02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

CPME-fundur í Stokkhólmi

Samtök evrópskra lækna (CPME) funduðu dagana 18. og 19. nóvember 2005 í Stokkhólmi. Fyrri daginn var stjórnarfundur en aðalfundur hinn síðari. Þetta fyrirkomulag kemur alltaf jafnspánskt fyrir sjónir þar sem fundarmenn eru hinir sömu og þurfa þeir seinni daginn að samþykkja það sem þeir hafa sjálfir lagt til daginn á undan. En margt er framandi í hinum stóra heimi.

Lagabreytingar

Á stjórnarfundinum var rætt um lagabreytingar og flest óútkljáð, en að mati framkvæmdastjórnar er margt í lögum samtakanna og reglugerð sem þarf að endurskoða. Nefna má meirihluta fyrir ákvörðunum, sérlega hvenær 3/4 atkvæða eigi að krefjast og hvort um 3/4 af öllum aðildarlöndum eða einungis þeirra sem viðstaddir eru sé að ræða.

ECDC

Evrópustofnunin, ECDC, European Centre for Disease Prevention and Control er í Stokkhólmi og á fyrst og fremst að sinna smitsjúkdómum sem áhrif geta haft á íbúa Evrópu en mun án efa seilast í verkefni á sviði lýðheilsu. Hin nýja stofnun mun leitast við að samræma það sem aðildarlönd ESB aðhafast í smitsjúkdómamálum en sem stendur eru tilkynningaskyldir sjúkdómar 52 talsins í okkar heimshluta. Reyndar starfar deild frá WHO í Evrópu en 75% af þeirra kröftum fara í fyrrum Sovétlýðveldin og löndin sem WHO sinnir eru mun fleiri en þau sem eru í ESB.

Vinnumarkaðsmál

Kynnt var skjal um samninga á vinnumarkaði innan ESB um tvíhliða og þríhliða viðræður sem eiga sér stað milli launþega, atvinnurekenda og stjórnvalda. Eins og stendur hefur CPME ekki aðkomu þar að. Verði svo áfram munu samtökin ekki taka þátt í ýmsum þáttum í kjörum lækna sem hingað til hefur verið gert og við það eru margir ósáttir. Þessi umræða varð ekki til lykta leidd enda viðamikil og flókin. Settur var á laggirnar vinnuhópur sem var falið að skila af sér fyrir marsfund 2006.

HIV/AIDS

Skjal um HIV/AIDS var samþykkt með breytingum sem komið höfðu frá aðildarlöndunum. Þar er fjallað um eftirfarandi mál og tiltekin þau atriði sem beint er til Evrópuráðsins að beita sér fyrir:

1. siðfræði og HIV/AIDS

2. lyfjanotkun og HIV/AIDS

3. fangar og HIV/AIDS

4. flutningar fólks og HIV/AIDS

5. konur og HIV/AIDS

6. heilbrigðisstarfsmenn og HIV/AIDS

7. rannsóknir

8. samstarf þeirra sem málið varðar

Guantanamo og Balkanheilkennið

Tillaga frá breska læknafélaginu um Guantanamo var samþykkt samhljóða sem hér segir:

In recognition of established United Nations declarations concerning the inhumane treatment of detainees, and World Medical Association declarations prohibiting the involvemeent of doctors in the abuse of prisoners, including the force feeding of hunger strikers, CPME requests the European Commission and the European Parliament to demand that the US Government

1- places all detainees in the detention facility at Guantanamo under the protection of international law, and the Geneva Conventions

2- recognises and implements internationally accepted codes prohibiting the abuse and torture of prisoners and ensures that doctors are not associated with any such acts.

3- immediately ceases force-feeding hunger strikers at Guantanamo, recognising that their competent refusal to be fed should be respected.

Fjallað var um bréf frá grísku sendinefndinni um Balkanheilkennið svonefnda sem menn kalla aukna tíðni hvítblæðis og krabbameins á því landsvæði og tengja við notkun úraníums í stríðinu þar.

Aðalfundur samtakanna hófst með ræðu Ylvu Johanson, ráðherra heilbrigðismála og málefna aldraðra í Svíþjóð. Reikningar fyrir árið 2004 og umsögn undirritaðrar sem innri endurskoðanda voru samþykktir samhljóða. Samþykktar voru umsóknir Litháens (með 7000 lækna sem er um 70% litháenskra lækna) og Sviss (FMH =Foederatio Medicorum Helveticorum, með um 26 þúsund félaga) um aðild að CPME.

Verðandi forseti, Daniel Mart, fór síðan yfir sýn sína fyrir CPME næstu tvö árin. Roland Lemye frá Belgíu, Marco Bitenc frá Slóveníu, Louis-Jean Calloc?h frá Frakklandi og Katrín Fjeldsted frá Íslandi verða honum við hlið sem varaforsetar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica