Umræða og fréttir
Íðorð 163. Exposure
Enn einu sinni verður hafin umræða um enska nafnorðið exposure. Áður hefur verið óskað eftir hugmyndum lesenda og tillögum að íslensku heiti (í 135., 141., 153. og 160. pistli). Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur hjá Krabbameinsfélagi Íslands, telur mikla þörf fyrir íslenskt heiti. Hún setti því af stað umræðu með tölvupósti hjá hópi áhugamanna um faraldsfræði. Ekki tóku allir tilkvaddir beinan þátt í umræðunni, en skeytin gengu fram og aftur innan hópsins frá fyrri hluta nóvember 2003 og fram undir jól. Nokkrar hugmyndir komu fram og augljóst var að verkefnið er ekki auðvelt. Undirritaður varð meðlimur í hópnum stuttu eftir að umræðan hófst, geymdi öll skeytin sem hann fékk og hefur nú farið skipulega yfir þau. Að auki hefur hann safnað ýmsum viðbótargögnum. Við yfirlestur fjórum vikum seinna rifjaðist upp sagan um blindu mennina sem reyndu að gera sér hugmynd um fílinn eftir að hafa skoðað hver sinn líkamshlutann á dýrinu. Svo fór að hópurinn náði ekki sameiginlegri niðurstöðu, enda verkefnið snúið. Þorkell Jóhannesson, prófessor emeritus, hafði reyndar bent á það í tölvupósti, sem sagt var frá í 160. pistli (Læknablaðið 2003; 89: 885), að nafnorðið exposure hefði margar merkingar og taldi það "ekki ómaksins virði að leita að einu jafngildu orði á íslensku."
Þörfin
Ekki var gerð formleg þarfagreining vegna vandamálsins, en fram kom ótvírætt að leitað væri að góðu íslensku nafnorði í stað exposure, sagnorði í stað to expose og lýsingarorði í stað exposed. Bent var einnig á að enskan væri gjarnan nafnorðaglöð og að oft mætti þýða enskan texta á íslensku, þannig að merkingin skilaði sér, án þess að full samsvörun væri milli einstakra orða og orðflokka í báðum málunum. Undirritaður lýsti því til dæmis að merkingin í setningunni. "The patient was subjected to minimal radiation exposure" skilaði sér fyllilega á íslensku án þess að nafnorðið exposure væri sérstaklega þýtt: "Sjúklingurinn varð fyrir lágmarksgeislun." Niðurstaðan varð þó sú að nauðsynlegt væri að hafa á takteinum íslenskt orð fyrir hvert af þessum þremur ensku orðum. Einnig kom það snemma fram í umræðunni að forðast bæri að nota danskættuðu orðin útsetning, útsetja og útsettur.
Aðferðafræðin
Eftir á að hyggja sést að hópurinn vanrækti að velta því nægilega fyrir sér hvernig heitið exposure væri notað og enn fremur að koma sér saman um skilgreiningu á hugtakinu sem til umfjöllunar var. Íðorðaverkefni eru auðvitað misjafnlega flókin, en undirritaður hefur alltaf leitað sér trausts og halds í skipulegum vinnubrögðum þegar stórkostleg hugljómun verður ekki að bragði. Slíkt er í samræmi við hefð og verklag íðorðafræðinnar. Skoða þarf vel notkunarsvið hinna erlendu heita, sem fengist er við hverju sinni, og þau hugtök sem liggja þeim að baki. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða orð og heiti með margar merkingar. Við þessa skoðun er æskilegt að vera smásmugulegur og krefjast nákvæmra skilgreininga eða lýsinga. Lýsing segir til um hvaða fyrirbæri ákveðið heiti á að tákna, en skilgreining leitast við að afmarka það vel frá öðrum fyrirbærum. Sem einfalt dæmi má nefna að fullnægjandi lýsing á ásgörn (jejunum) geti verið á þennan hátt: "Slöngulaga líffæri í kviðarholi sem tengir saman skeifugörn (duodenum) og dausgörn (ileum)." Skilgreining þyrfti hins vegar að tiltaka að ásgörnin væri efri hluti svonefndra smáþarma í meltingarveginum, og einnig að tilgreina hvernig hún afmarkaðist frá skeifugörn að ofanverðu og dausgörn að neðanverðu.
Leita þarf einnig uppi dæmi um notkun heitisins í nýlegum textum. Þar geta komið fram mismunandi merkingar og blæbrigði í notkun, sem ekki er hægt að finna í formlegum lýsingum og skilgreiningum. Enn fremur er ekki sjaldgæft að notkun fræðiheita breytist með aukinni þekkingu á fyrirbærunum. Benda má loks á að notkun og merking íðorða, sem tilheyra fleiri en einu þekkingarsviði, getur þróast á sinn hátt á hverju þeirra.
Merkingar
Að þessu sögðu er tímabært að koma sér að verki. Í enskum orðabókum kemur fram að nafnorðið exposure er almennt heiti og getur átt við um ástand, stöðu, athöfn, verknað, tilvik og hlutrænt fyrirbæri, eins og dæmin sýna. Hin mikla orðabók Websters tilgreinir að exposure sé notað um 1. að setja e-ð fram, 2. uppljóstrun e-s, t.d. einka- eða leyndarmáls, 3. að afhjúpa e-ð, t.d. svikara, glæp, svik, 4. að setja e-ð fram til birtingar, sérstaklega opinberlega, 5. að bera eða berskjalda fyrir verkan eða áhrifum e-s, 6. (í ljósmyndun) a. að lýsa filmu, láta filmu verða fyrir ljósgeislum, b. svæði á filmu sem orðið hefur fyrir ljósgeislum, 7. að setja út án skýlis eða skjóls, s.s. að bera út barn, 8. að vera berskjaldaður, 9. að snúa eða vera staðsettur m.t.t. sólarljóss eða veðurs, 10. e-ð sem er sýnilegt, sést eða er óvarið augum annarra.
Framhald í næsta blaði.
Þörfin
Ekki var gerð formleg þarfagreining vegna vandamálsins, en fram kom ótvírætt að leitað væri að góðu íslensku nafnorði í stað exposure, sagnorði í stað to expose og lýsingarorði í stað exposed. Bent var einnig á að enskan væri gjarnan nafnorðaglöð og að oft mætti þýða enskan texta á íslensku, þannig að merkingin skilaði sér, án þess að full samsvörun væri milli einstakra orða og orðflokka í báðum málunum. Undirritaður lýsti því til dæmis að merkingin í setningunni. "The patient was subjected to minimal radiation exposure" skilaði sér fyllilega á íslensku án þess að nafnorðið exposure væri sérstaklega þýtt: "Sjúklingurinn varð fyrir lágmarksgeislun." Niðurstaðan varð þó sú að nauðsynlegt væri að hafa á takteinum íslenskt orð fyrir hvert af þessum þremur ensku orðum. Einnig kom það snemma fram í umræðunni að forðast bæri að nota danskættuðu orðin útsetning, útsetja og útsettur.Aðferðafræðin
Eftir á að hyggja sést að hópurinn vanrækti að velta því nægilega fyrir sér hvernig heitið exposure væri notað og enn fremur að koma sér saman um skilgreiningu á hugtakinu sem til umfjöllunar var. Íðorðaverkefni eru auðvitað misjafnlega flókin, en undirritaður hefur alltaf leitað sér trausts og halds í skipulegum vinnubrögðum þegar stórkostleg hugljómun verður ekki að bragði. Slíkt er í samræmi við hefð og verklag íðorðafræðinnar. Skoða þarf vel notkunarsvið hinna erlendu heita, sem fengist er við hverju sinni, og þau hugtök sem liggja þeim að baki. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða orð og heiti með margar merkingar. Við þessa skoðun er æskilegt að vera smásmugulegur og krefjast nákvæmra skilgreininga eða lýsinga. Lýsing segir til um hvaða fyrirbæri ákveðið heiti á að tákna, en skilgreining leitast við að afmarka það vel frá öðrum fyrirbærum. Sem einfalt dæmi má nefna að fullnægjandi lýsing á ásgörn (jejunum) geti verið á þennan hátt: "Slöngulaga líffæri í kviðarholi sem tengir saman skeifugörn (duodenum) og dausgörn (ileum)." Skilgreining þyrfti hins vegar að tiltaka að ásgörnin væri efri hluti svonefndra smáþarma í meltingarveginum, og einnig að tilgreina hvernig hún afmarkaðist frá skeifugörn að ofanverðu og dausgörn að neðanverðu.Leita þarf einnig uppi dæmi um notkun heitisins í nýlegum textum. Þar geta komið fram mismunandi merkingar og blæbrigði í notkun, sem ekki er hægt að finna í formlegum lýsingum og skilgreiningum. Enn fremur er ekki sjaldgæft að notkun fræðiheita breytist með aukinni þekkingu á fyrirbærunum. Benda má loks á að notkun og merking íðorða, sem tilheyra fleiri en einu þekkingarsviði, getur þróast á sinn hátt á hverju þeirra.
Merkingar
Að þessu sögðu er tímabært að koma sér að verki. Í enskum orðabókum kemur fram að nafnorðið exposure er almennt heiti og getur átt við um ástand, stöðu, athöfn, verknað, tilvik og hlutrænt fyrirbæri, eins og dæmin sýna. Hin mikla orðabók Websters tilgreinir að exposure sé notað um 1. að setja e-ð fram, 2. uppljóstrun e-s, t.d. einka- eða leyndarmáls, 3. að afhjúpa e-ð, t.d. svikara, glæp, svik, 4. að setja e-ð fram til birtingar, sérstaklega opinberlega, 5. að bera eða berskjalda fyrir verkan eða áhrifum e-s, 6. (í ljósmyndun) a. að lýsa filmu, láta filmu verða fyrir ljósgeislum, b. svæði á filmu sem orðið hefur fyrir ljósgeislum, 7. að setja út án skýlis eða skjóls, s.s. að bera út barn, 8. að vera berskjaldaður, 9. að snúa eða vera staðsettur m.t.t. sólarljóss eða veðurs, 10. e-ð sem er sýnilegt, sést eða er óvarið augum annarra. Framhald í næsta blaði.