02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Skurðlæknar fá sjálfstæðan samningsrétt

- Úrskurður Félagsdóms gæti haft töluverð áhrif á skipulag læknasamtakanna

Þegar tveir dagar lifðu af árinu 2005 kvað Félags­dómur upp úrskurð í máli Skurðlæknafélags Ís­lands gegn íslenska ríkinu. Félagið hafði gert kröfu um að ríkið viðurkenndi að það fari með samningsumboð fyrir félagsmenn sína í kjarasamningum. Niðurstaða dómsins varð sú að skurðlæknar unnu málið, félag þeirra fer með samningsumboðið og ríkið greiðir málskostnað.

Eins og lesendur læknablaðsins vita hafa öll samningamál lækna hjá sjúkrahúsum ríkisins verið á einni hendi: Læknafélag Íslands gerir einn kjarasamning fyrir alla sjúkrahúslækna og veitir samninganefnd sinni umboð til þess að semja um kjör þeirra. Með úrskurði Félagsdóms er þessu skipulagi riðlað, skurðlæknar hverfa út úr samn­ingsgerðinni og ekkert því til fyrirstöðu að aðrar sérgreinar geri slíkt hið sama.

Fimm félög undir hatti LÍ?

Þessi tíðindi koma svo sem ekki beinlínis flatt upp á forystu læknasamtakanna því málið hefur oft verið rætt á fundum stjórnar LÍ og víðar. Árið 2003 var lögum LÍ breytt með hliðsjón af þessari kröfu skurðlækna (og raunar einnig unglækna sem þá voru utan félagsins). Með þeim var opnað fyrir það að hver sérgrein eða nokkrar sérgreinar í samstarfi gerðu kjarasamninga fyrir sína félagsmenn. Úrskurður Félagsdóms boðar samt ákveðin tímamót því nú hefur verið skorið úr um að ríkið verði að semja við hverja sérgrein sem kýs að taka samningsréttinn til sín.

Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ velti fyrir sér afleiðingum þessa fyrir skipulag félagsins á fundi með íslenskum læknum í Noregi haustið 2002 og lýsti þar hugsanlegri framtíðarsýn. Samkvæmt henni yrðu svæðafélög lækna sem nú eru þungamiðjan í skipulagi LÍ gerð áhrifalaus á aðalfundi en allt vald fært til sérgreinafélaga sem gætu verið fimm: stéttarfélög skurðlækna, lyflækna, heimilislækna, rannsóknalækna og ungra lækna. Þessi fimm félög rækju LÍ og þar með faglegan hluta samtakanna, stofnanir á borð við Fræðslustofnun og Læknablaðið, og annaðist erlend samskipti.

Sigurbjörn skipti sérgreinum lækna niður á félögin fimm eins og hér segir:

Í stéttarfélagi skurðlækna yrðu skurðlæknar, augnlæknar, háls-, nef og eyrnalæknar og svæfingalæknar.

Í stéttarfélagi lyflækna yrðu lyflæknar, barnalæknar, geðlæknar og húðlæknar.

Í stéttarfélagi rannsóknalækna yrðu blóðmeinafræðingar, meinafræðingar og röntgenlæknar.

Í stéttarfélagi heimilislækna yrðu heilsugæslulæknar og aðrir heimilislæknar.

Í stéttarfélagi ungra lækna yrðu kandídatar og læknar með lækningaleyfi sem starfa á stofnunum ríkisins.

Sigurbjörn benti líka á ákveðna vankanta á þessu skipulagi miðað við núverandi skipulag. Finna yrði lausn á því hver staða sjálfstætt starf­andi sérgreinalækna yrði og hver ætti að ann­ast samningsgerð þeirra við ráðuneytið og Trygg­inga­stofnun ríkisins. Einnig yrðu þeir sem eingöngu starfa eftir slíkum samningum munaðarlausir í nýja skipulaginu. Þá nefndi hann að huga yrði að stöðu lækna sem starfa fyrir einkafyrirtæki eða fyrir­tæki í eigu ríkisins. Sigurbjörn velti því líka fyrir sér hvort það myndi ekki áfram verða hlutverk LÍ að starfa sem stéttarfélag yrði vegið að sameiginlegum hagsmunum lækna.

Skurðlæknar fagna úrskurðinum

Helgi H. Sigurðsson formaður Skurðlæknafélags­ins segir Læknablaðinu að félagið hafi unnið að því um nokkurra ára skeið að fá samningsréttinn til sín og því sé úrskurður Félagsdóms mikið fagnaðarefni. Nú hilli undir það að sérstaða skurðlækna verði virt í kjarasamningum. En hvaða sérstaða er það sem ekki hefur notið sannmælis í samningum sjúkrahúslækna?

"Að mínum dómi eiga skurðlæknar að vera hæst launaðir allra lækna. Þannig er þetta alls staðar og þannig á það að vera hér. Allir viðurkenna að sérfræðinám skurðlækna er lengst og starfsævi þeirra styst. Þeir byrja ekki að starfa fyrr en um fertugt og þeir ættu að hætta mun fyrr en þeir gera nú. Af því leiðir að launin þurfa að vera hærri svo við náum sambærilegum ævitekjum og aðrir læknar. Við þetta má bæta að hvergi eru gerðar eins miklar kröfur til lækna um starfsþrek og snerpu og þörfin á endurmenntun og endurþjálfun er mikil. Staða okkar er líka ólík öðrum læknum að því leyti að ef við af einhverjum ástæðum getum ekki stundað skurðlækningar lengur getum við ekki horfið til annarra lækninga eins og á við um margar aðrar sérgreinar, skurðlækningar eru það sérhæft starf. Það heldur engum greiði gerður með því að halda mönnum að flóknum skurðaðgerðum fram undir sjötugt. Þetta þarf að taka með í samningsgerðina og að því stefnum við.

Samninganefnd sjúkrahúslækna hefur af skiljanlegum ástæðum ekki getað tekið tillit til þessara sjónarmiða í samningsgerðinni. Hún á erfitt með að réttlæta það fyrir öðrum hópum lækna að einum þeirra sé hleypt fram úr í samningunum, jafnvel þó það sé sanngjarnt. Ég veit líka margir eru ósammála okkur og finnst að launajafnrétti eigi að ríkja, en í öðrum löndum er þetta raunin og þannig finnst okkur þetta eigi að vera hér."

Klýfur ekki LÍ

Kjarasamningar sjúkrahúslækna runnu út um ára­­mót­in svo samningar eru lausir. Helgi segir að skurð­læknar hafi þegar sett sig í samband við ríkið. "Við­brögðin voru jákvæð og þeir eru reiðubúnir að viður­kenna félagið sem samningsaðila. Ég á von á að samningar hefjist á næstunni. Við viljum breyta kjara­samningnum frá grunni, setja aðrar reglur um vinnu­tíma og starfslok og koma á afkasta­hvetjandi launa­kerfi," segir hann.

- En hvaða áhrif hefur úrskurðurinn á samband skurðlækna við LÍ?

"Við erum ekki að segja okkur úr lögum við félagið. Það voru einmitt breytingar á lögum LÍ sem gerðu okkur mögulegt að eiga áfram aðild að LÍ en samt að fá viðurkenndan samningsréttinn. Það er besta lausnin sem við gátum óskað okkur, miklu betri en að kljúfa okkur út úr LÍ. Við höfum notið stuðnings formanns og stjórnar LÍ í þessari viðleitni okkar og vonandi verður þetta til að styrkja LÍ frekar en að veikja."

- Þýðir þetta að samninganefnd sjúkrahúslækna sé úr sögunni?

"Nei, það held ég alls ekki. Samkvæmt úrskurði Félagsdóms þurfa sérgreinar að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta talist sjálfstæðar og mér sýnist margar smærri sérgreinar ekki gera það. Ég sé það ekki fyrir mér að félagið muni klofna upp í margar einingar í kjaramálunum, það styrkir ekki stöðu lækna og er ekki í þeirra þágu. Skurðlæknar hafa í raun verið eina sérgreinin sem hefur óskað eftir að losna undan samninganefndinni. Við vilj­um hins vegar halda áfram faglegu samstarfi á vettvangi LÍ og vonumst eftir að njóta sama stuðnings við kjarasamningagerð og aðrar samn­inganefndir," segir Helgi H. Sigurðsson formaður Skurðlæknafélags Íslands.

Helgi H. Sigurðsson formaður Skurðlæknafélags Íslands: Skurðlæknar ætla ekki að segja sig úr lögum við LÍ.Þetta vefsvæði byggir á Eplica