Umræða og fréttir
  • 2004-05-u16-fig1

Læknabók Þorleifs Björnssonar II

Endurreisn vísinda og mennta á Ítalíu

Roger I (1031-1101) reyndist afburðastjórnandi og sýndi fádæma umburðarlyndi þeim þegnum, sem voru af öðru þjóðerni og það sem meira var, í öllu ríkinu var fullkomið trúfrelsi. Fern trúarbrögð þrifust hlið við hlið - rómversk-kaþólsk og grísk-kaþólsk trú, íslam og gyðingdómur. Höfuðborgin, Palermó, var nefnd þrítyngda borgin, opinberu málin voru latína, gríska og arabíska og að auki mátti heyra arameisku, tungu Gyðinganna og frönsku, móðurmál Normannanna. Var því ekki furða að til þessa frjálsa ríkis streymdu menntamenn, skáld og listamenn.

Fram að þessu höfðu menning og vísindi verið aðskilin í tvo heima, latneskan og grískan og ríkti gagnkvæm andúð og skilningsleysi þar á milli. Arabar komust í snertingu við Aust-rómverska keisaradæmið og þar voru náin menningarsamskipti. Til dæmis er vitað að í byrjun níundu aldar barst Mamoun kalífa í Bagdad safn grískra rita sem hann lét kristna Sýrlendinga þýða á arabísku. Grísk arfleifð komst þannig í vörzlu Serkjanna og falin handan kristninnar í Jerúsalem, Alexandríu, Kaíró, Túnis, Spáni og Sikiley.

Í ríki kalífanna stóð læknisfræði með blóma og stórlega var bætt við þekkinguna. Frægastur læknir þar var Avicenna (Ibn Sina), sem uppi var 980-1037 og nefndur var prinsinn meðal lækna. Meginverk hans nefnist lögmál læknisfræðinnar og var það notað til kennslu víða um Vesturlönd og á einum stað allt til ársins 1650. Raunar er Avicenna nú á dögum þekktastur fyrir heimspekikenningar sínar og fyrir þau áhrif sem hann hafði á Averroës og Maimonides, Heilagan Tómas Aquinas og Albertus Magnus. Fyrsta myndskreytta verkið um skurðlækningar kom frá hendi Abduls Kasim (Albucasis), sem var samtímamaður Avicenna og bjó í Kordóba á Spáni. Frá þeirri borg kom einnig annar læknir, Maimonides, Gyðingurinn Moses ben Maimon (1135-1204). Þegar hann neitaði að kasta trú sinni og ganga íslam á hönd, var hann útlægur ger og flýði til Kaíró. Þar varð frægð hans slík að hann varð líflæknir Saladíns fyrirliða Serkjanna. Maimonides ritaði tíu bækur á arabísku og kom þar á framfæri hugmyndum Hippókratesar, Galens, Díoskórídesar og Avicenna. Í læknisfræðilegum kjarnyrðum kom hann kenningum Galens í 1500 stuttar, hnitmiðar setningar að hætti Hippókratesar. Á sama hátt og Ibn Sina er Moses ben Maimon nú hins vegar þekktastur fyrir skrif sín um heimspeki og þó sérstaklega siðfræði.

Þegar uppgangur Normanna hófst var ríki kalífanna í Bagdad farið að hnigna og eftir að krossferðirnar hófust tóku Gyðingar að streyma vestur á bóginn. Þeir fluttu með sér þekkingu sem þar var löngu glötuð og má orða þetta svo að Serkir og Márar hafi varðveitt læknavísindin fyrir Vesturlandabúa um hinar myrku aldir.

Þegar vísindarit, frumsamin og þýdd, tóku að streyma vestur á bóginn, var hafizt handa við að þýða þau úr arabísku á latínu og hvergi voru betri skilyrði en á Sikileyjunum báðum. Þegar eftir að Normannar höfðu tryggt yfirráðin á Sikiley, réðu þeir þýðendur til þess að snúa á latínu þeim arabísku og grísku bókum sem þeir komust yfir í Palermó. Í læknisfræðinni var það hins vegar Salernó sem tók forustuna.

Læknaskólinn í Salernó

Salernó liggur á vesturströnd Ítalíuskagans við botn samnefnds flóa um fimmtíu kílómetra sunnan við Napólí. Á velmektartímum Rómarveldisins var þar vinsæll heilsulindastaður og álitið er að munkar af Benediktsreglu hafi verið farnir að reka þar spítala í byrjun níundu aldar, en auk þess var spítali á Monte Cassino í tengslum við klaustrið þar.

Ekki er ágreiningur um það að í Salernó varð til fyrsti læknaskóli í Evrópu, en margt er á huldu um upphaf hans. Það hefir líklega verið á níundu öld og heimildir eru til um það að seint á öldinni hafi stúdentar verið farnir að sækja þangað úr fjarlægum héruðum. Munnmæli herma að stofnendur hans hafi verið Gyðingurinn Elínus, Grikkinn Pontínus, Arabinn Adala og Rómverjinn Meistari Salernus. Þó svo að sögnin sé vafasöm í betra lagi má segja að hún lýsi vel þeim menningarþáttum sem tryggðu velgengni skólans.

Í Salernó var skurðlækningum gert jafn hátt undir höfði og lyflækningum og konur fengu aðgang að náminu. Frægust þeirra var Trotula sem við er kennd ritgerð um fæðingarfræði.

Eitt frægasta ritið sem frá Salernó kom var Regimen Sanitatis Salernitanum, latneskt ljóð um forsendur mataræðis og hreinlætis. Elstu uppskriftir geyma um 362 vers og sumar allt að 3500. Ljóðið var fyrst gefið út í Písa 1480 og síðan fylgdu fjórtán útgáfur víðs vegar í Evrópu og bókin var staðalrit fyrir lækna út sextándu öldina og fram eftir sautjándu öldinni.

Tilefni þessarar frásagnar um ríki Normanna og um Salernóskólann var að geta sagt deili á þeim manni sem Henrik Harpestræng fékk efnivið sinn hjá að verulegum hluta.

Constantínus Africanus var fæddur í Karþagó eða á Sikiley snemma á elleftu öld. Hann lærði læknisfræði í Salernó og ferðaðist um Sýrland, Persíu, Indland, Egyptaland og Eþíópíu og safnaði handritum um læknisfræðileg efni. Hann hafði vald á arabísku, grísku og latínu og var því einstaklega vel fallinn til þess að rannsaka og þýða þessa texta. Hann starfaði í klaustrinu sem Heilagur Benedikt hafði stofnað árið 529 á Monte Cassino, en það er miðja vegar milli Salernó og Rómar. Þar sneri hann úr arabísku á latínu þrjátíu og sjö bókum, þar á meðal voru tvö verk eftir Isaac Israeli sem uppi var einhvern tímann milli 855 og 955 og starfaði sem augnlæknir í Norður-Afríku og enn erum við minnt á framlag Gyðinganna.

Mikilvægasta afrek Konstantínusar var að koma á framfæri hinni víðtæku þekkingu á grískri læknisfræði sem Íslam bjó yfir, þar á meðal verkum Hippókratesar og Galens, svo og bókinni Pantechnê (Öll kunnátta og færni), sem er stytt útgáfa af Liber Regalis (Kitab al-maliki eða Konungsbókinni) frá tíundu öld eftir persneska lækninn Haly Abbas (Ali ibn al-Abbas).

Þýðingar Konstantínusar breiddust um Evrópu með ótrúlegum hraða og þær höfðu óhemjuleg áhrif næstu aldirnar. Þó svo að fram kæmu nákvæmari og fágaðri þýðingar skömmu eftir lát hans 1087, voru verk hans rannsökuð af fræðimönnum allt fram á sextándu öld.

Í Geschichte der Botanik setur þýzki grasafræðingurinn Ernst H.F. Meyer fram þrjár fullyrðingar:

Að Salernóskólinn hafi vaxið upp óháð reglu heilags Benedikts í Monte Cassino, að skólinn hafi allt frá byrjun verið undir veraldlegri stjórn, þó svo að klerklærðir fengju líka að starfa þar og að fyrir daga Konstantínusar Afríkanusar hafi skólinn ekki verið opinber kennslustofnun, heldur hafi þar verið eins konar læknagildi og læknarnir hafi haldið þekkingunni leyndri fyrir öðrum en fáum útvöldum.Var það og í samræmi við ævagamlan læknaeið, sem er "miklu eldri en Hippókrates, en sýnir glöggt anda þann, sem ríkti í esklepíadísku, hippokratisku skólunum, en þaðan er hann til vor kominn" eins og segir í þýðingu Valdimars Steffensens: "Ég vil virða læknisfræðikennara minn sem foreldra mína, taka þátt í lífskjörum hans og, ef nauðsyn krefur, ala önn fyrir honum; ... Fræði mín vil ég kenna sonum mínum og sonum kennara míns, svo og þeim lærisveinum mínum, sem bundnir eru læknalögum og læknaeiði og engum öðrum."

Með þýðingunum var gengið af þessari hefð dauðri og eins og fram kemur hér á eftir bættist svo við annar veigamikill þáttur sem varð einnig til að tryggja framgang þeirra fræða sem Constantinus Africanus flutti Evrópubúum og ollu straumhvörfum í læknisfræðinni.


Uppgangur og síðan endalok Salernóskólans

Roger II (1095-1154) tók við af föður sínum og árið 1130 var hann krýndur konungur Sikileyjar, Kapúa og Apúlíu af sendimanni páfa. Hann virðist ekki frekar en faðir hans hafa haft bein afskipti af Salernóskólanum, en þegar læknum tók mjög að fjölga gaf hann út tilskipun árið 1140 þess efnis að í ríkinu mættu þeir einir stunda lækningar sem lokið hefðu læknisprófi. Þetta var gert til þess enginn þegn ætti á hættu að lenda í höndum reynzlulausra manna. Lá við fangelsun og eignamissir ef út af var brugðið.

Dóttursonur Rogers, Friðrik annar (1194-1250), sem varð þýzk-rómverskur keisari, rak síðan smiðshöggið þegar hann kunngjörði í Liber Augustalis að próf vegna veitingar lækningaleyfis skyldu fara fram hjá meisturum læknaskólans í Salernó, en keisarinn eða fulltrúi hans gæfi út leyfið. Áður en gengizt yrði undir prófið skyldi fyrst ljúka þriggja ára undirbúningsnámi í náttúruvísindum og heimspeki. Lyflæknisfræði og skurðlækningar skyldi kenna á fimm árum og síðan tæki við starf í eitt ár hjá reyndum lækni. Vitnað var til þess skaða og óafturkallanlega tjóns sem getur leitt af reynsluleysi lækna og að með þessum ráðstöfunum sjái konungurinn trúum þegnum sínum fyrir betri þjónustu. Hefir því snemma verið skjalfest að stjórnendur ríkja telja sig bera ábyrgð á heilbrigði þegna sinna og varð þetta upphafið að því að í Evrópu eru það stjórnvöld sem ákveða hverjir mega stunda lækningar og hvernig eftirliti með læknum skuli háttað.

Með tilskipun sinni viðurkenndi keisarinn ágæti og yfirburði Salernóskólans, en það var einmitt í því sem fall hans var falið: Á tólftu öldinni dreifðust nemendurnir út um alla Evrópu og margir þeirra urðu kennarar við nýja læknaskóla á Ítalíu og á þrettándu öld voru starfandi góðir læknaskólar í Bólógnía, Padúa, Ferrara, Perúgía, Síena og Róm, auk Salernó.

Smátt og smátt færðist forystuhlutverkið til Montpellier í Frakklandi. Eins og Salernó lá borgin á mörkum hins íslamska og latneska heims og árið 1180 var leyft að Gyðingar og Arabar mættu sækja skólann og var það til marks um það frelsi sem skólinn í Montpellier naut umfram aðra franska skóla. Árið 1220 setti sendimaður páfa skólanum nákvæmar starfsreglur og í þeim var áfram viðurkenndur réttur nemenda og kennara sem ekki voru kristnir til náms og starfs.

Svo virðist sem starfsemi Salernóskólans hafi að mestu fluzt til Napólí um 1268 og síðan hafi hann liðið undir lok og er ekki frekar hægt að tímasetja það fremur en upphafið.

Á Íslandi gætti enn áhrifa frá skólanum á fimmtándu öld í lækningabók sem lítill gaumur hefir verið gefinn hérlendis fram að þessu og það er í ágætu samræmi við forsöguna að við höfum hvorki hugmynd um það, hvar hún varð til eða hvernig og heldur ekki hvernig og hvenær hún lenti í Dýflinni.

Við þessa sögu verður þó ekki skilizt án þess að geta hugsanlegrar vísbendingar: Í Mírmanns sögu, sem út kom 1997, segir ritstjórinn, Desmond Slay, frá íslenzkum handritum sem varðveitt eru í bókasafni Trinity College, Dublin. Hafi þau um tíma verið í eigu James Johnstone fornfræðings (antiquary). Um líf hans sé lítið vitað nema það að hann hafi verið prestur og ritari við Brezka sendiráðið í Kaupamannahöfn 1779 til 1782 og hafi síðan veitt sendiráðinu forstöðu í fjarveru sendiherrans 1785 til 1786 og aftur 1789 til 1790. Ritsmíðar hans hafi verið gefnar út í Höfn 1780 til 1786 og hann titlar sig þá: Rector of Magheracross in Ireland. Johnstone lézt á Írlandi árið 1798. Desmond Slay segir, að Trinity College hafi keypt "Johnstone's considerable collection of Icelandic manuscripts on 27 February 1800 ... (Library Minutes, TCD MUN/LIB/2/1)".

Ekki kemur fram hvort MS L-2-27 var meðal þeirra handrita, sem seld voru og ekki er heldur vitað hvernig MS 23 D 43 komst í bókasafn the Royal Irish Academy.

Íslenzk lækningahandrit og Henrik Harpestæng

Í formálanum að ritum Harpestrængs segir Marius Kristensen að af íslenzkum textum sem að hluta til eða í heild megi rekja til Harpestrængs séu þessir þekktir:

Kafli úr lækningabók frá síðasta hluta þrettándu aldar fenginn úr handritinu A.M. 655 XXX Qv. og útgefinn af Konráð Gíslasyni í Kaupmannahöfn árið 1860 (Fire og fyrretyve for en stor deel forhen utrykte Prøver af Oldnordisk Sprog og Litteratur).

Kafli um læknisfræði í Alfræði íslenzkri sem Kr. Kålund gaf út í Kaupmannahöfn 1908 (Islandsk Encyklopædisk Litteratur I. COD. MBR. AM 194, 8v°).

Íslenzka lækningabókin Codex Arnamagnæanus 434 a 12mo. frá síðari hluta 15. aldar. Kr. Kålund gaf út í Kaupmannahöfn 1908 (Kongelige Danske Videnskabs Selskabs Skrifter 6 Række. Historisk-filologisk Afdeling IV. Kjøbenhavn 1907)

Handritið MS Royal Irish Academy 23 D 43 í Dublin, sem fyrr var nefnt. Um það segir Kristensen: "Bogen blev fundet for nogle år siden af Edw. Gwynn, fellow of Trinity College og Prof. Carl Marstrander (nu i Christiania) har taget afskrift af den."

Í formálanum að læknabók Þorleifs Björnssonar þakkar Larsen veittan stuðning og aðstoð, þar á meðal Poul Hauberg lyfjafræðingi í Kaupmannahöfn "for suggestions upon botanical questions." Hefir sú ráðgjöf að sjálfsögðu náð til ábendinga um það hvaða jurtir er verið að fjalla um.

Poul Richard Hauberg var einn af ráðgjöfum Kristensens við útgáfuna á ritum Harpestrængs 1908 til 1922 og hann hélt áfram rannsóknum sínum á norrænum handritum fram eftir öldinni. Að honum látnum kom út ritið: Lægebøger med til tilknytning til Henrik Harpestræng. Theriaca. Samlinger til Farmaciens og medicinens Historie.

Eftirfarandi textar, með skýringum Haubergs, eru í ritinu:

U Lægebogen í Uppsala Universitetsbibliotek D 600. 8° - frá lokum 15. aldar,

A D Lægebogen í Thottske Samling 710. 4° - frá miðri 15. öld og Det Arna-Magnæanske Haandskrift A.M. 819. 4° - frá 17. öld,

C Lægebogen i Ny Kgl. Samling 314 b. 4° - frá lokum 15. aldar,

I Lægebogen i Det Arna-Magnæanske Haandskrift A.M. 45. 4° - frá miðri 15. öld,

U1 Lægebogen i Uppsala Universitetsbibliotek D 600. 8°,

E Lægebogen i Gl. Kgl. Samling 3487. 8° - frá byrjun 16. aldar,

F Lægebogen i Den Arna-Magnæanske Haandskriftsamling A.M. 188. 4° - frá miðri 16. öld,

G Lægebogen i Gl. Kgl. Samling 3487. 8° - frá byrjun 16. aldar.

Í þessu verki renndi Hauberg styrkari stoðum undir þekkinguna á því, um hvaða jurtir er verið að fjalla í norrænum lækningahandritum og það auðveldar allan samanburð. Þegar kemur að útgáfu Læknabókar Þorleifs Björnssonar og orðaskýringum með henni munu lesendur geta sannreynt að svo er.Helztu heimildir

Blöndal LH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Skrifstofa landlæknis lét taka saman. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja MCMXLV.

Harpestræng H. Gamle Danske urtebøger, stenbøger og kogebøger. Udgivne for Universitets-Julilæets Danske Samfund ved Köbenhavn ved Marius Kristensen. København: H.H. Thieles Bogtrykkeri 1908-1921. [Første Hæfte 1908, Andet Hæfte 1909, Tredje Hæfte 1910, Fjærde Hæfte 1913, Femte Hæfte 1915, Sjette Hæfte 1917, Syvende Hæfte 1921]

Larsen H. An Old Icelandic Medical Miscellany. MS Royal Irish Academy 23 D 43 with Supplement from MS Trinity College (Dublin) L-2-27. Utgitt for Fridtjof Nansens Fond. Det Norske Videnskaps-Akademi i Oslo. Oslo: I Kommisjon hos Jacob Dybwad 1931.

Harpestræng H. Liber herbarum udgivet af Poul Hauberg. København: Bogtrykkeriet Hafnia (Carl Kretzschmer)1936.

Hauberg P. Lægebøger med Tilknytning til Henrik Harpestræng København: Theriaca. Samlinger til Farmaciens og Medicinens Historie. Hefte XXII Udgivet af Dansk Farmacihistorisk Selskab. Juni 1982.

Geschichte der Botanik. Studien von Ernst H. F. Meyer. Königsberg: Verlag der Gebrüder Bornträger. Erster Band 1854. Zweiter Band 1854. Dritter Band 1856. Vierter Band 1857. Nachdruck. Amsterdam: A. Asher & Co. 1965.

Steffensen V. Hippokrates. Faðir læknisfræðinnar. Saga hans og hippokratisku læknisfræðinnar, ásamt þýðingum á víð og dreif úr ritum hans. Reykjavík: Bókaútgáfan Norðri 1946.

Mírmanns saga. Edited by Desmond Slay Editiones Arnamagnæanæ Series A, vol. 17 Copenhagen:C A Reitzels Forlag 1997.

Durant W. The Story of Civilization: 4 A History of Medieval Civilization - Christian, Islamic, and Judaic - from Constantine to Dante: A.D. 325-1300.

Grimberg C. Verdenshistorien 5. bindi: Folkevandringerne og 6. bindi: Korstogstiden. København: Politikens forlag 1966.

Encyclopædia Britannica. A New Survey of Universal Knowledge. Encyclopædia Britannica. Chicago: William Benton, Publisher 1965.

Encyclopædia Britannica Online Copyright © 1994-2001 Encyclopædia Britannica Inc.

Lyons AS, Petrucelli RJ. Medicine. An illustrated History. New York: Abradale Press 1978.

Rutkow IM. Surgery. An illustrated History St. Louis: Mosby 1993.Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica