06. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Heilbrigðisráðstefna með trúarívafi

Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands ráðherra frá Nýja-Sjálandi og boðaði einka- og markaðs­væðingu í heilbrigðismálum, það er að aðskilja kaupendur og seljendur og efla rekstur frjálsra trygginga. Fundinum var stjórnað af yfirstjórn fjármála og heil­brigðismála og viðtökurnar minntu á söfnuð er hlustaði á trúarleiðtoga! Ég leyfði mér að flytja smá tölu og benti á niðurstöður OECD. Í töflum sem náðu yfir kostnað vegna heilbrigðisþjónustu OECD-ríkja kom fram að rekstur hennar var ódýrastur hjá Norðurlandaþjóðum, Bretum og nokkrum öðrum þjóðum þar sem almannatryggingar voru aðalkaupendur þjónustunnar. Þessar þjóðir sýndu líka besta árangurinn varðandi lágan ungbarnadauða og lengri ævilíkur. Þessar upplýsingar hrukku af stjórnendum.

2004-06-u03-fig1Nú hefur komið í ljós í úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að markaðsstefna ráðherrans dugði Nýsjálendingum í sex ár og hvarf í hafið aðallega vegna þess að staða seljanda var miklu sterkari en kaupanda og kostnaður varð mikill. Bretar og Svíar hafa einnig gert tilraunir í sömu veru sem ekki tókst sem skyldi. Vissulega náðust fram vissar umbætur, til dæmis aukið gegnsæi kostnaðar, bætt staða heimilislækna og fækkun legudaga (að minnsta kosti um einn dag á ári í Stokkhólmi). Á hinn bóginn jókst stjórn­unarkostnaður gífurlega, samkeppnisaðstaða einstakra deilda og hópa þar sem kaupendur og seljendur áttu að semja um verð var mjög misjöfn. Staða seljanda var of sterk og yfirleitt jókst kostnaður mik­ið. Bretum tókst einum að halda nokkuð niðri kostnaði en það var á kostnað gæðanna sem nú er kvartað sárlega undan. Sjúklingar kenna stjórnvöldum um vandann.

Ljóst er að ef samstaða er ekki á milli kaupenda, það er ef frjáls tryggingafélög taka yfir kaupendahlut­verkið, geta þau tekið aukinn kostnað út í hærri ið­gjöldum. Seljendur ná betur fram sínum kröfum og kostnaður verður hærri. Í ofanálag láta frjálsu tryggingafélögin þá sem ekki hafa ráð á að greiða iðgjöldin lönd og leið. Þar með skapast misrétti í þjónustu ofan á dýrari rekstur. Rekstrarsaga banda­rískrar heilbrigðisþjónustu er kennslubók í því efni. Markaðsvæðing og einkavæðing í heilbrigðisþjón­ustu er miklum vandkvæðum bundin og veldur óskilvirkni og misrétti sem fellur ekki að því lýðræði sem við höfum skapað. Stjórnendur á fjármálasviði virðast hafa misst af aðal kjarna málsins en það er að slíkur rekstur verður dýrari. Almannatryggingar sem eru eini kaupandi þjónustu hafa þó almannahagsmuni í heiðri, standa vörð um þjónustu fyrir alla, og falla betur að okkar lýðræðislega umhverfi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica