Ritstjórnargreinar
  • Mynd 1

Að fá biskup í augað

Miklar umræður hafa spunnizt í kjölfar alvarlegra höfuðáverka sem hlutust í hnefaleikakeppni hérlendis í nóvember 2003, og ekki að ófyrirsynju. Það var ekki spurning um hvort slíkt myndi gerast heldur hvenær. Þrjár atlögur voru gerðar að því á alþingi á síðasta kjörtímabili að fá áhugamannahnefaleika lögleidda á Íslandi og eftir heiftarlegar sennur þar sem daufheyrzt var við öllum skynsamlegum rökum gegn málinu var það því miður samþykkt í febrúar 2002. Undirrituð sat á þingi það kjörtímabil fyrir Reykvíkinga og var eini læknirinn á þingi og talaði þrjá langa og þrjá breiða svo til höfuðáverka af þessu tagi þyrfti ekki að koma. Þrátt fyrir það var málið kýlt í gegn í þremur lotum.

Höfuðáverkar koma læknum við. Það er skylda þeirra að vara við hættulegum áverkum og reyna eftir fremsta megni að fyrirbyggja þá. Höfuðáverkar koma víða fyrir, til dæmis í íþróttum en þá yfirleitt sem slys því sjaldnast er gert ráð fyrir því í íþróttum að högg komi á höfuð. Þessu er öðruvísi varið í hnefaleikum. Högg á höfuð er hluti af leiknum og flestir boxarar segja að verði ekki leyft að slá í höfuð þá sé ekki lengur um box að ræða. Í atvinnumannahnefaleikum eru stórar fjárhæðir með í spilinu eins og öllum er ljóst. Höfuðhögg í keppni geta farið leynt ef keppandinn leitar ekki hjálpar, fer ekki til læknis, neitar einkennum eða hafnar rannsóknum af því að þá verður honum meinað að taka þátt í keppnum um hríð. Áhugamannahnefaleikar urðu til upp úr atvinnumannahnefaleikum og er nokkur munur á þessu tvennu. Flestar breytingar hafa orðið til góðs. Lotur eru styttri og færri, glófarnir öðruvísi og skylt er að bera höfuðhlífar sem þróaðar hafa verið þannig að áverkum á ytra byrði höfuðs og augu hefur fækkað til muna. Það sem ekki hefur breytzt eru líkur á heilaáverkum og afleiðingar þeirra. Högg á höfuð getur skaðað heilann varanlega af því að við högg hreyfist heilinn til inni í höfuðkúpunni og viðkvæmir vefir hans geta skaddazt hvort sem hjálmur er til staðar eða ekki. Þess vegna geta áverkar á heila orðið alvarlegir hver sem aðdragandinn er. Þuríður Jónsdóttir taugasálfræðingur ritaði grein í Morgunblaðið 15. desember sl. um nýjar rannsóknir (2003) sem sýna að heilinn starfar óeðlilega jafnvel í kjölfar þess sem telja má vægan heilaskaða.

Keppni í áhugamannahnefaleikum á að fara fram í viðurvist læknis, þótt mér sé ekki ljóst hvort eftir því sé farið hér á landi, en þar er hvort sem er um falskt öryggi að ræða, einkum hvað áverka á heila snertir. Þegar högg hefur lent á höfði hefur heilinn kannski þegar skaðazt. Þá þarf vel útbúin taugaskurðdeild að vera í fárra mínútna fjarlægð frá keppnisstað. Alþjóðasamtök lækna hafa samþykkt að beita sér fyrir banni á hnefaleikum og Evrópusamtök lækna tóku undir þá áskorun haustið 2001. Læknasamtök margra landa hafa tekið afstöðu gegn hnefaleikum og má meðal annars nefna að brezka læknafélagið hefur sýnt málinu sérstakan áhuga og eru harðorðar ályktanir þess sérlega athyglisverðar. Læknafélag Íslands hefur sömuleiðis tekið afdráttarlausa afstöðu gegn hnefaleikum. Þar til bann við boxi nær fram að ganga hefur því verið beint til Alþjóðaólympíunefndarinnar og boxsambanda um allan heim að bannað verði að slá í höfuð þegar keppt er í boxi, bannað að slá fyrir ofan viðbein. Segja má að fyrirmyndin komi frá þeirri reglu að bannað sé að slá fyrir neðan beltisstað, en hún kom án efa til vegna þess að högg undir beltisstað getur skaðað ytri kynfæri. Öllum þykir slíkt bann sjálfsagt. Hnefaleikanefnd ÍSÍ hefur ákveðið að herða reglur hérlendis vegna atviksins í nóvember en á þeirri ákvörðun eru vankantar sem Leifur Jónsson læknir fjallaði skilmerkilega um í grein í Morgunblaðinu 15. desember 2003 og þarf engu við orð hans að bæta.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að við úttekt á áverkum og slysum skuli menn telja fjölda tilvika án þess að taka tillit til þess hve margir stundi tiltekið athæfi, eða þess tíma sem keppni tekur og svo framvegis. Sé dæmið reiknað á þann hátt, eins og til dæmis brezka læknafélagið hefur gert, kemur í ljós að hnefaleikar, bæði atvinnumanna- og áhugamannahnefaleikar, eru svo til efst á blaði yfir hættulegt athæfi. Í bandarískri slysaskrá sem mikið hefur verið vitnað til lentu hnefaleikar hins vegar neðarlega, þar á meðal á eftir klappstýrum, en það eru ungar stúlkur sem þramma um til skrauts í upphafi kappleikja í amerískum fótbolta og ekki ljóst af hverju þær ættu að verða fyrir hnjaski yfirleitt, hvað þá að það geti verið sambærilegt við höfuðáverka í hnefaleikum!

Í sjónvarpinu laugardaginn 13. desember síðastliðinn gerði Spaugstofan óspart grín að þeirri fullyrðingu að slys ættu sér stað í öllum íþróttum. Þar á meðal var nefnt að skákmenn gætu slasazt ef þeir féllu fram á taflborðið, þeir gætu fengið biskupinn í augað. Mér finnst nauðsynlegt að kalla hlutina sínu rétta nafni, kalla slys slys og íþróttir íþróttir. Ég vek athygli á áliti brezka læknafélagsins sem telur box ekki vera íþrótt og undirstrika að áverkar sem hljótast af hnefaleikum geta ekki talizt slys. Ég hvet alla lækna með sómatilfinningu til að taka ekki þátt í þeim hráskinnsleik sem box er. Að lokum skora ég á ÍSÍ að taka mark á því fagfólki sem bezt þekkir til höfuðáverka og afleiðinga þeirra og róa að því öllum árum að bannað verði að slá fyrir ofan viðbein í hnefaleikum. Lokatakmarkið hlýtur þó að vera að einn góðan veðurdag heyri hnefaleikar sögunni til.Höfundur er heimilislæknir.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica