Umræða og fréttir

Frá TR: Nýtt eyðublað vegna örorkumats

Undanfarin misseri hefur farið fram endurskipulagning á matsferli vegna örorkubóta lífeyristrygginga (,,almennrar örorku"). Í sambandi við þetta hafa verið endurskoðaðar aðferðir við upplýsingaöflun til að framkvæma örorkumat, bæði hvað snertir hvaða upplýsingar þarf og hvaðan þeirra skal aflað. Reynt hefur verið að afla nauðsynlegra upplýsinga frá þeim sem best veit, sumra frá umsækjanda (sjúklingi) og annarra frá læknum, sem þekkja til heilsufars og færni umsækjanda. Umsækjandi er yfirleitt beðinn að svara spurningalista um eigin heilsufar, færni og fleira. Spurningalisti sá sem verið hefur í notkun frá 1999, hefur verið styttur um helming.

Nýtt vottorðseyðublað vegna örorkumats lífeyristrygginga hefur nú verið útbúið í samvinnu læknasviðs Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Íslands. Vottorðið nefnist:

Læknisvottorð vegna umsóknar um örorkubætur lífeyristrygginga eða endurmats örorku

Vottorðseyðublaðið er á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins www.tr.is. Það er á Word-formi, til að útfylla og vista hjá notanda. Ekki er enn hægt að senda vottorðið rafrænt.

Nú hverfa úr notkun vottorðin: Læknisvottorð A vegna umsóknar um örorkubætur lífeyristrygginga og Læknisvottorð B vegna endurnýjunar umsóknar um örorkubætur.

Í nýja vottorðinu er ekki gert ráð fyrir að vottorðsgefandi læknir taki afstöðu til einstakra þátta örorkumatsstaðals, en læknirinn vottar um fyrra heilsufar umsækjanda, núverandi heilsuvanda/færniskerðingu og horfur. Sama vottorðsform verður notað vegna frummats og endurmats. Við endurmat örorku þarf að jafnaði ekki greina frá heilsufarssögu í reitnum ,,Fyrra heilsufar" en nauðsynlegt er þó að segja frá meiriháttar heilsufarsbreytingum frá síðasta örorkumati.

Vonast er til að læknum þyki nýja vottorðið ekki erfiðara í notkun en þau vottorð sem það leysir af hólmi. Tekið er við fyrirspurnum og athugasemdum vegna þessa vottorðs á netföngunum halldorb@tr.is og haraldj@tr.is


Halldór Baldursson
aðstoðartryggingayfirlæknir


Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica