12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Lífeyrir - tryggingar - bankaviðskipti. Birna Jónsdóttir

2004-10-frontÞað hringdi til mín sölumaður frá KB banka og bauð mér óskilyrta ráðgjöf í tryggingamálum. Af því að ég er svo forvitin stóðst ég ekki mátið og fór í viðtal.

Hann var ansi nærgöngull um viðkvæmustu mál fjölskyldunnar fannst mér en lofaði fullum trúnaði. Mér datt í hug að ef til vill liði sjúklingum oft svipað þegar við erum að yfirheyra þá. Viðtalið var í sama tilgangi og fyrirbyggjandi læknisfræði, byrgja brunninn et cetera.

Að mörgu leyti var ég dæmigerður viðskiptavinur sagði maðurinn, val mitt á bankastofnun byggir ekki síst á tilfinningalegum ástæðum. Ég hef haft minn launareikning í SPRON því þar fékk ég í gamla daga víxil til að redda mér fram að námsláni eftir að bankastjóri ríkisbanka hafði neitað mér. Það sem var skemmtilegt og sjaldgæft við mig var hins vegar að ég er alveg óvanalega vel tryggð. Hvernig skyldi nú standa á því? Jú ég gaf mér það í fertugsafmælisgjöf að hætta að vinna sextug. Hugmyndina fékk ég nú ekki hjálparlaust heldur vaknaði þessi vissa innra með mér við læknaborðið í matsalnum á þáverandi BSP í Fossvogi þegar mér miklu eldri og reyndari kollegar komu stynjandi í mat og létu sig dreyma um starfslok um sextugt. Þegar ég í fávisku minni spurði af hverju þeir hættu ekki bara að vinna var litið á mig með fyrirlitningarsvip og sagt: "Það er ekki hægt að fá útúr lífeyrissjóðnum fyrr en maður er 67."

Undanfarna áratugi hefur mikið breyst hjá peningastofnunum, þær eru farnar að ganga á eftir fólki bjóðandi peninga hægri vinstri með lágmarksvöxtum og við getum keypt okkur aukalífeyri! En Eva var ekki lengi í Paradís. Blikur á lofti með lífeyrissjóðinn eða hvað? Viðræður eru í gangi milli Lífeyrissjóðs lækna (LL) og Almenna lífeyrissjóðsins hjá Íslands­banka um sameiningu þessara tveggja sjóða. Þessar viðræður eru að undirlagi stjórnar LL og ugglaust bráðnauðsynlegt að fylgjast grannt með þróun mála á lífeyrismarkaðnum. Þessar breytingar á LL snerta menn misjafnlega. Og fyrst og fremst maka lækna. Reyndar skilst mér að samkvæmt ævilíkareglunni sem segir að konur lifi lengur en karlar sé betra fyrir kvenkynslækna að af sameiningu verði. Allir félagsmenn ættu að fara yfir sín persónulegu mál og stöðu hjá LL og reikna út sig og sína fjölskyldu. Fyrir þá sem eru nettengdir er þetta einfalt til dæmis gegnum heimasíðu Læknafélagsins. Einnig er hægt að lesa yfirlitin sem eru send á vordögum. Ákvörðun um sameiningu verður ekki tekin nema á aðalfundi LL og ég hef njósnað hjá stjórn LL að fyrirhugað sé að setja reiknivél á netið þar sem menn geta skoðað stöðu sína í sameinaða sjóðnum ef af verður áður en til framkvæmda kemur. Hugmyndir hafa verið uppi um yfirgangslausn varðandi makalífeyri sem er sennilega viðkvæmasti hluti væntanlegra breytinga. Lokaniðurstaða er engu að síður að hver er sjálfum sér næstur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica