10. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Þegar þekkingin endar ofan í skúffu

- Vísindaheimurinn hefur áhyggjur af því þegar neikvæðar niðurstöður rannsókna eru ekki birtar

Yfirlýsingin sem birt er hér í opnunni á sér rætur í áhyggjum manna af því að vísindamenn birti ekki niðurstöður rannsókna sem kalla má neikvæðar. Þá er átt við að tiltekin tilraun með nýja meðferð, nýtt lyf eða annað leiði í ljós að nýja meðferðin skilar lakari árangri en sú sem almennt er notuð. Það er í sjálfu sér þekking sem getur verið mjög mikilvæg að viss aðferð dugi ekki. Þá þarf til dæmis ekki að prófa það aftur. Séu niðurstöður slíkra rannsókna ekki birtar er hætta á að menn eyði dýrmætum tíma og fjármagni í að endurtaka þær.

Þeir sem best fylgjast með í vísindaheiminum halda því fram að rannsóknum sem enda í skúffunni án birtingar niðurstaðna fari fjölgandi. Í Ugeskrift for læger, tímariti danska læknafélagsins, er nýlega vitnað í lækninn og vísindamanninn Ásbjörn Hróbjartsson sem starfar hjá Coch­rane stofnuninni í Kaupmannahöfn sem heldur því fram að þessi vandi sé í raun mun stærri en flestir geri sér grein fyrir. Um þetta sé þó erfitt að fullyrða því enginn viti hversu miklu sé stungið undir stól og aldrei birt.

Hann segir að tvennt sé til í dæminu þegar ákveðið er að birta ekki nei­kvæðar rannsóknarniðurstöður. Í sumum tilvikum séu heilu rannsóknirnar blásnar af og ekkert birt þegar í ljós kemur að rannsóknartilgátan stenst ekki. Í öðrum tilvikum birti menn ekki nema hluta niðurstaðna en haldi þeim sem ekki henta leyndum.

Ásbjörn hefur ásamt fleirum birt grein í JAMA, blaði bandarísku lækna­samtakanna, þar sem fram kemur að algengt sé að vísindamenn breyti stefnu rannsókna þegar í ljós koma neikvæðar niðurstöður. Greinarhöfundar skoðuðu 122 rannsóknir og komust að því að í 60% tilvika hafði verið vikið frá upphaflegri rann­sóknaráætlun án þess að um það væri getið þegar niðurstöður birtust. Einnig kom í ljós að í helmingi rannsóknanna var virkni meðferðar lýst á ófullnægjandi hátt og það sama gilti um 65% aukaverkana.

  "Þetta eru ákaflega óvönduð vinnubrögð sem sýna að ýmist er um að ræða meðvitaðar blekkingar eða þá að viðkomandi rannsakendur vita ekki hvað felst í því að semja rannsóknaráætlun. Svo getur verið að þeir kunni hreinlega ekki til verka í vísindastarfi. Hver sem skýringin er þá er þetta óviðunandi ástand," segir hann.

Eins og fram kemur í yfirlýsingu ICMJE (sem oft er nefnd Vancouver-hópurinn) ætla tímaritin sem full­trúa eiga í hópnum ekki að birta niðurstöður rannsókna í framtíðinni nema þær verði skráðar í viðurkennda gagnagrunna. Í yfirlýsingunni er nefnd bandarísk rannsóknaskrá sem hópurinn kveðst treysta en auk þess nefnir Ugeskrift for læger gagnagrunn sem starfræktur er á vegum Lyfjastofnunar Evrópu og nefnist EUDRACT en þar eru allar lyfjarannsóknir í álfunni skráðar.

Það kemur einnig fram í danska læknablaðinu að vænta megi reglna frá Evrópusambandinu um að vís­inda­mönnum sé skylt að birta allar niðurstöður rannsókna sinna. Nú gild­ir sú regla um þær rannsóknir sem ESB styrkir að styrknjótendur skili inn skýrslu um rannsóknirnar en þar er engin kvöð um að allar nið­urstöður séu birtar. Hins vegar er það opinber stefna ESB að öll þekking sem verði til í rannsóknum skuli gerð opinber. -ÞH



Þetta vefsvæði byggir á Eplica