09. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Reykingar eru líka okkar mál!

LOFT ráðstefna í Hveragerði 16.-17. september

Það er fátt eitt orðið sem ekki kemur á borð okkar læknanna. Nú þegar ljóst er að stærstu heilbrigðisvandamál okkar tíma snúast meðal annars um nautnir eins og tóbaksreykingar og ofát verður okkur fagfólkinu kannski fátt um svör þegar til okkar er leitað. Okkar annars ágæti læknaskóli hefur undirbúið okkur misvel til að takast á við þessa vá. Við höfum áreiðanlega öll komist að því að fyrirlestur og skynsemistal er ekki það sem dugar þegar kemur að þessum vanda. Það gerir skyldur okkar sjálfra meiri til að nálgast menntun, þekkingu og reynslu til að sinna honum.

lbl-forsida 7-2004Afleiðingar tóbaksreykinga eru tíundaðar reglulega og æ fleiri rannsóknir sýna okkur þann gríðarlega þátt sem þær eiga í orsökum hjartasjúkdóma, krabba­meina, æðasjúkdóma, ótímabærra dauðsfalla og svo framvegis. Á þessu leikur enginn vafi. Tölurnar sem birtar eru virðast stundum fjarstæðukenndar, eins og sáust í BMJ 23. júní 2004: Breskir læknar sem fæddir voru 1900-1930 og reyktu mestan hluta ævinnar, dóu að meðaltali 10 árum yngri en þeir sem aldrei höfðu reykt! Og 5000 karlmönnum sem fylgt var eftir í 20 ár, fengu 50-60% aukningu á kransæðasjúkdómum við óbeinar reykingar!

Starfsorka okkar fer oft á tíðum í að sinna afleiðingum reykinga enda erum við þjálfuð til þess. Reykingavarnir eru hins vegar á öllum stigum, forvarnir, meðferðir, minnka skaðann, sinna afleiðingum. Okkar hlutverk sem lækna að sinna ásamt öðrum, forvörnum og meðferð, er að stækka. Tóbaksreykingar snúast um nikótínfíkn sem gerir það að verkum að meðferð við þeim þarf einnig að beinast að fíkninni. Sérhæfðar meðferðir eru til og sömuleiðis almenn inngrip sem hvoru tveggja sýna árangur.

Það gefast tækifæri til fræðast um tóbaksvarnir sem vert er að nýta sér enda koma skuggahliðar tóbaks­reykinga á borð okkar allra, sama í hvaða sérgrein við störfum. Ótal fletir eru á þessum víðfeðma vanda og enn er langt í land með að finna eina góða lausn á honum. Þangað til er mikilvægt að kynna sér það sem fræðin getur kennt okkur og hlusta á hvað aðrir hafa um þetta að segja og leggja eitthvað til málanna sjálfur.

Ég skrifa þennan pistil sem stjórnarmeðlimur í Félagi lækna gegn tóbaki til þess að vekja athygli á ráðstefnu um tóbaksvarnir á Íslandi sem haldin verður í Hveragerði 16.-17. september 2004. Þetta er þriðja LOFT ráðstefnan sem haldin hefur verið og er í umsjón Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði. Hún er ætluð heil­brigðisstarfsfólki sem og áhugamönnum um tóbaks­varnir.

Vefslóðin er www.hnlfi.is/loft2004/



Þetta vefsvæði byggir á Eplica