10. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Þurfum að fá samanburð við það besta

Kristinn Tómasson tók þátt ásamt fleirum í að kanna heilsufar og starfsumhverfi lækna á Landspítala í fyrra og telur brýnt að þátttaka í HOUPE-rannsókninni verði góð

Eins og við greindum frá í síðasta tölublaði Læknablaðsins mega allir íslenskir læknar sem búsettir eru hér á landi og hafa gilt lækningaleyfi eiga von á að fá sent í pósti boð um þátttöku í rannsókn á heilsu og starfsumhverfi lækna. Þetta er liður í fjögurra landa rannsókn sem nefnd er HOUPE þar sem skoðaðir verða ýmsir þættir í umgjörð læknisstarfsins og áhrif þeirra á heilsufar lækna. Brýnt er að sem flestir taki þátt í rannsókninni svo hún gefi sem besta mynd af því sem ætlunin er að kanna.

Kristinn TómassonÞetta er ekki í fyrsta sinn sem gerð er könnun á heilsufari og starfsumhverfi lækna þótt engin fyrri rannsókn hafi verið eins viðamikil og þessi. Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlits ríkisins gerði ásamt samstarfsfólki sínu í fyrra rannsókn á nokkr­um þáttum í vinnuumhverfi lækna á Landspítala að beiðni og í samstarfi við læknaráð sjúkrahússins. Helstu niðurstöður hennar voru kynntar í skýrslu sem skilað var í nóvember í fyrra og var greint stuttlega frá þeim hér í blaðinu á sínum tíma. Skýrslan liggur einnig fyrir á heimasíðum Vinnueftirlitsins og Læknafélags Íslands og Kristinn hefur kynnt hana á fundum með læknum og yfirstjórn spítalans.

Læknablaðinu lék hins vegar forvitni á að fá túlkun Kristins á niðurstöðum rannsóknar hans og hvers vegna hann telur nauðsynlegt að láta ekki staðar numið í því að fylgjast með heilsufari og starfsumhverfi íslenskra lækna. Hvað var það sem honum þótti athyglisverðast í niðurstöðum rannsóknarinnar á Landspítala?

Væntingarnar rætast, en ...

"Það er dálítið erfitt að svara því vegna þess að það vantar allar viðmiðanir. Vissulega hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir á vinnuumhverfi stórra stétta áður, bankamanna, fiskvinnslufólks og fleiri stétta, en læknastéttin hefur talsverða sérstöðu, auk þess sem Landspítalinn á sér engar hliðstæður hér á landi. Þess vegna er könnunin sem nú er að hefjast mjög nauðsyn­leg svo hægt verði að túlka niðurstöður rannsóknarinnar frá í fyrra og draga ályktanir um gæði vinnuumhverfis á spítalanum.

Það sem mér fannst athyglisverðast og ánægjulegast við niðurstöðurnar er að þrátt fyrir talsvert umrót á sjúkrahúsinu og óánægju með yfirstjórnina meðal lækna þá er álit þeirra á samstarfsfólki sínu í öðrum stéttum heilbrigðisfólks afar mikið. Það segir manni að það séu allar forsendur fyrir því að byggja upp jákvætt starfsumhverfi þegar fram líða stundir.

Vissulega var líka margt neikvætt í niðurstöðunum og þar fannst mér alvarlegast hversu útbreidd sú tilfinning er meðal lækna að þeir hafi lítil áhrif á ákvarðanatöku og stjórnun. Læknar bera ábyrgð á meðferð sjúklinga og þar með á stjórnun grunnstarfseminnar, en þeim finnst þeir hafa lítil áhrif á stjórnun sjúkrahússins."

- Það slær mann líka að þrátt fyrir óánægju með ýmislegt, vinnuálag, vinnutíma, stjórnun, bágar vinnu­aðstæður og fleira, þá segist stærstur hluti lækna vera ánægður í starfi. Þeim finnst þeir ráða vel við starfið og þeir hafa mikinn metnað.

"Já, þetta er rétt. Þrír af hverjum fjórum segja að væntingar þeirra til starfsins hafi ræst, í það minnsta hvað varðar sjúklingavinnuna. Sá veikleiki er þó að einungis fjórðungur lækna segir það sama um rannsóknir og fræðslu. Ánægja í starfi er flókið mál og á það hefur verið bent að ánægja í starfi tengist ekki endilega góðum starfsaðstæðum. Læknar á spítalanum finna sig í starfi og finnst þeir vinna gott starf.

Það er hins vegar sláandi munur á andlegri líðan lækna eftir stöðu þeirra á spítalanum. Andleg vellíð­an er betri meðal yfirlækna og stjórnenda en verri meðal aðstoðar- og deildarlækna. Þetta helst í hendur við að hjá þeim síðarnefndu er vinnuálagið mikið, vinnutíminn óreglulegur og lítið sjálfræði. Þetta er áhyggju­efni því þarna er um að ræða framtíðarvinnu­afl spítalans. Víða erlendis ber töluvert á kulnun í starfi meðal lækna, jafnvel ungra lækna. Þar hefur líka kom­ið fram að á breytingartímum verður oft mikið álag á millistjórnendur en könnunin frá í fyrra vekur upp spurningar um hvort það sé ekki einnig raunin hér."

Aðstöðuna þarf að bæta

- Þessi könnun er gerð þegar verið er að sameina deildir og færa starfsemi til, Barnaspítalinn er ekki kominn til sögunnar og þrengslin í hámarki. Yrði myndin ekki önnur ef þú gerðir svona rannsókn núna?

"Hún yrði sennilega ekki svo frábrugðin ef hún yrði gerð núna en ég myndi hafa áhyggjur af þróuninni ef hún yrði gerð eftir 2-4 ár og ekkert hefði breyst. Þetta sameiningar- og umbreytingaskeið hefur staðið lengi og starfsemin hefur ekki náð stöðugleika. Enn skortir mikið á að starfsaðstaða sé orðin góð, það er enn verið skoða fólk á göngunum sums staðar jafnvel meir en áður og aðstaða og búnaður hefur ekki endurnýjast sem skyldi í ferlinu. Það er hlutverk lækna að setja fram kröfur um að starfsaðstæður þeirra verði bættar því að sjálfsögðu bitnar þessi aðstaða á sjúklingunum.

Þar getur rannsóknin sem nú er að hefjast komið að góðu gagni. Í henni erum við að bera okkur saman við lönd eins og Noreg og Svíþjóð þar sem ástandið er með því besta sem þekkist í heiminum og samfélagið um margt líkt okkar eigin. Þetta er sá samanburður sem við eigum að gera.

Í fyrra í skýrslu ríkisendurskoðunar var verið að bera starfsemi Landspítala saman við það sem gerist á breskum sjúkrahúsum en það er ekki endilega sá samanburður sem við viljum fá. Gæði þeirrar þjónustu eru ekki á því stigi að við myndum una því hér á landi, þó fræðimennska sé í mörgum tilfellum mikil. Í því sambandi dettur mér oft í hug að þegar hjartaskurðlækningar voru færðar inn í landið á sínum tíma var meginmarkmiðið að bæta þjónustuna. Menn voru ekki ánægðir með þá þjónustu sem sjúklingum var veitt í Bretlandi, þar á meðal vegna hárrar sýkingartíðni, og það tókst að bæta hana hér. Við verjum miklu fé til sjúkrahússrekstrar og viljum fá það besta út úr því fé.

Í því samhengi er rannsóknin sem fyrir dyrum stendur mikilvæg. Hún veitir okkur tækifæri til að rannsaka ástandið og í framhaldi af því setja fram tillögur til úrbóta."

Einangrun og vinnuálag

- Nú er ætlunin að rannsaka einnig líðan og starfsumhverfi heilsugæslulækna. Hefur það verið gert áður?

"Það var gerð könnun á vegum Félags íslenskra heimilislækna fyrir nokkrum árum en það er full þörf á að gera nýja rannsókn. Við vitum að álag á heilsugæslulækna er öðruvísi en hjá öðrum hópum lækna. Þeir eru oft einir að störfum og vantar það öfluga stuðningsnet sem sjúkrahúsið býður upp á. Spurningin er hvaða áhrif þetta hefur og þess vegna er rannsóknin spennandi fyrir lækna og áhugamenn um vinnu­vernd.

Við vitum einnig að það hefur oft reynst erfitt að manna stöður í heilsugæslunni, ekki síst á landsbyggðinni. Vinnuálagið hefur verið nefnt sem hugsanleg skýring á því. Í því sambandi er vert að hafa í huga að vinnuálag þarf ekki endilega að fylgja löngum vinnutíma. Þegar menn eru öruggir í starfi og vita að þeir hafa stuðning ef eitthvað fer úrskeiðis þá geta þeir þolað meiri vinnu. Hjá þeim sem eru einir í héraði er vinnan ekki endilega of mikil dags daglega en tilhugsunin um að vera einn getur verið þrúgandi. Menn spyrja sig hvenær faraldurinn eða stórslysið verði í þeirra héraði og þessi ótti getur valdið miklu og langvarandi álagi."

- En hvers vegna þarf að rannsaka heilsu lækna, eru þeir ekki fullfærir um að sinna henni?

"Það er alþjóðlegt einkenni á læknastéttinni að henni hættir til að sinna ekki eigin heilsufari. Menn eiga erfitt með að setjast niður með kollegunum formlega á læknastofu til að ræða veikindi sín. Þess vegna mæta þeir oft veikir í vinnu, einkum þar sem þeir eru einir að störfum eða einir í viðkomandi grein. Þeir reyna að leysa málin með gangalækningum eða fletta upp í fræðibókum til að lækna sjálfa sig. Erlendis hefur verið rætt um að koma upp sérstökum móttökum fyrir heilbrigðisstarfsfólk og kannski erum við orðin nógu mörg hér á landi til þess að þörf sé á slíku."

Kristinn vildi í lokin hvetja alla lækna til að taka þátt í rannsókninni því hún væri mikilvægt tæki til að skoða hvernig staða íslenskra lækna og heilbrigðisstofnana er í samanburði við það sem best er í öðrum löndum. Hana mætti svo nota sem tæki til en knýja á um breytingar og endurbætur læknum og sjúklingum þeirra til hagsbóta.Þetta vefsvæði byggir á Eplica