10. tbl. 90. árg. 2004

Broshorn 52. Nærbuxur og blæðingar

Yfirlæknirinn viðutan

Yfirlæknirinn á skurðdeildinni var kominn fast að eftirlaunaaldri og var þekktur fyrir að vera alloft annars hugar. Eftir langan dag á skurðstofunni og margar skurðaðgerðir vildi hann ræða einslega við eiginkonu eins af sjúklingunum. Svo vildi til að einmitt þennan dag var hvert einasta viðtalsherbergi og kompa á deildinni upptekin, þannig að yfirlæknirinn þurfti að fara með konuna inn á baðherbergi. Hann bað hana að setjast á eina stólinn sem var í herberginu en tyllti sér sjálfur á lokað klósettið, enda lúinn eftir daginn. Síðan útskýrði hann fyrir henni hvernig málum væri komið hjá maka hennar og svaraði svo spurningum. Að því búnu reis hann á fætur og sturtaði niður.

Öfugar nærbuxur

Heimilislæknirinn var að skoða tæplega fjögurra ára strák í ungbarnaeftirliti og tók eftir því að hann var í nærbuxunum öfugum þannig að Spiderman-myndin var framan á. "Eiga nærbuxurnar ekki að snúa hinsegin?" spurði læknirinn. "Jú, en ég sé myndina betur þegar þær snúa svona," svaraði strákurinn.

Bjarni JónassonÓreglulegar blæðingar

Kona um þrítugt kom á bráðamóttökuna og læknirinn þurfti m.a. að spyrja hvernig tíðablæðingum væri háttað hjá henni.

"Þær eru yfirleitt alltaf reglulegar, nema í febrúar þá stóðu þær bara í þrjá daga í staðinn fyrir þessa venjulegu fimm daga. Ég hafði nú engar áhyggjur af því úr því að febrúar er styttri en aðrir mánuðir."

Þvaglát um nætur

Læknirinn spurði eldri herra hvort hann þyrfti að fara fram á klósett til að pissa að næturlagi. "Nei, aldrei," svaraði maðurinn. "Ég er með kopp undir rúminu."

Brjóstaskoðun

Læknirinn var að útskýra fyrir tuttugu og eins árs gamalli konu hvernig hún ætti að bera sig að við að skoða brjóstin. "Best er að byrja klukkan tólf, fikra sig síðan áfram hringinn og athuga hvort þú finnir einhvern hnút í brjóstinu." Konan virtist ná leiðbeiningum læknisins strax en sagði síðan: "Ég vissi ekki að maður þyrfti að byrja skoðunina á ákveðnum tíma."

Sett upp nál

Svæfingalæknirinn þurfti að setja upp nál hjá mjög hávöxnum sautján ára strák sem var mjög tauga­óstyrkur enda mjög hræddur við nálar. Læknirinn reyndi að beina athygli stráksins frá því sem gera þurfti og sagði: "Þú ert nokkuð hávaxinn, spilar þú kannski körfubolta?" Strákurinn horfði niður til læknisins sem var ekki stærsti maðurinn á spítalanum og svaraði: "Nei, en ert þú eitthvað í minigolfi?"

Ofsjónir

Læknanemi á 5. ári var að taka sjúkrasögu hjá gamalli konu sem lýsti því að hún hefði séð ofsjónir eitt kvöldið. "Hvað sástu?" spurði læknaneminn. "Æ, ég get eiginlega ekki sagt frá því, góða mín, af því að ég var ekki með gleraugun á mér."

Spurt um þvagleka

Fátt finnst sumum konum minna spennandi en að fara í móðurlífsskoðun. Kvensjúkdómalæknir nokkur reyndi að gera sitt til að gera kringumstæðurnar á stofunni hjá sér eins manneskjulegar og afslappandi eins og hægt var. Hann gerði sér far um að ræða ítarlega við konurnar og taldi talandann í sér hafa róandi áhrif á þær. Ef konan var í yngri kantinum spurði hann gjarnan hvort hún missti þvag við að hósta eða hnerra. Ein þeirra sem var mjög stressuð og kvíðin að sjá spurði á móti: "Ertu að segja að maður geti í raun og veru hóstað upp þvagi?"

Í líffærafræðitíma

Prófessorinn í líffærafræði var vanur að taka lækna­nemana upp að töflu og spyrja þá út úr. Nemendurnir voru almennt vel með á nótunum en svo komu dagar þegar engu var líkara en kunnátta þeirra væri minni en hjá manninum á götunni með fullri virðingu fyrir honum. Einn slíkan dag missti prófessorinn þolinmæðina, tók upp krukku þar sem leg var baðað í formalíni og spurði einn drenginn: "Hvaða líffæri er þetta?"

"Ég er ekki viss," svaraði læknaneminn og virkaði mjög taugaóstyrkur. Prófessorinn reyndi að koma nemandanum á sporið og sagði: "Hvorugur okkar er með svona í sér."

"Nú já," sagði læknaneminn, "þetta er þá heili."

bjarni.jonasson@hg.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica