02. tbl 92. árg. 2006

Íðorð 184. Umskurður

Nýlega barst fyrirspurn um hvort væri réttara, umskurður eða umskurn, sem heiti á þeirri aðgerð er tíðum ber latneska fræðiheitið circumcisio. Fyrirspyrjandi sagðist aðeins hafa vanist fyrra heitinu, en taldi að nú væri það síðara að sækja á. Íðorðasafn lækna birtir þrjú íslensk heiti: forhúðar­stýfing, umskurn, umskurður. Rétt er að minna á að fyrri orðhlutinn, circum, merkir umhverfis og að síðari orðhlutinn, cisio, er talinn dreginn af sögn­inni caedere, að skera. Íslenska heitið umskurður er því bein þýðing. Náskyld eru latnesku nafnorðin excisio, úrnám, brottnám, og incisio, skurður, rista, skurðaðgerð, risting.

Leit í textasafni Orðabókar Háskólans leiddi í ljós að bæði heitin umskurn og umskurður koma fyrir í íslensku bíblíumáli allt frá 16. öld. Umskurn kemur þó mun oftar fyrir. Til eru einnig heitin umskorning og umskurning. Leit á netinu leiddi hins vegar í ljós að heitið umskurður væri nú mun meira notað í almennri umræðu, en að heitið umskurn væri fremur notað í trúarlegri umræðu og í tengslum við biblíuna. Niðurstaðan er því sú að bæði heitin séu ?rétt?, en að heitið umskurður sé oftar notað í læknisfræðilegu samhengi.

ALTE

Sigurður Þorgrímsson, barnalæknir, hafði samband fyrir nokkuð löngu síðan og var þá að leita að íslensku heiti til að nota um fyrirbærið apparent life-threatening event. Endurteknar atlögur voru gerðar að þessu verkefni en ekkert gekk lengi vel. Það var ekki fyrr en Sigurður setti fram þá kröfu, að nýtt íslenskt heiti yrði að vera tilbúið fyrir 20. janúar 2006, að umræðan komst á skrið.

Enska heitið og skammstöfunin voru búin til árið 1986 í tengslum við ráðstefnu um alvarleg andhlé (apnea) hjá ungbörnum. Þar voru meðal annars til umræðu hugsanleg tengsl við skyndi­dauða ungbarna (SIDS), en óvænt og langvarandi andhlé hjá ungbörnum voru þá oft nefnd ?næstum því skyndidauði? (near-miss SIDS) eða ?stöðvaður vöggudauði? (aborted crib death). Tengslin eru nú ekki talin skipta máli hvað varðar orsakir skyndi­dauða ungbarna, en sum ungbörn fá engu að síður alvarleg andhlé, sem vísað er til með heitinu apparent life-threatening event. Fyrirbærinu er þannig lýst: Skyndileg og óvænt breyting á öndun ungbarns sem vekur athygli og virðist ógnandi. Öndun stöðvast í meira en 20 sekúndur. Húðlitur breytist og verður ýmist fölur, blár eða rauðleitur. Vöðvaspenna minnkar. Andköf og köfnunarhljóð heyrast gjarnan. Að baki þessu geta legið vanda­mál í meltingarvegi, taugakerfi, öndunarvegi, hjarta eða öðrum líffærakerfum. Allt að helmingur tilvika er þó án finnanlegrar ástæðu.

Eftir ítarlega umræðu, þar sem meðal annars voru sett fram heitin: andarteppukast, alvarlegt andhlé, lífshættukast og öndunarstöðvunarkast, komumst við loks niður á að setja fram eftirfarandi tillögu að íslensku heiti: lífshættuatvik ungbarna. Með því teljum við að farið sé eins nærri því og hægt er að þýða enska heitið beint. Íslenska heitið er hlutlaust og má nota hvort sem fyrirbærið er af óþekktum uppruna eða birtist í tengslum við vanda­mál í tilteknum líffærakerfum.

Markviss meðferð

Helgi Sigurðsson, krabbameinslæknir, hélt nýlega fyrirlestur á LSH um nýjungar í meðferð krabba­meina. Þar kom fyrir hugtakið targeted therapy. Um það notaði Helgi íslenska heitið markviss meðferð, sem ekki er að finna í Íðorðasafni lækna.

Hugtakið targeted therapy er einkum notað í krabbameinslækningum og vísar til þess að notað sé lyf eða önnur meðferð sem beinist sérhæft að tilteknu ferli eða jafnvel tiltekinni sameind, til dæmis viðtaka, í efnaskiptum, þróun eða vexti æxla. Spyrja má hvort marksækin meðferð sé ekki betra heiti. Gaman væri að fá fréttir af öðrum hugmyndum eða viðbrögðum annarra lækna við þessu heiti.

Heilablæðing

Albert Páll Sigurðsson, taugasjúkdómalæknir, leitaði nýlega til undirritaðs og óskaði eftir ráðleggingu varðandi heitin heilablóðfall og slag. Hann greindi frá því að honum hugnaðist ekki fyrra orðið sem samheiti um heilablæðingar.

Við uppflettingu í Íðorðasafni lækna kom í ljós að blóðfall kemur fyrir í nokkrum samsettum heitum, en þau vísa til blæðinga í tilgreindum líffærum, heila, mænu eða nýrnahettu (nýrli). Nafnorðið slag kemur einnig fyrir í samsetningum og er þá ýmist verið að tákna hjarta- eða æðaslátt, dæmi aukaslag, gáttslag, eða kast af einhverju tagi, dæmi bakslag, hitaslag.

Framhald í næsta blaði.Þetta vefsvæði byggir á Eplica