Umræða fréttir

O tempora! O mores!

Þegar ég var barn á Siglufirði rifti maður nokkur munnlegum húsaleigusamningi við föður minn með þessum orðum: "Góði maður. Veiztu ekki að það sem tveir menn hafa talað saman er sama og ósagt?" Því minnist ég þessa að um síðastliðin áramót var loks kveðinn upp dómur í Siðanefnd (ad hoc) Læknafélags Íslands í kærumáli mínu gegn Kára Stefánssyni. Þá hafði það tekið nærri þrjú ár að fá málið til lykta leitt. Læknablaðið (tbl. 4/2003) hefur birt niðurstöðu Siðanefndar sem er að Kári skuli vera sýkn af kröfum mínum í máli þessu. Í niðurstöðu Siðanefndar segir m.a: "Verður hér að vísa til þess að hin meintu ummæli eru samkvæmt kröfugerð sóknaraðila einungis rakin efnislega en ekki skýrlega tilgreint og afmarkað hver þau ummæli voru, eins og almennt er gerð krafa um, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 505/2002, sem kveðinn var upp 18. nóvember sl."

Við Kári höfum einungis einu sinni ræðzt við eftir að frumvarp til laga um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði var lagt fram skömmu fyrir páska 1998. Það var laugardagsmorguninn 11. júlí 1998, en þá hringdi Kári til mín. Hann byrjaði á að hæla mér fyrir grein sem birzt hafði þá um morguninn í Morgunblaðinu. Hún nefnist "Virðing Alþingis" og er fyrsta grein mín um Gagnagrunnsmálið (það má nálgast hana og síðari greinar á www.mannvernd.is). Því næst bað Kári mig að hitta sig. Þetta hefði orðið fyrsti einkafundur okkar Kára sem þó höfum þekkzt í rúma þrjá áratugi frá því að við vorum samstúdentar í læknadeild Háskóla Íslands. Ég afþakkaði boð hans en hvatti hann til að svara gagnrýni minni á opinberum vettvangi enda stæðu honum allir fjölmiðlar opnir. Kári gerði annað.



"Tveggja manna tal"

Þetta kærumál snýst um lygar sem Kári Stefánsson viðhafði um mig á fundi samningamanna Íslenskrar erfðagreiningar og Læknafélags Íslands 23. febrúar 2000. Þar sagði hann meðal annars að ég væri að ónáða sig með símhringingum á kvöldin og um helgar og lýsti andlegu ástandi mínu. Mér bárust fréttir af þessu og sagði fjölskyldu minni. Viðbrögð eiginkonu minnar voru þau að skrifa samstundis bréf til stjórnar Læknafélags Íslands. Þar fór hún fram á að Kára yrði gert að endurtaka ummælin í áheyrn okkar og þeirra sem á hlýddu á fundinum, draga þau til baka og biðjast afsökunar. Hver urðu viðbrögð stjórnar Læknafélags Íslands? Í fyrstu þau að skrifa eiginkonu minni og lýsa yfir að enginn efi væri meðal stjórnarinnar um frásögn hennar. Viku síðar barst henni annað bréf um að málið væri stjórninni óviðkomandi þar eð um tveggja manna tal hefði verið að ræða.

Það hlýtur að verða öllum umhugsunarefni hvernig stjórn Læknafélags Íslands gat lagzt svo lágt að bjóða eiginkonu minni upp á aðra eins framkomu. Að minnsta kosti fjórir fundarmenn hlýddu orðlausir á frásögn Kára, eins og einn fundarmanna, Jón Snædal varaformaður Læknafélags Íslands og nú formaður siðanefndar Alþjóða læknasamtakanna, skýrði mér frá. Ummælin voru auk þess ítarlega rædd á þremur fundum stjórnarmanna í Læknafélagi Íslands eins og fram kemur í síðara bréfi formanns Læknafélags Íslands, Sigurbjörns Sveinssonar, 22. mars 2000 til eiginkonu minnar. Með þessari ótrúlegu framkomu stjórnar Læknafélagsins var lagður hornsteinn að sýknu Kára.

Siðanefnd Læknafélags Íslands undir forsæti Allans V. Magnússonar héraðsdómara bætti svo um betur þegar ég afréð að kæra Kára fyrir nefndinni í júní 2000. Eftir rúmlega tíu (sic!) mánaða yfirlegu ákvað Siðanefndin að fara í hjólför stjórnar Læknafélagsins og vísaði málinu frá án efnislegrar meðferðar. Með svokölluðum úrskurði Siðanefndar fylgdi bréf þar sem Allan V. Magnússon benti mér á að ég gæti skotið úrskurði nefndarinnar til Gerðardóms enda yrði ég að gera það innan fjögurra vikna. Málið fór því strax til Gerðardóms sem gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Siðanefndar. Gerðardómur ómerkti úrskurð Siðanefndar og lagði fyrir nefndina að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Næst afrekaði Siðanefndin það að segja sig frá málinu, að sögn Allans vegna anna nefndarmanna. Þetta afrek tókst nefndinni að vinna á aðeins fimm vikum. Stjórn Læknafélags Íslands varð því að skipa nýja Siðanefnd (ad hoc). Tíminn, sá dyggi þjónn sá um afganginn. Málinu lauk loks á gamlársdag 2002 með sýknu Kára.

Nokkrum klukkustundum síðar flutti Davíð Oddsson forsætisráðherra landsmönnum árlegan boðskap sinn og sagði: "Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum er sama. Menn yppta öxlum og láta kyrrt liggja. Slíkt kann að standast skamma hríð en verður þjóðarböl þegar til lengdar lætur."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica