12. tbl. 90. árg. 2004
Umræða og fréttir
Frá fulltrúa LÍ í fastanefnd evrópskra lækna
Fastanefnd evrópskra lækna, CPME, var stofnuð í Amsterdam 1959 og hefur haft aðsetur í Brüssel síðan 1992. Fundir fjögurra vinnuhópa og stjórnar eru haldnir í Brüssel vor og haust og í nóvember ár hvert er aðalfundur. Núverandi forseti er Svíinn Bernard Grewin og framkvæmdastjóri Lisette Tiddens-Engwirda.
Kalla má CPME sameiningartákn fyrir helztu evrópsku læknasamtökin enda rúmast innan þeirra um tvær milljónir lækna í Evrópu. Undirrituð hefur verið fulltrúi Íslands hjá CPME síðastliðin fimm ár og er nú skoðunarmaður reikninga. Læknafélag Íslands fær öll gögn frá CPME í hendur og heldur þeim til haga. Ég hef skrifað skýrslur um flesta fundi sem ég hef sótt og birt það efni sem ég hef talið sérlega áhugavert sem greinar í Læknablaðinu. Tvær birtust á síðasta vetri, önnur í desember 2003 og hin í apríl 2004. Báðar fjölluðu um efni sem íslenzka lækna varðar um. Annars vegar var sagt frá meðferðaráætlun fyrir lækna með geðsjúkdóma og/eða fíkilshegðun en hin greinin var um samstarf lækna og lyfjafyrirtækja (sjá Læknablaðið 2003; 89: 974-5 og 2004; 90: 427).
Haustfundur CPME var haldinn í Brüssel dagana 10. og 11. september. Fundinn sótti undirrituð ásamt varaformanni LÍ, Jóni G. Snædal. Þar sem við vorum tvö gátum við sótt fundi í öllum fjórum nefndunum, en í fyrra var ákveðið að halda fundi þeirra samhliða, tvo og tvo, í sparnaðarskyni. CPME kemur málum aðildarfélaganna á framfæri hjá viðeigandi yfirvöldum í Brüssel, með formlegum og óformlegum hætti, eða því sem kallað er lobbyismi. Fylgzt er af fremsta megni með því starfi sem fram fer á vegum ESB, svo sem vinnu að lagasetningu og reglugerðum sem fjalla um heilbrigðismál og öðru því sem læknar telja sér vera viðkomandi. Starf CPME er því mikilvægt til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda og þar með heilbrigðisyfirvalda í aðildarlöndum ESB og vert er að minna á að flestar ákvarðanir sem teknar eru þar skila sér inn í íslenzk lög og reglugerðir vegna aðildar Íslands að EES samkomulaginu. Þá er CPME að sjálfsögðu einnig í ráðgjafahlutverki fyrir hlutaðeigandi stofnanir á vegum ESB.
Flest alþjóðleg samtök lækna eiga í nokkrum fjárhagserfiðleikum og reyna eftir fremsta megni að skera niður kostnað, samnýta húsnæði, draga úr pappírsflóði, túlkaþjónustu á fundum og þýðingum svo eitthvað sé nefnt. Kostnaðargreining í bókhaldi CPME hefur aukizt mjög síðustu eitt til tvö ár og miðar að því að gera þetta sýnilegt og má segja að bókhaldið sé að verða vel gegnsætt.
Fram hafa komið frekari sparnaðartillögur, svo sem að þau lönd sem þurfa að láta þýða öll skjöl af ensku á móðurmál sitt og túlka jafnharðan það sem sagt er á fundum beri sjálf kostnað sem af því hlýzt. Það er hagstætt fyrir norrænu læknafélögin því allir í sendinefndum þeirra láta sér nægja ensku. Skoðunarmaður reikinga hefur unnið að þessum sparnaðartillögum og breytingum á bókhaldi með gjaldkeranum sem er Daniel Mart frá Lúxemborg.