06. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Fara læknar í víking til Bretlands?

- LÍ lætur kanna möguleika á innflutningi breskra sjúklinga til meðferðar hér á landi

Í vetur hefur starfshópur á vegum Læknafélags Ís­lands setið á rökstólum og kannað möguleika á út­flutningi heilbrigðisþjónustu frá Íslandi. Þar kemur margt til álita. Til dæmis má hugsa sér að íslenskir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn taki að sér störf í útlöndum, hlutastörf eða tímabundin verkefni. Einnig að sjúklingar verði fluttir inn frá útlöndum til meðferðar hér á landi en af því myndu fleiri njóta góðs en heilbrigðisþjónustan, ekki síst ferðaþjónustan.

Hópurinn sem er undir forystu Þórðar Sverrissonar er enn að störfum en hyggst skila í það minnsta áfanga­skýrslu nú snemma sumars. Hann er raunar tvískiptur, sex manns funda í höfuðborginni en norður á Akureyri hafa þrír læknar einnig fundað.

Hluti af störfum hópsins var fólginn í því að fá til samstarfs hóp nema við Háskólann í Reykjavík sem fengu það verkefni að skoða möguleika á innflutningi sjúklinga til meðferðar hér á landi. Í fyrstu höfðu menn allan heiminn undir en eftir nokkrar umræður var ákveðið að þrengja sjónsviðið nokkuð og einbeita sér að því að kanna möguleika íslenskra fyrirtækja á heilbrigðissviði til að afla sér verkefna í Bretlandi. Rætt var við forsvarsmenn Orkuhússins um að þjónusta þess yrði notuð sem viðmiðun í könnuninni.

NHS glímir við biðlista

Bretland er að mörgu leyti ákjósanlegur vettvangur til útrásar fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu. Þangað er stutt að fara, samgöngur greiðar og margir íslenskir læknar þekkja vel til þar í landi. Breska heilbrigðis­kerfið hefur átt í allnokkrum erfiðleikum á undanförnum árum. Ríkisrekinn hluti þess, National Health Service - NHS, mátti þola mikinn niðurskurð um árabil og þótt heldur hafi rofað til er kerfið fjarri því að hafa jafnað sig eftir það áfall. Biðlistar eru langir og bresk stjórnvöld hafa orðið að leita út fyrir landsteinana eftir aðstoð við að mæta þörfum almennings fyrir heilbrigðisþjónustu.

Skýrsluhöfundar benda á að þarna gæti verið feitan gölt að flá fyrir fyrirtæki á borð við Orkuhúsið. Eins og menn vita eru bæklunarskurðlækningar og meðferð við ýmsum stoðkerfisvanda sterkasta hlið þessa fyrirtækis en það er ekki síst á því sviði sem biðlistarnir eru hvað lengstir í Bretlandi. Gallinn við þetta er hins vegar sá að NHS er gríðarstórt og umfangsmikið kerfi sem erfitt getur verið að nálgast, hvað þá að vekja á sér athygli forystumanna þess. Hópnum gekk illa að komast í samband við þann sem skipaður hefur verið til að annast samningagerð fyrir sjúklinga NHS í útlöndum. Það er hins vegar mat nemanna að þarna sé eftir heilmiklu að slægjast fyrir Orkuhúsið enda mun forsvarsmönnum þess hafa tekist að ná sambandi við NHS eftir að skýrslan kom út.

En það er fleiri möguleikar í Bretlandi. Einkarekin heilbrigðisþjónusta hefur vaxið ört á undanförnum árum og er hún nú með tæpan fjórðung af breskum heilbrigðismarkaði. Tryggingafélög sem bjóða upp á heilbrigðistryggingar kaupa þjónustu í þessum geira en einkasjúkrahús hafa ekki gengið sem skyldi og segir í skýrslunni að þau standi oftast hálftóm. Ástæður eru ýmsar fyrir því en ekki síst hversu dýr þjónusta sjúkrahúsanna þykir. Þar gætu íslensk fyrirtæki átt möguleika í samkeppni.

Farlama fótboltamenn

Þegar lítil fyrirtæki eru að reyna að koma sér að á stórum markaði er oft gott að byrja smátt en reyna ekki að gleypa allan markaðinn í einum bita. Eins og allir vita er knattspyrna þjóðaríþrótt Breta og bresk knattspyrnufélög velta stjarnfræðilegum upphæðum. Íþróttamenn eiga það til að meiðast og þurfa á aðgerðum að halda, ekki síst bæklunarskurðaðgerðum, liðspeglunum og þess háttar. Þeir eru á háum launum og félögin sjá sér því mikinn hag í að koma þeim framhjá biðlistum svo þeir verði sem fyrst klárir í slaginn aftur.

Þarna gæti legið ágætur möguleiki fyrir fyrirtæki á borð við Orkuhúsið. Reyndar hefur það reynt fyrir sér á þessum markaði með ágætum árangri því Guðjón Þórðarson fyrrum landsliðsþjálfari í knattspyrnu sendi tvo menn til meðferðar í Orkuhúsinu á liðnum vetri þegar hann var framkvæmdastjóri Barnsley. Þær aðgerðir gengu vel, mennirnir voru komnir fyrr út á völl en menn höfðu vænst eftir og kostnaður var vel samkeppnishæfur.

Skýrsluhöfundar segja að þarna gæti verið góður möguleiki fyrir Orkuhúsið að leita útrásar. Fyrirtækið hefur sett sig í samband við tvö samtök á sviði breskrar knattspyrnu, PFA sem eru samtök leikmanna og FA sem eru heildarsamtök bresku knattspyrnuliðanna. Þar á bæ hafa menn brugðist vel við og sýnt því áhuga að senda breska knattspyrnumenn til meðferðar hér á landi. Þetta gæti því reynst góður vaxtarbroddur. Eini gallinn sem nefndur er í skýrslunni er sá að Guðjón Þórðarson er atvinnulaus sem stendur og því ekki í eins góðu færi og áður til að liðka fyrir þessum viðskiptum!

Þessi skýrsla svarar ekki öllum spurningum en hún er ágæt vísbending um þá möguleika sem fyrir hendi eru. Starfshópur LÍ hefur því væntanlega úr ýmsu að moða í starfi sínu. Læknablaðið mun fylgjast með því og greina frá niðurstöðum hópsins þegar þær liggja fyrir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica