01. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Dreifibréf Landlæknisembættisins

nr. 13/2005 Efni: Bólusetning gegn hettusótt

Eins og fram hefur komið í Farsóttafréttum sótt­varnalæknis (www.landlaeknir.is) þá hafa 73 einstaklingar fengið staðfesta hettusótt á tíma­bilinu maí til og með nóvember 2005. Síðastliðið haust var faraldurinn talinn vera í rénun en nú hefur komið í ljós að hann er vaxandi ef eitthvað er. Einkum eru einstaklingar á aldrinum 20 til og með 24 ára að sýkjast, en það eru þeir sem misstu af MMR bólusetningunni sem hófst hjá 18 mánaða gömlum börnum 1989 og 9 ára börnum 1994.

Heilsugæslan er beðin um að hvetja alla á sínu svæði sem fæddir eru 1981 til og með 1985 til að láta bólusetja sig með MMR (ein sprauta). Bólusetningin er ofangreindum að kostnaðarlausu en greidd af hinu opinbera eins og aðrar almennar ungbarnabólusetningar.

Sóttvarnalæknir

nr. 14/2005 Efni: Skortur á Diftavax

Enn á ný er kominn upp skortur á Diftavax (difteria-/tetanus toxoid) bóluefninu sem gefið er 14 ára börnum í almennum barnabólusetningum hér á landi. Ástæða þess er mikil notkun á bóluefninu utan við almennar barnabólusetningar. Hér á landi má búast við að árlega þurfi um 4000-4500 einstaklingar Diftavax-bólusetningu í almennum bólusetningum en hið opinbera greiðir hins vegar fyrir um 8000 skammta á hverju ári.

Sóttvarnalæknir vill leggja áherslu á eftirfarandi:

- DiTeBooster frá Statens Serum Institut mun koma í stað Diftavax þar til næsta sending fæst af Diftavax sem væntanlega verður í febrúar 2006. DiTeBooster er sam­bærilegt að innihaldi og Diftavax og verk­un og aukaverkanir því sambærilegar. DiTeBooster verður á undanþágulista hjá Lyfja­stofnun frá 1. janúar 2006.

- Hið opinbera greiðir einungis fyrir bóluefni sem notuð eru í almennum barnabólusetningum. Bóluefni sem notuð eru hjá fullorðn­um og ferðamönnum eiga því að greiðast af heilsugæslustöðvunum sjálfum sem síðan eiga endurkröfurétt á hinn bólusetta.

Sóttvarnalæknir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica