Umræða og fréttir
  • 2004-04-u04-fig1
  • 2004-04-u04-fig2
  • 2004-04-u04-fig3

Stækkum í takt við íbúafjöldann

 
Í vaxtarbroddi höfuðborgarsvæðisins, Salahverfi í Kópavogi, var opnuð ný heilsugæslustöð í lok janúar. Þessi stöð er frábrugðin öðrum að því leyti að rekstur hennar var boðinn út og er í einkaeigu. Mörgum heimilislækninum þykir þessi tilraun spennandi í ljósi þeirrar stefnu sem rekin hefur verið af hálfu heilbrigðisyfirvalda í málefnum heilsugæslunnar í landinu undanfarin ár.

Læknablaðið sótti á dögunum heim læknana Böðvar Örn Sigurjónsson og Hauk Valdimarsson en þeir eiga helmingshlut í Salus ehf. sem varð hlutskarpast í útboði ráðuneytisins. Hinn helmingurinn er í eigu ráðgjafarfyrirtækisins Nýsis hf. en helstu forsvarsmenn þess eru Sigfús Jónsson og Stefán Þórarinsson. Eigendurnir hafa skipt með sér verkum á þann hátt að Böðvar og Haukur bera fyrst og fremst hitann og þungann af heilbrigðisþættinum en þeir Sigfús og Stefán sinna rekstri og fjármálum stöðvarinnar.



Fjögur stöðugildi lækna

Salastöðin er á annarri hæð í verslunar- og skrifstofuhúsi á horni Salavegar og Fífuhvammsvegar, talsverðan spöl austan Reykjanesbrautar og Smáralindar. Haukur sýndi mér húsakynninn meðan Böðvar sinnti sjúklingum og kom fram að hæðin er skipt niður í einingar. Í þremur hornum eru stofur fyrir tvo lækna og hefur hver þeirra skrifstofu og skoðunarherbergi. Auk þess eru stofur fyrir hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk. Í tengslum við móttöku er aðstaða fyrir ritara og geymslur fyrir sjúkraskrár og önnur gögn. Í miðrými er aðgerðastofa og aðstaða til að geyma lífsýni, sótthreinsa og sinna öðrum verkum.

Auk þeirra Hauks og Böðvars starfa í stöðinni Hjördís Birgisdóttir hjúkrunarforstjóri, Ólöf Leifsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, móttökuritarar í hálfu öðru stöðugildi og læknaritari í hálfu stöðugildi. Starfsfólkinu mun fjölga innan tíðar því þegar er búið að auglýsa eftir tveimur læknum til viðbótar og er áætlað að annar hefji störf í júní en hinn á haustmánuðum.

Samningurinn kveður á um að Salastöðin sinni almennri heilsugæslu, mæðra- og ungbarnaeftirliti og skólaheilsugæslu í skólum hverfisins. Ekki er gert ráð fyrir starfsemi heimahjúkrunar frá stöðinni, enda er sá þáttur heilbrigðisþjónustunnar nú starfræktur miðlægt frá Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík og Heilsugæslunni í Kópavogi. Gert er ráð fyrir að hægt verði að gera algengustu blóðrannsóknir og þess háttar í stöðinni en til að byrja með var tekinn sá kostur að semja við Rannsóknastofuna í Mjódd fram til næstu áramóta um að annast rannsóknir og kemur meinatæknir þaðan tvisvar í viku eins og er. Niðurstöður rannsókna eru svo sendar til baka með rafrænum hætti.



Góðar viðtökur

Salus ehf. gerði samning við heilbrigðisráðuneytið til átta ára um rekstur stöðvarinnar með möguleika á framlengingu án útboðs í fjögur ár til viðbótar. Eftir það verður reksturinn boðinn út aftur. Greiðslur hins opinbera fyrir þjónustuna eru fjórskiptar: greidd er árlega föst upphæð á hvern sjúkling sem skráður er hjá stöðinni, ákveðin upphæð fyrir hverja komu eða vitjun, ákveðin upphæð fyrir skólaheilsugæsluna og loks eru greiðslur upp í rekstrarkostnað húsnæðis stöðvarinnar. Ríkið leigir húsnæðið sem stöðin er í til 25 ára en húsgögn og tækjabúnaður er í eigu Salus ehf.

Þeir félagar reikna með því að stöðin verði fullmönnuð áður en langt um líður því hverfið sem þeir starfa í er ört vaxandi. Nú býr á sjötta þúsund manns í Sala- og Lindahverfi en þegar nýja hverfið við Vatnsenda verður risið mun sú tala sennilega tvöfaldast. Stöðin hefur skyldum að gegna við hverfið því samkvæmt samningi við ráðuneytið ber henni að taka við þeim sjúklingum úr hverfinu sem þess óska á skrá. Þeir mega þó taka við sjúklingum úr öðrum hverfum eða sveitarfélögum, til dæmis fylgdi Böðvari nokkur hópur sjúklinga úr Efra-Breiðholti þar sem hann starfaði áður.

Að sögn þeirra félaga hafa viðtökur íbúanna verið afar góðar enda allmargir sem ekki höfðu haft beinan aðgang að heimilislækni. Íbúasamsetningin í hverfinu er nokkuð sérstök, allmikið er um stærri og dýrari íbúðir og í þeim búa aðallega ungar barnafjölskyldur og svo eldri borgarar en þeir þjóðfélagshópar sækjast öðrum fremur eftir þjónustu heimilislækna svo tilkoma stöðvarinnar hefur verið kærkomin.



Frelsi og áhætta

En hvernig skyldi þeim Hauki og Böðvari líka frelsið? Jú, takk bærilega, segja þeir. "Við ráðum meiru sjálfir. Það er til dæmis alveg ný reynsla að við getum sjálfir valið okkur samstarfsmenn," segir Haukur. Hann bætir því hins vegar við að stofnun stöðvarinnar hafi kallað á mikla aukavinnu við ýmis störf sem þeir hafa ekki vanist að þurfa að sinna. "Það tekur líka skemmri tíma að taka ákvarðanir um innkaup og þess háttar," segir Böðvar. "Nú þarf ekki að leggja inn beiðni um kaup á hverju smátæki og bíða þess að hún verði tekin fyrir á fundi annars staðar."

Þeir óttast samt ekki að læknisstarfið verði smám saman útundan og að þeir verði komnir á kaf í bísniss áður en þeir vita af. "Uppbygging fyrirtækisins er þannig að á því er engin hætta. Auk þess sýnist okkur yfirbyggingin vera léttari en í öðrum stöðvum svo það ætti ekki að þurfa að fara mikill tími í rekstrarþáttinn," segir Böðvar.

Haukur segir að kollegarnir spyrji gjarnan hvort hann sé ekki hræddur við að taka svo mikla rekstrarlega áhættu. "Ég hef svarað því til að vissulega fylgi þessu nokkur áhætta en að ástandið í samfélaginu sé með þeim hætti að það sé ekki endilega á vísan að róa þótt menn starfi hjá ríkinu. Gangi þessi tilraun vel - sem allir vona að sjálfsögðu - getur farið svo að þetta rekstrarform breiðist út. Einn góðan veðurdag geta því kollegar okkar staðið frammi fyrir því að rekstur stöðvanna sem þeir starfa á verði boðinn út. Þá verða þeir að taka áhættuna á að bjóða í reksturinn eða leita sér að vinnu annars staðar," segir Haukur Valdimarsson að lokum.


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica