12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Á stjórnarfundi hjá evrópsku læknasamtökunum í nóvember sl. var fjallað um endurskoðun á vinnutímatilskipun í Evrópu en eins og læknar vita snertir hún okkur verulega. Læknar hafa reynt að hafa áhrif á gang mála og unglæknar látið sérstaklega í sér heyra. Evrópusamtök lækna mörkuðu ákveðna stefnu í marz 2004 en málinu er greinilega ekki lokið. Brezkir læknar eru til dæmis ekki alls kostar sáttir, a.m.k. hafa sérfræðingar á sjúkrahúsum lýst sig andvíga undanþáguklausu þeirri sem kölluð er "opt out". Sama sinnis virðast þýzkir spítalalæknar og munu almennir sérfræðingar á sjúkrahúsum í Þýzkalandi vera um 60% læknahópsins þar.

Undanþáguákvæðið "opt out" á við um hvíldartíma meðan á vakt stendur, það er að segja hve langur tími vaktar teljist vera raunveruleg vakt og hve langur hvíld. Eldri læknar/yfirlæknar munu vera undanþegnir hvort sem er þar sem þeir ráða sínum tíma meira eða taka ekki vaktir. Sett var fram sú spurning hvort þeir sem skrifuðu tilskipunina viti yfirleitt nokkuð hvað þeir voru að gera? Hvort 5 mín. hvíld milli sjúklinga meðan læknir er á vakt eigi að draga frá vinnutímanum? Eða þá ef hann skyldi hafa hlé í hálftíma?

Þá komu fram þau sjónarmið á fundinum að 8 tíma svefn á spítala væri alls ekki það sama og að sofa heima. Þegar vitnað er til annarra stétta sem taka vaktir, svo sem slökkviliðsmanna og hjúkrunarstétta, þá gildir annað um það fólk því læknar eru oftast með dagvinnutíma plús vaktir en hinir með vinnutíma á vöktum. Sjá CPME Info 2004/179: 5. Reynt hefur verið að setja inn í tilskipunina að 72 tímar megi líða þar til læknir fær hvíld eft­ir vakt. Spítalinn eigi að geta seinkað vaktafríi um þrjá sólarhringa ef þannig stendur á. Þessu er harðlega mótmælt og menn telja eðlilegt og nauðsynlegt að fá hvíldartíma strax eftir að vakt lýkur. Menn voru nokkuð tvístígandi í því hver niðurstaðan ætti að vera. Stefna CPME er skýr, en í henni kemur samt ekki allt fram, m.a. ekki þetta með 72 tímana. Í sumum löndum eða á sumum stöðum hefur verið samið milli lækna og yfirvalda um undanþáguklausuna "opt out". Sé svo þá eru þessir þrír dagar ekkert vandamál og ekki þörf á tilskipun frá Evrópu um þá. Á móti kemur að sameiginleg Evrópustefna gæti þýtt betri stöðu til að semja um hlutina heima fyrir. Niðurstaða á stjórnarfundi CPME var eftirfarandi: CPME stefnan skal standa en við þarf að bæta klausu um 72 tímana. Tillagan sem samþykkt var hljóðar svo: Hvað læknastéttina varðar þarf að vera hægt að taka vaktafrí strax að vakt lokinni, nema aðilar hafi sameiginlega komizt að öðru samkomulagi (e. As far as the medical profession is concerned, compensatory rest needs to be taken immediately after the work period unless otherwise decided by collective agreement).

Katrín FjeldstedÞetta vefsvæði byggir á Eplica