Umræða og fréttir

Lagabreytingar á árshátíð LR

Læknablaðið fékk góðfúslegt leyfi þeirra norðanmanna Sigurðar Albertssonar og Haralds Haukssonar skurðlækna á Akureyri til þess að birta aðeins örlítið brot af gamanmálum sem þeir fluttu gestum á árshátíð LR 24. janúar sl. Þeir kynntu atriði sitt sem "lagabreytingar" og fengu þar með fullkomna þögn og athygli viðstaddra. Síðan hófst flutningur á talsvert breyttum og bráðskemmtilegum "lögum" og var þeim afar vel fagnað. Ekki þarf að fara hér í neinar grafgötur með uppruna og höfundarrétt, það er allt uppi á (skurðar-)borðinu einsog það hljómar á góðri íslensku, og tíðni og meðalgildi tilvitnana í góðu samræmi við ákvæði í lögum og reglum þar um. - VS.



Áfram krossbönd krossbönd

(Lag: Áfram Kristsmenn krossmenn)



Áfram krossbönd krossbönd

krossbönd skerum vér.

Fram í stríðið stefnir

sterkur læknaher.



Látum eigi liðunum

líða ver og ver.

Förum geyst og fyllum kvótann

fyrir september.

Áfram krossbönd krossbönd

krossbönd skerum vér.

Fram í stríðið stefnir

sterkur læknaher.



Læknar skipta létt um augasteina

(Lag: Litla flugan)



Læknar skipta létt um augasteina.

Líka skera burtu krabbamein.

Létt þeir setja liði milli beina.

Lipur hver og einn í sinni grein.



Ef þig sjúkan bölið er að buga

þá bara hringdu í fyrirtækið mitt

og þó ég ei til annars mætti duga

ég eflaust gæti læknað meinið þitt.



Konan í kring

(Lag: Konan sem kyndir ofninn minn)



Ég finn það gegnum svefninn

að einhver læðist inn

með andlitsmaskann sinn

og veit að það er hnátan sem hnýtir sloppinn minn.

Sem út með fatið fer

og fúlar tuskur ber

burt frá þér og mér.

Læðist út úr stofunni og lokar á eftir sér.



Ég veit að hún er syfjuð

en sefur aldrei neitt

þó sé hún dauðaþreytt,

hendur hennar blóðugar og hárið illa greitt.

Hún fer að engu óð.

Er öllum læknum góð

og vinnur verk sín hljóð.

Ef biður hana svæfingin, hún sækir meira blóð.



Ég veit að þessi kona

er vinafá og snauð

og væri ekki brauð

á borðinu á föstudögum, væri hún löngu dauð.

En oftast er það sá

sem allir kvelja og smá

sem mesta mildi á.

Fáir nota hanskana sem fyrstir sækja þá.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica