðun fyrrverandi forráðamanna Læknablaðsins að leggja niður hið næringarríka "Broshorn" sem þó augljóslega hefur stuðlað að þeirri velgengni Læknablaðsins að það hefur núna náð því takmarki að vera skráð í MEDLINE. Skorar fundurinn á nýja ritnefnd að hefja að nýju birtingu "Broshornsins" með einum eða öðrum hætti.

Áður en fundi var slitið var fyrrverandi varaformaður, Pétur nokkur Pétursson, aldavinur formanns HÍFL, heiðraður fyrir störf sín í þágu félagsins og áratuga fylgispekt. Matur og drykkur voru um hönd höfð og um munn tekin. Örvaði fóður þetta félagsmenn til ýmissa upphrópana og orðaskipta um aðra félagsmenn og hástemmdra yfirlýsinga um starf og framtíð félagsins sem ekki voru til bókar færð. Fundi var slitið að áliðnu kvöldi og fór þá væntanlega hver til síns heima.

Fréttatilkynning frá HÍFL.Þetta vefsvæði byggir á Eplica