07/08. tbl. 90.árg. 2004

Nokkrar fyrirspurnir

Sterile

Guðrún Sigmundsdóttir, smitsjúkdómalækir, óskaði eftir umfjöllun um heiti til að nota um þá staði líkam­ans sem eru að eðlilegu án örvera og eru kallaðir sterílir á ensku.

Latneska lýsingarorðið sterilis lýsir þeim sem er ófrjór, ber ekki ávöxt eða eignast ekki afkomendur. Nafnorðið er sterilitas, á ensku sterility. Íðorðasafn lækna tilgreinir enska lýsingarorðið sterile, 1. ófrjór; 2. smitsæfður, dauðhreinsaður, og einnig enska nafnorðið sterility, 1. ófrjósemi. 2. gerlaleysi.

Guðrún leitar að lýsingarorði sem er víðtækara en gerlalaus. Rétt er að minna á að Jóhann Heiðar Jóhanssongerill er þýðing á eintöluorðinu bacterium (fleirtala bactería). Heitið gerill hefur ekki náð vinsældum meðal lækna. Flestir hafa þar að auki gefist upp fyrir ásókn hins alþjóðlega heitis og nota nú upprunalegu fleirtölumyndina sem eintöluorð, stafsetta á íslenskan hátt, baktería (fleirtala bakteríur). Minna má einnig á að gríska heitið er dregið af orðinu baktron, sem merkir stafur, og var því upphaflega aðeins ætlað að tákna staflaga bakteríur. Til samanburðar má nefna að gríska heitið, sem notað hefur verið til að tákna hnattlaga bakt­eríur, cocci (eintala coccus), var upphaflega notað um ber, smátt, safaríkt aldin.

Einfaldast er að segja að staðir án örvera séu ör­veru­lausir. Þar eru þá ekki til staðar örverur (micro-organisms) af neinu tagi (bakteríur, veirur, sveppir o.s.frv.). Vera má að styttra heiti megi finna með tíð og tíma.

PCR

Guðrún Sigmundsdóttir var einnig að fást við skamm­stöfunina PCR, sem ríður nú húsum á flest­um rannsóknastofum og klínískum deildum. Íðorðasafnið verður ekki til hjálpar, en fullt heiti á fyrirbærinu er polymerase chain reaction. Með því að þýða orð fyrir orð má setja saman heitið fjölliðunar­ensímskeðjuefnabreyting. Það er ekki sérlega lipurt.

Ensím er prótínefni sem örvar efnahvörf annarra efna án þess að breytast eða eyðast sjálft. Fjölliðunar- eða liðunarensím, polymerase, örvar myndun á stórum efnasameindum, sem nefnast einu nafni fjölliður (kvk. ft.) og eru samsettar úr minni og einfaldari sameindum, einliðum (kvk. ft.). PCR-aðferðinni er einkum beitt til að búa til eða magna upp kjarnasýru­raðir, fjölnúkleótíð, sem þá má nota til greiningar. Þessi aðferð er orðin mjög útbreidd og því er æskilegt að íslenskt heiti komi fram.

Ekki er auðvelt að búa til heiti sem bæði er stutt og vísar nákvæmlega til þess sem að baki býr. Guðrún vildi vekja athygli á heitinu magni (kk), sem Þorsteinn Blöndal, lungnalæknir, mun hafa stungið upp á til að vísa í þá mögnun erfðaefnis sem fram kemur. Gaman væri að fá fleiri hugmyndir og tillögur til skoðunar og úrvinnslu.

Áreitiköst

Þröstur Laxdal, barnalæknir, sendi tölvupóst með fyrir­spurn um samheitin breath-holding spells og re­flex hypoxic crisis. Hann sagðist hafa notað heitin áreiti­köst og áreitikrampar, eins og við átti, við kennslu lækna­nema undanfarin 30 ár. Íðorðasafn lækna birt­ir breath-holding attack, breath-holding spells og reflex hypoxic crisis, en tilgreinir ekki neina íslenska þýðingu.

Breath-holding er ekki að finna sem flettu í læknis­fræðiorðabók Dorlands, en orðabók Stedmans útskýrir þannig: sjálfráð eða ósjálfráð stöðvun öndunar, sést oft hjá ungum börnum sem svar við vonbrigðum. Yfirlitsgrein um breath-holding spells má finna í tímaritinu Postgraduate medicine frá árinu 2002. Þar kemur fram að um ósjálfráð köst sé að ræða og að orsökin geti verið lífeðlisfræðileg truflun í tauga­kerfi, stundum arfgeng ein sér og stundum tengd öðrum sjúkdómum. Algengast er þetta frá fyrsta ári til fjögurra ára aldurs. Kastið byrjar gjarnan með gráthviðu eftir að barnið hefur orðið fyrir æsingi, óvæntu áreiti eða minni háttar áverka. Barnið verður svo þögult, hættir að anda og blánar eða verður fölt. Vöðvaspenna hverfur og í kjölfarið geta fylgt einn eða fleiri krampakippir. Kastið gengur oftast yfir á minna en einni mínútu, en deyfð og drungi geta sést áður en barnið hverfur aftur að fyrri iðju. Fram kemur að köstin hverfa oftast af sjálfu sér fyrir 7-8 ára aldur, en oft er talið æskilegt að útiloka flogaveiki og alvarlega hjarta- og taugakerfissjúkdóma.

Undirritaður tjáði Þresti að honum litist vel á fyrrgreind heiti. Fyrstu viðbrögðin voru reyndar þau að nota ætti eignarfalls-s við samsetninguna, áreit­is­köst og áreitiskrampar. Heitin eru þó óneitanlega liprari eins og Þröstur leggur þau fyrir.

Ungbörn

Í tengslum við þetta velti Þröstur fyrir sér orðunum ungbarn og ungabarn. Honum finnst það fyrra rétt­ara og sagðist undirritaður einnig hafa vanist því. Uppfletting í ritmálssafni Orðabókar Háskólans leiddi í ljós að ritaðar heimildir um orðið ungbarn er fjölmargar, allt frá íslenskri þýðingu Nýja testa­mentsins 1540, en heimildir um orðið ungabarn eru mun færri, sú fyrsta frá árinu 1862. Samkvæmt þessu má telja fyrra orðið upprunalegra og réttara, en bæði orðin eru þó talin fullgild samkvæmt Ís­lenskri orðabók Eddu frá 2002.

Rétt er að minna á að forskeytið ung- táknar það sem ungt er að aldri en forskeytið unga- vísar hins vegar í ung afkvæmi, samanber unghæna, hæna að tveggja ára aldri, og ungahæna, hæna með unga.Þetta vefsvæði byggir á Eplica