Umræða og fréttir
  • Mynd 1

Eru stjórnmálamenn hræddir við heilbrigðismál?

Undanfarin fimm ár og gott betur hef ég haft þann aðalstarfa að fylgjast með umræðu um heilbrigðismál. Satt að segja hefur mér oft blöskrað á hvaða plani hún er en sjaldan þó eins og nú fyrir jólin. Afgreiðsla þingmanna á fjárlögum varð til þess að ég stóðst ekki mátið lengur. Þar á ég ekki við öryrkjamálið heldur þá ákvörðun þingmanna að skilja eftir gat upp á hálfan annan milljarð í rekstri Landspítalans á næsta ári.

Ég heyrði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur halda því fram ekki alls fyrir löngu að í kosningabaráttunni á liðnu vori hefðu allir frambjóðendur óháð flokki verið jafnfegnir því hversu lítið var rætt um heilbrigðismál. Ástæða feginleikans var sú að enginn þeirra treysti sér í raun og veru til að fjalla um heilbrigðismál af nokkru viti, stærð málaflokksins og flóknir innviðir heilbrigðiskerfisins yxu þeim svo í augum að þeir yrðu málstola.

Þessi orð varaformanns Samfylkingarinnar hafa setið í mér síðan og bergmálið af þeim orðið æ háværara eftir því sem á fjárlagaumræðuma leið. Það má kannski segja að þau hafi orðið óbærilega hávær um það leyti sem Hjálmar Árnason lauk máli sínu við lokaumræðuna. Þar freistaði hann þess að hala sér inn nokkur aukastig með því að kenna spilltum læknum um stóraukinn þátt lyfjakostnaðar í rekstri heilbrigðiskerfisins. Þessi plata er orðin heldur slitin því þótt eflaust sé töluvert um það að læknar þiggi boð lyfsala þá hefur verið gerð að því gangskör að setja reglur um samskipti þessara aðila og umræður þeirra á milli verið líflegar þótt þær hafi ekki náð eyrum Hjálmars.Gatið á Landspítalanum

En það var Landspítalagatið sem gerði útslagið. Hræsnin og ábyrgðarleysið risu hæst þegar það var skilið eftir óbrúað. Hvernig skyldu þeir ágætu þingmenn sem greiddu því atkvæði sjá fyrir sér framhald málsins? Halda þeir í alvöru að á sama tíma og spítalinn stendur í ströngu við að ljúka sameiningunni þá geti hann bara hagrætt sisvona í rekstrinum sem nemur hálfum öðrum milljarði? Það getur verið að einhverjir trúi því, rétt eins og þeir gerðu sem ákváðu að sameining spítalans væri svo arðbær að ekki þyrfti að leggja krónu til hennar. Þeir hinir sömu sjá þá væntanlega ekki heldur neitt samhengi á milli þeirrar ákvörðunar og þeirrar staðreyndar að hallarekstur spítalans hefur verið nokkuð stöðugur allt frá því ákvörðunin var tekin.

Fólki sem ekki sér samhengið í málinu er náttúrulega ekki viðbjargandi en hvað voru menn í raun og veru að greiða atkvæði um þegar gatið var skilið eftir? Búast þeir við því að heilbrigðisstarfsfólk bjóðist til að lækka í launum til þess að spítalinn nái endum saman? Þessi spurning er eðlileg í ljósi þess að um 70 af hundraði rekstrargjalda spítalans munu vera laun.

Hvaða kosti aðra hefur spítalinn í stöðunni en að lækka laun? Jú, hann getur kannski náð einhverri hagræðingu umfram það sem gert hefur verið á síðustu árum þótt víðast hvar sé búið að skera inn að beini, en það mun engan veginn nægja til að brúa bilið. Þá er ekki annað í stöðunni en að loka deildum, fækka starfsfólki og leggja niður þjónustu við almenning. Var það ætlun þeirra þingmanna sem greiddu fjárlögunum atkvæði? Voru þeir með atkvæði sínu að taka ákvörðun um að loka tæknifrjóvgunardeildinni? Voru þeir á meðvitaðan hátt að ákveða að draga úr þjónustu við geðsjúka? Ætluðu þeir í raun og veru að segja upp 200 manns eða jafnvel fleirum með því að skilja gatið eftir? Eða héldu þeir kannski að fólk hætti að veikjast ef svo væri mælt fyrir í fjárlögum?Hver tekur ákvarðanir?

