07/08. tbl. 90.árg. 2004

Umræða og fréttir

Samstarf norrænu læknablaðanna

Í júníbyrjun fóru ábyrgðarmaður og ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins á fund til Finnlands að hitta ritstjórnir og starfsmenn norrænu læknablaðanna. Slíkir fundir hafa verið haldnir annað hvert ár um þriggja áratuga skeið. Yfirskriftin í ár var: Nordiskt samar­bete: Status idag och framtiden - klassísk pæling sem allir vita svarið við, samstarfi skal haldið áfram, en það er hollt og gott að velta því fyrir sér öðru hverju. Eva Oldinger sem áður leiddi tímaritið Nordisk medisin fór yfir stöðuna. Magne Nylenna renndi sér í gegnum nýtt landslag fjölmiðlanna einsog það er kallað og stappaði stálinu í menn með því að benda til dæmis á evrópsk samtök ritstjóra vísindatímarita þangað sem hægt væri að sækja visku og styrk og holl ráð. Á dagskrá voru einnig spursmál um birtingarrétt, tengsl læknablaða og lyfjafyrirtækja, fjármál blaðanna, samband blaðanna við læknafélögin sem margir vildu meina að minnti oft á tíðum óþægilega á gömlu söguna um upphaf hænunnar og eggsins.

Norrænu blöðin eru öll ámóta gömul og afar margt skylt með þeim, bæði að innihaldi og útliti, þótt þau búi hvert um sig við sérstöðu að einhverju leyti. Finnska blaðið er mjög samtvinnað lækna­félaginu, norska blaðið er mjög öflugt og frískt, ekki síst á netinu, sænska blaðið hefur siglt hægan byr um árabil peningalega en nú sjá þau fram á breytta tíma og niðurskurð þareð auglýsingum í blaðinu hefur snarfækkað, Danir eru rétt komnir útúr miklum ógöngum og þurftu að horfast í augu við gagngerar sparnaðarráðstafanir.

Blöðin eru eðli málsins samkvæmt nokk­uð forn í lund, þó allsstaðar hafi bylgju nýrrar tækni skolað að landi. Blöðin eru öll á netinu og upplýsingastreymið er löngu orðið að ógnar flóði. En markmið blaðanna hefur haldist óbreytt: að efla og yrkja lækna­vísindin, koma rannsóknum á framfæri og halda læknum upplýstum og vel menntuðum eftir að úr skóla er komið.

Hluti hópsins að virða fyrir sér sumarhöll finnska forsetans, Gullranda, í skerjagarðinum við Åbo. Frá vinstri Josef Milerad frá sænska blaðinu, Charlotte Haug ritstjóri norska blaðsins, Álfheiður Steinþórsdóttir eiginkona ábyrgðarmanns íslenska læknablaðsins, Maud Kaino auglýsingarstýra norska blaðsins, Pia Gelhaar auglýsingastýra og Bo Lennholm bæði hjá sænska blaðinu.

The grand old lady úr heimi norrænu læknablaðanna, Eva Oldinger, syngur til kollega sinna magnaðan blús.

Taito Pekkarinen ábyrgðarmaður finnska læknablaðsins ásamt Aagot Somdalen sem hefur lengi gegnt stöðu ritstjórnarfulltrúa hjá norska blaðinu en hættir á þessu ári.

Það var bræla og súld þegar Védís Skarphéðinsdóttir, Lars-Einar Floman heiðursritstjóri finnska blaðsins og Vilhjálmur Rafnsson stigu á eitt af skrilljón skerjum í finnska skerjagarðinum. Herrarnir klæðast treyjum í boði Finnanna. - Myndir: Álfheiður Steinþórsdóttir og Vilhjálmur Rafnsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica