Umræða og fréttir
  • 2004-04-u01-fig1

Hver er ábyrgð fjölmiðla?

 
Fjölmiðlar og umfjöllun þeirra um meðhöndlun lækna á sjúklingum hefur verið mjög til umræðu innan stéttarinnar og það ekki að tilefnislausu. Svo virðist sem ákveðinn hópur áhrifamanna innan blaðamannastéttar sé ákveðinn í að laga fréttaflutning sinn að kröfum almennings um að allt eigi að vera uppi á borðinu, ekkert megi láta ósagt og engum þyrmt. Þeir ala á forvitni fólks og vita að þeir geta selt sinn miðil með fregnum í æsifréttastíl þar sem sífellt fleira er látið uppi. Hingað til hefur þótt rétt í íslensku samfélagi að fjalla ekki um einstaklinga sem eiga aðild að málum með nafni og dæma þá þar með hjá dómstól götunnar fyrr en sekt hefur verið sönnuð. Hafa menn almennt treyst yfirvöldum, svo sem lögreglu og dómstólum, til að afgreiða viðkvæm mál eftir réttum leiðum innan dómskerfisins.

Þetta hefur breyst á undanförnum mánuðum, að minnsta kosti í nokkrum fjölmiðlum. Fjallað hefur verið um ýmis mál þar sem menn hafa verið bornir þungum sökum einhliða og án þess að sá sem liggur undir ámæli geti komið við nokkrum vörnum. Á þetta bæði við um mál sem snerta lækna en einnig aðrar starfstéttir. Einkum virðist sem fjölmiðlum finnist sjálfsagt að gera sér mat úr því þegar fæðingar barna fara á annan hátt en vænst er. Getur verið að skýringin á því sé kannski sú mótsögn að hvergi í heiminum er burðarmálsdauði orðinn eins fátíður og hér? Fólk væntir þess að öllum meðgöngum ljúki með fæðingu lifandi, heilbrigðs barns. Það vita hins vegar allir sem eitthvað starfa við fæðingar að slíkar væntingar er því miður ekki alltaf hægt að uppfylla þrátt fyrir að allir þeir sem annast þungaðar konur og nýfædd börn geri sitt besta. Sorgin yfir missi barns og brostinna væntinga er nístandi sár og snýst oft í ásakanir, fyrst í eigin barm og síðan gegn þeim sem traustið var sett á, að þeir hafi ekki gert allt sem hægt hefði verið að gera og þar með ekki verið traustsins verðir.

Þessi viðbrögð eru skiljanleg og nokkuð sem allir læknar kannast við og eiga að vera í stakk búnir að mæta. Læknar vita manna best að læknisfræðinni eru takmörk sett og að þeir eru ekki almáttugir. Ef þeir sem eiga um sárt að binda finnst ekki skýringar heilbrigðisstarfsfólks á því hvers vegna fór sem fór fullnægjandi eru til farvegir fyrir kvartanir sem oft eru nýttir. Stundum enda kvartanir í ákærum og fara fyrir dóm þar sem viðkomandi þurfa að sjálfsögðu að hlíta dómsúrskurði. Slík mál eru opinber og dómurinn sjálfkrafa opinn almenningi sem getur til dæmis kynnt sér þau á netinu. Undanfarin misseri hefur hins vegar aukist umfjöllun fjölmiðla um mál sem eru enn til athugunar hjá landlækni og jafnvel hjá lögreglu. Fjölmiðlamenn vita ósköp vel að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk er bundið þagnarskyldu og getur alls ekki tjáð sig um málefni einstakra sjúklinga. Hins vegar hefur hinum málsaðilanum í nokkrum málum verið veittur nær ótakmarkaður aðgangur að sumum fjölmiðlum og leyft að bera fram fullyrðingar sem ekki er hægt að hrekja eða svara án þess að brjóta þagnarskyldu. Ásakanir þær sem hafa birst hafa verið alvarlegar og ráðist hefur verið að starfsheiðri og æru nafngreindra lækna sem vitað er að geta ekki borið hönd yfir höfuð sér vegna stöðu sinnar.

Við sem vinnum við þessa starfsgrein finnum fyrir áhrifum þessarar umfjöllunar. Þó að flestir skjólstæðingar okkar geri sér grein fyrir því að verið er að fjalla um mál sem hafa tvær hliðar og önnur hliðin fái ekki að koma fram má greina ákveðið óöryggi og jafnvel vantrú á meðferð okkar og vinnubrögð. Þetta vantraust leiðir getur hugsanlega leitt ýmist til ónauðsynlegra inngripa að kröfu skjólstæðinganna eða að inngrip sem eru nauðsynleg verða ekki framkvæmd af hræðslu við óæskilegar afleiðingar. Einnig eru læknar og ljósmæður undir miklu álagi þegar sífellt er reynt að finna sökudólga ef eitthvað fer öðruvísi en ætlað var og enginn getur hugsað sér að verða fyrir barðinu á fjölmiðlunum og vera úthrópaðir frammi fyrir alþjóð. Fólk í þessum stéttum er alvarlega farið að íhuga að finna sér annan starfsvettvang þar sem minni líkur eru á að fjallað verði um störf þeirra opinberlega þegar útkoma meðferðar verður ekki eins og best var á kosið. Það sem vel er gert þykir ekki fréttnæmt og jafnvægið í fréttaflutngi af þessu sviði því ekkert. Afleiðing þessa gæti orðið sú að við misstum hæfasta fólkið í greininni frá störfum, fólkið sem einmitt á heiðurinn af lægstu burðarmálsdauðatíðni í heimi. Er ekki ábyrgð fjölmiðla þó nokkur? Er ekki mál að linni og að áhrifamenn innan fjölmiðla átti sig á því hverjar afleiðingar umfjöllunar þeirra geta orðið?





Þetta vefsvæði byggir á Eplica