Að sjálfsögðu munu þeir allir svara þessum spurningum neitandi, það var ekki meiningin að vera vondur við sjúklinga eða starfsmenn spítalans. En hver er þá tilgangurinn með því að samþykkja þessi fjárlög? Var það gert til þess að geta leikið jólasvein síðar meir eins og ávallt hefur gerst þegar spítalinn bregst við þverrandi fjárframlögum? Ætlar Jón Kristjánsson (eða hver sem kann að verða heilbrigðisráðherra næsta haust) að slá sig til riddara með því að bjarga tæknifrjóvguninni fyrir horn í þriðja eða fjórða sinn?

Ég held að þessi ákvörðun sé sama marki brennd og stór hluti afskipta stjórnmálamanna af heilbrigðismálum undanfarin ár. Menn gefast upp fyrir því að setja sig inn í málin, stinga hausnum í sandinn og vona að allt reddist einhvern veginn, að einhver annar taki þennan beiska kaleik frá þeim. Fyrir því er raunar alllöng hefð hér á landi.

Í viðtali sem ég átti við Þorvald Ingvarsson lækningaforstjóra á Akureyri hér í blaðinu í vor sagði hann sögu af Gulu skýrslunni sem svo var nefnd en hún var afrakstur nefndarstarfs undir forystu Guðjóns Magnússonar þáverandi aðstoðarlandlæknis og fjallaði um framtíðarskipan sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Þegar skýrslan birtist einhvern tíma á níunda áratugnum vöktu tillögur nefndarinnar athygli því þær fólu í sér verulegar tilfærslur á heilbrigðisþjónustu, það átti að loka skurðstofum hér, hætta að taka á móti börnum þar og svo framvegis. Stjórnmálamenn þess tíma jesúsuðu sig og fleygðu skýrslunni út í horn. Þetta skyldi aldrei verða.

En hver er svo staðan nú, um það bil fimmtán árum síðar? Jú, það er búið að framkvæma flest það sem skýrslan vonda lagði til. Það hafa bara ekki verið teknar neinar pólitískar ákvarðanir um breytingarnar. Ákvarðanirnar hafa oftast verið í höndum lækna og stjórnenda spítalanna en hlotið formlega blessun stjórnvalda eftir á.

Er ekki það sama uppi á teningnum núna? Eru stjórnmálamenn ekki einfaldlega að varpa ábyrgðinni á niðurskurðinum yfir á annarra herðar, lækna, stjórnenda og annarra starfsmanna spítalans? Svari nú hver fyrir sig.Standa vörð um hvað?

Á landsfundi Samfylkingarinnar í haust varpaði formaður flokksins, Össur Skarphéðinsson, því fram að tími væri kominn til að flokkurinn mótaði sér nýja stefnu í heilbrigðismálum. Greinilegt var að hann vildi rífa flokkinn upp úr þeim skotgröfum sem hann hefur setið fastur í frá því Sighvatur Björgvinsson varð að hopa með hugmyndir sínar um tilvísanakerfið. Meðal þess sem Össur nefndi í ræðu sinni var að einkarekstur gæti átt rétt á sér í heilbrigðiskerfinu, svo fremi ríkið væri ávallt kaupandi þjónustunnar. Það þyrfti hins vegar ekki endilega að vera seljandi hennar í öllum tilvikum.

Þetta kom mörgum á óvart, jafnvel í Samfylkingunni. Það var líka fróðlegt en ekki að sama skapi skemmtilegt að fylgjast með viðbrögðum við ræðu Össurar. Í stuttu máli sagt upphófst sandkassaleikur stjórnmálamanna sem allir voru á harðahlaupum frá því að ræða kjarna málsins.

Sjálfstæðismenn sögðu það vissulega fagnaðarefni að Össur hefði séð ljósið og tekið upp stefnu þeirra. Það kom reyndar ýmsum á óvart því stefna Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum hefur af einhverjum ástæðum ekki farið hátt þau rúmlega þrjú kjörtímabil sem flokkurinn hefur verið við völd. Flokkurinn hefur gætt þess afar vandlega að þegja þunnu hljóði um þennan málaflokk og láta samstarfsflokka sína eina um hann, fyrst Alþýðuflokkinn og síðan Framsókn. Það örlaði heldur ekki á neinum áhuga á því að ræða hugmyndir Össurar í alvöru, skætingurinn virtist alveg nægja flokksmönnum.

Sama máli gegndi um Framsóknarflokkinn. Jón Kristjánsson vísaði hugmyndum Össurar á bug með þeim orðum að þær væru bara eins og hver önnur kanína sem töframenn kipptu upp úr hatti sínum. Sá frasi hefur síðan endurómað í allri umfjöllun flokkssystkina hans.

Frjálslyndir blönduðu sér ekki í þessar umræður með áberandi hætti en Vinstrigrænir töldu hugmyndir Össurar bera þess glöggan vott að Samfylkingin væri á hraðri leið til hægri. Þeir ætluðu hins vegar að halda sínu striki og standa vörð um velferðarkerfið. Engin skýring fylgdi á því hvernig sú varðstaða ætti að fara fram né um hvað ætti að standa vörð.Auglýst eftir stefnu

Það er nefnilega alls ekki ljóst hvað stjórnmálamenn eiga við þegar þeir tala um heilbrigðiskerfið. Þetta kerfi hefur verið í örri þróun þótt stefnuna vanti æði oft. Hvað svo sem líður yfirlýsingum Framsóknarflokksins, Vinstrigrænna og annarra þá hefur einkarekstur vaxið hröðum skrefum í kerfinu. Er það sú þróun sem þeir vilja standa vörð um?

Sá flokkur sem mesta ábyrgð ber á heilbrigðismálum er að sjálfsögðu Framsóknarflokkurinn sem hefur farið með málaflokkinn í ríkisstjórn undanfarin átta ár og hálfu betur. Á þeim tíma hefur í raun harla lítið gerst sem rekja má til frumkvæðis ráðuneytisins. Flokkurinn (les: ráðuneytið) hefur reynt að standa á bremsunni gegn öllum breytingum en látið undan þegar þrýstingurinn hefur verið orðinn óbærilegur.

Raunveruleg stefna flokksins - og þar með ríkisstjórnarinnar - vefst hins vegar fyrir mörgum. Meðal þeirra sem ekki koma auga á hana er Ríkisendurskoðun sem hefur í þrígang á rúmu ári auglýst eftir stefnu stjórnvalda á þremur mikilvægum sviðum heilbrigðismála. Sumarið 2002 birti stofnunin tvær skýrslur, annars vegar um heilsugæsluna og hins vegar um þjónustu sérfræðilækna, og í þeim báðum var kallað eftir stefnumótun stjórnarinnar hvað varðar verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. Því var beint til stjórnvalda að þau settu sér markmið, reiknuðu út hvað þau kosta og framfylgdu þeim svo en hættu að láta reka á reiðanum.

Þriðja skýrslan birtist nú í nóvember og fjallaði um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það kveður við sama tón: "Við upphaf sameiningar lá ekki fyrir nein heildarstefnumörkun fyrir hið nýja sjúkrahús ... Sú framtíðarsýn sem sjúkrahúsinu var mörkuð var of óljós til að geta verið sá leiðarvísir sem þurfti til að byggja upp svo margbrotna stofnun sem LSH er. Engin skýr eða mælanleg markmið voru sett fram um þann árangur sem ná átti fram með sameiningunni," segir á bls. 20 í skýrslu Ríkisendurskoðunar.Upp úr sandkassanum!

Væri nú ekki ráð fyrir stjórnmálamenn að láta af þessum stefnulausa sandkassaleik? Mikið væri gaman ef þeir sýndu þann kjark að horfast í augu við veruleikann í heilbrigðiskerfinu, legðu gömlu frasana til hliðar og einhentu sér í að móta alvörustefnu í heilbrigðismálum í stað þess að hnotabítast um hvað er hvurs og hvort einhver hafi drýgt þá höfuðsynd að skipta um skoðun frá því á öldinni sem leið. Þeir þyrftu að hætta að ástunda viðbragðspólitík en taka í þess stað frumkvæði og móta stefnu sem gagnast til að byggja upp og bæta kerfið sem allir eru í orði kveðnu sammála um að eigi að vera það besta í heimi.

Fyrir rúmu ári skoraði Morgunblaðið á stjórnmálaflokkana að taka höndum saman um að móta framtíðarstefnu í heilbrigðismálum. Hér skal enn tekið undir þá áskorun. Vonandi sýna stjórnmálamenn þann siðferðisþroska að rísa upp úr sandkassanum og ræða málin af heilindum og ábyrgð. Þegar til lengdar lætur hlýtur það að gagnast bæði þeim og okkur hinum betur en hinn þreytandi jólasveinaleikur sem virðist njóta mestra vinsælda við Austurvöllinn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica