Umræða og fréttir
Orlofsbústaðir fyrir alla lækna
Vorið 2002 var tekinn í notkun nýr orlofsbústaður læknafélaganna við Hreðavatn (sjá frétt í 7./8. tbl. Læknablaðsins 2002). Nú í haust var síðan hafin bygging á öðrum nýjum orlofsbústað og er hann er í landi Húsafells (sjá frétt í 12. tbl. Læknablaðsins 2003). Það vekur athygli að við byggingu beggja þessara bústaða er sérstakt tillit tekið til aðgengis hreyfihamlaðra. Ég er í hópi fárra hreyfihamlaðra lækna og gleðst því væntanlega meira yfir þessu en aðrir. Ég var einnig ánægður með að Sigurbjörn Björnsson skyldi hafa kallað mig til sem ráðgjafa við byggingu bústaðarins við Hreðavatn.
Síðastliðið sumar dvaldi ég í vikutíma í orlofsbústaðnum í landi Miðhúsa við Egilsstaði. Ég hafði áður heyrt að þröskuldar væru þar frekar háir og svefnherbergisdyr í þrengsta lagi til þess að hægt væri með góðu móti að komast þar um í hjólastól. Hringdi ég í Pétur Heimisson og spurðist fyrir um hugsanlegar úrbætur. Daginn eftir fékk ég tölvupóst frá Pétri með myndum úr bústaðnum, en þá var þegar búið að breikka dyrnar og gera aðrar lagfæringar! Óhætt er að segja að málið hafi verið leyst samstundis.
Óski læknar eftir að dveljast í orlofsbústað að vetrarlagi eru ekki notaðar sömu reglur og gilda um sumarúthlutun. Vegna tímabilsins frá áramótum og fram til vors fá þeir fyrst úthlutað sem fyrstir hringja eftir 1. nóvember. Nú í haust ákvað Orlofsnefnd að hreyfihamlaðir læknar fengju einnar viku forskot vegna umsóknar um áðurnefndan bústað við Hreðavatn.
Árni Björn Stefánsson var formaður Orlofsnefndar í nokkur ár. Nýlega kynnti hann nýstárlegar hugmyndir sínar um jarðgöng inn í Þríhnúkagíg. Tók hann fram að göngin yrðu fær fólki í hjólastólum. Velti ég því fyrir mér, í gríni og alvöru, hvort orlofsnefnd kæmi eitthvað að þessu máli.
Orlofsnefnd á mikið hrós skilið fyrir að vinna að bættu aðgengi hreyfihamlaðra. Ég hef kynnst því af eigin raun að í þjóðfélaginu þurfa hreyfihamlaðir að glíma við margs konar hindranir. Það er því ánægjulegt að geta, eins og aðrir læknar, farið í ferðalag, notið náttúru landsins og dvalist í orlofsbústöðum læknafélaganna.
Síðastliðið sumar dvaldi ég í vikutíma í orlofsbústaðnum í landi Miðhúsa við Egilsstaði. Ég hafði áður heyrt að þröskuldar væru þar frekar háir og svefnherbergisdyr í þrengsta lagi til þess að hægt væri með góðu móti að komast þar um í hjólastól. Hringdi ég í Pétur Heimisson og spurðist fyrir um hugsanlegar úrbætur. Daginn eftir fékk ég tölvupóst frá Pétri með myndum úr bústaðnum, en þá var þegar búið að breikka dyrnar og gera aðrar lagfæringar! Óhætt er að segja að málið hafi verið leyst samstundis.
Óski læknar eftir að dveljast í orlofsbústað að vetrarlagi eru ekki notaðar sömu reglur og gilda um sumarúthlutun. Vegna tímabilsins frá áramótum og fram til vors fá þeir fyrst úthlutað sem fyrstir hringja eftir 1. nóvember. Nú í haust ákvað Orlofsnefnd að hreyfihamlaðir læknar fengju einnar viku forskot vegna umsóknar um áðurnefndan bústað við Hreðavatn.
Árni Björn Stefánsson var formaður Orlofsnefndar í nokkur ár. Nýlega kynnti hann nýstárlegar hugmyndir sínar um jarðgöng inn í Þríhnúkagíg. Tók hann fram að göngin yrðu fær fólki í hjólastólum. Velti ég því fyrir mér, í gríni og alvöru, hvort orlofsnefnd kæmi eitthvað að þessu máli.
Orlofsnefnd á mikið hrós skilið fyrir að vinna að bættu aðgengi hreyfihamlaðra. Ég hef kynnst því af eigin raun að í þjóðfélaginu þurfa hreyfihamlaðir að glíma við margs konar hindranir. Það er því ánægjulegt að geta, eins og aðrir læknar, farið í ferðalag, notið náttúru landsins og dvalist í orlofsbústöðum læknafélaganna.