Umræða fréttir

Duglegur ráðherra

Þótt mörgum hefði fundist heilbrigðismál mátt vera meira á dagskrá í aðdraganda kosninganna verður ekki sagt um Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hann hafi setið auðum höndum síðustu vikur. Það linnti ekki stöðugum straumi fréttatilkynninga frá ráðuneytinu og verður þeirra helstu getið hér á eftir.

Fyrst gerðist það í lok apríl að tilkynnt var um sættir í deilunni sem staðið hafði lengi um heilsugæsluna á Suðurnesjum. Samkomulag náðist um að Heilsugæslan í Reykjavík taki að sér að manna heilsugæsluna á Suðurnesjum og er nú verið að útfæra nánar hvernig það verði best gert.

Viku síðar barst sú frétt að ráðherra hefði heimilað forstjórum Tryggingastofnunar ríkisins og Landspítalans að gera samning um nýrnaígræðslu og stofnfrumumeðferð á Landspítalanum en fram að þessu hafa slíkar aðgerðir eingöngu verið gerðar í útlöndum.

Daginn eftir tilkynnti ráðuneytið að gengið yrði til samninga við fyrirtækið Salus ehf. um rekstur heilsugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi. Að þessu fyrirtæki standa læknarnir Haukur Valdimarsson og Bárður Örn Sigurjónsson sem eiga það til hálfs á móti ráðgjafarfyrirtækinu Nýsi ehf. sem Sigfús Jónsson veitir forstöðu.

Daginn eftir skipaði Jón tvo skrifstofustjóra í ráðuneytinu og svo var eins og hann gæti ekki hamið sig því viku síðar skipaði hann Guðjón Magnússon lækni forstjóra Lýðheilsustöðvar en Guðjón tekur við embættinu 1. júlí í sumar. Guðjón var ráðinn til starfans eftir að nýskipuð nefnd hafði metið hann hæfastan af 16 umsækjendum en sú nefnd hefur það verkefni að meta hæfi umsækjenda um stöður forstöðumanna sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana.

Þá voru raunar liðnir fjórir dagar frá kosningum og komið mál að linnti - í bili að minnsta kosti.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica