Umræða fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Af menningararfinum og öðru brýnu

Það var ánægjulegt að lesa grein Auðólfs Gunnarssonar í 5. tbl. Læknablaðsins 2003 þar sem hann fullyrðir að ekki verði sagt "að Læknafélag Íslands hafi sinnt mikið sögu lækninga á Íslandi eða haft í heiðri minningu þeirra félaga sem rutt hafa brautina eða skarað fram úr á vissum sviðum." Auðólfur fór víða og áhuginn fagnaðarefni að sínu leyti, þó LÍ fengi nánast falleinkunn fyrir afskiptaleysi sitt af menningarmálum og sögu lækna og læknisfræðinnar. "Sá er vinur er til vamms segir." Betur væri, að fleiri félagar létu stjórn og aðalfundi félagsins heyra skoðanir sínar í þessum efnum og öðrum á síðum Læknablaðsins. Tímabært er að gera grein fyrir málum í fáum orðum, er varða sumt af því, sem Auðólfur tæpir á.


LÍ er ekki aðgerðalaust

Læknafélag Íslands hefur lagt mikið til sögu læknisfræðinnar á liðnum árum, þó þess sjái ekki enn stað í útgefnu prentverki. Heilbrigðissaga Íslands hefur verið skrifuð á vegum félagsins frá árinu 1994 og félagið lagt til þess um 30 milljónir króna á föstu verðlagi. Ekki er enn ljóst, hvenær af útgáfunni getur orðið enda á verulegur kostnaður eftir að falla til. Stjórnin reynir um þessar mundir að ráða fram úr málum þann veg, að lítið þurfi að greiða frekar úr eigin vasa til þessarar útgáfu. Það er alveg ljóst, að LÍ hefur á þessum árum ekki haft mikið svigrúm til að sinna öðrum og brýnum verkum til varðveislu menningarverðmæta þó vilji hafi verið ríkur til.

Þrátt fyrir þetta hefur all nokkru fé, eða tæpum sex milljónum á föstu verðlagi, verið varið til viðgerða á gamla spítalanum á Akureyri, "J. Gudmanns Minde". Vonandi verður hægt að styðja Læknafélag Akureyrar frekar við þá framkvæmd sérstaklega þegar um hægist. Framlög LÍ verða þó að haldast í hendur við framlög annarra, meðal annars ríkisins og Akureyrarbæjar svo og hjúkrunarfræðinga, sem eiga sinn hlut í endurbótunum. Það hlýtur meðal annars að vera hlutverk sveitarfélagsins að leysa til sín tvær íbúðir, sem í húsinu eru. Hindra þær endurgerð hússins í upprunalegri mynd.


Jón Steffensen

Læknafélagið ráðstafaði gjöf Jóns Steffensen til styrktar Lækningaminjasafni við Nesstofu á árinu 2000 svo sem kemur fram í ávarpi formanns LÍ við þá athöfn (Læknablaðið 2000; 86: 607).

Eftir ítarlegt samráð við áhugamenn um sögu læknisfræðinnar sérstaklega formann þeirra, Halldór Baldursson lækni, og að höfðu samráði við forráðamenn Þjóðminjasafns og Menntamálaráðuneytið og með samþykki ríkisstjórnarinnar festi stjórn Læknafélags Íslands kaup á húsi hér í grennd Nesstofu við Bygggarða 7 og nam kaupverð hennar 33.000.000,- króna. Ljóst var að húsnæði þetta gæti fullnægt bráðri þörf lækningaminjasafnsins fyrir viðunandi geymsluhúsnæði og starfsaðstöðu minjavarðar og ef til vill sýningaraðstöðu, þegar fram í sækti.

Til viðbótar verða ríkissjóði afhentar í dag 10.600.000,- krónur af reiðufé úr dánargjöfinni til nauðsynlegra endurbóta á umræddri húseign. Auk þess leggur Læknafélag Íslands sjálft til tvær milljónir króna úr félagssjóði sínum til að liðka fyrir þessu verkefni. Aðalfundir Læknafélags Íslands hafa sýnt þessu málefni mikinn áhuga um árabil og hefur vilji félagsmanna komið fram í samþykktum aðalfunda um fjárframlög til byggingar lækningaminjasafns.

Í dag afhendir Læknafélag Íslands safnverði Nesstofusafns jafnframt fimm myndverk úr búi Jóns Steffensen.

Sérhver vegferð hefst með fyrsta skrefinu. Allir gera sér grein fyrir að ekki er verið að leysa húsnæðismál lækningaminjasafnsins til frambúðar að þessu sinni. Við ríkjandi aðstæður er þetta skref hins vegar óhjákvæmilegt. Það er trú mín og von að draumurinn um veglegt og sæmandi lækningaminjasafn í Nesi við Seltjörn verði að veruleika í fyllingu tímans og verði ævintýri komandi kynslóðum til andlegrar næringar.


Persónulegum munum Jóns Steffensen var trauðla hægt að halda til haga án þess að ganga í berhögg við erfðaskrá hans; þeir voru seldir eins og vilji hans stóð til og Lækningaminjasafninu lagðir þeir fjármunir til í lausum aurum. Þau myndverk, sem afhent voru safnverði Nesstofu og um er getið hér að ofan, seldust ekki.Húsnæðismál okkar daga

Húsnæðismál læknafélaganna eru reglulega á borðum stjórnar LÍ og jafnframt rædd við trúnaðarmenn LR. Þegar ráðstöfun gjafar Jóns Steffensen var til umræðu kom upp sú hugmynd að leysa húsnæðismál Lækningaminjasafnsins og LÍ í sömu andránni, þ.e. á lóð Nesstofu eins og Auðólfur bendir á að geti orðið menningarlegur vegsauki læknum og málefnum þeirra. Þrátt fyrir ýmsar sjarmerandi hliðar þeirrar lausnar þótti það ekki fýsilegt á þeirri tíð. Var þá fyrst og fremst litið til staðsetningar fjarri hringiðu vinnustaða lækna og í öðru lagi nýlegra fjárfestinga í Hlíðasmáranum og fyrirsjáanlegra erfiðleika við sölu þess húsnæðis á viðunandi verði. Aðkoma Landlæknisembættisins hefði hugsanlega breytt þessu mati, en óformlegar viðræður við Landlækni beindu ekki sjónum fjárveitingarvaldsins að þessari lausn fyrir hann.

Ýmsir aðrir kostir hafa verið athugaðir, sérstaklega ef húsnæði hefur verið á lausu, sem þykir sæmandi læknafélögunum. Lengst komust vangaveltur um kaup á Esjubergi, húsi Borgarbókasafnsins við Þingholtsstræti. Þar hefðu endurbætur kostað um 50 milljónir og húsið tilbúið til nota fyrir LÍ um 120 milljónir, ef boðin hefði verið sú upphæð sem borgin vildi fá og fékk. Því var fallið frá þeim áformum. Nýtt húsnæði á góðum stað í Reykjavík, fullbúið, er yfirleitt talið tvisvar sinnum dýrara en það, sem markaðurinn er tilbúinn til að gefa fyrir hvern fermetra í húsnæði læknafélaganna í Hlíðasmáranum.

Annað sjónarmið en hið fjárhagslega, sem er ofarlega í huga stjórnar LÍ, þegar fjallað er um húsnæðismál félagsins, er aðgengi fatlaðra. Þau mál eru komin í nokkuð gott horf í Hlíðasmáranum og erfitt og kostnaðarsamt að mæta þeim staðli í mörgu eldra húsnæði í miðborg Reykjavíkur.


Guðmundur Hannesson

Hið merkilega hús Guðmundar Hannessonar á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu hefði alls ekki hentað félaginu. Það hefur verið athugað. Hins vegar er brýnt að ræða stórmerka sögu Guðmundar Hannessonar og hvort ástæða sé til að rannsaka lífshlaup hans og færa í letur. Það er mín skoðun, að Læknafélag Íslands gæti stutt ættingja og áhugamenn um það framtak til góðra verka.

Allar þessar hugmyndir, meðal annars ábendingar Auðólfs um aðsetur Læknafélags Íslands í Nesi við Seltjörn, eiga að vera stöðugt til umræðu og stjórn félagsins skylt að gæta hagsmuna þess og virðingar eins og best verður á kosið á hverjum tíma.


Sigvaldi Kaldalóns

Verk Sigvalda Kaldalóns halda auðvitað best minningu hans á loft. Þar bætir LÍ ekki um. Hitt er annað, að LÍ getur að sjálfsögðu stutt það sem vel er gert í virðingarskyni við minningu Sigvalda og bætt fyrir óhappaverk gagnvart honum.

Tillaga kom fram á sínum tíma um kaup Orlofssjóðs LÍ á Ármúla, læknissetrinu í Nauteyrarhéraði við Ísafjarðardjúp. Tillagan var skemmtileg og bar vott um stórhug, en því miður ekki raunhæf út frá markmiðum orlofssjóðs. Af því varð því ekki.

Auðólfur rifjar upp í grein sinni, að aðrir hafi reist Sigvalda minnisvarða við Kaldalón. Er það öldungis rétt. Var hann vígður sumarið 2000. Það var eftirminnileg stund, fjölmenni, hátíðarstemning, óvæntir sólstafir á Seleyri í sunnanverðu Kaldalóni, þegar steinharpa Páls frá Húsafelli var afhjúpuð Sigvalda til heiðurs. Rausnarlegt kaffiboð í tjaldbúð á túninu við Ármúla að athöfn lokinni. Þá var notalegt að vera fulltrúi lækna á staðnum vitandi það, að fjárhagslegur stuðningur félags þeirra hafði skipt máli til þess að gera þennan draum að veruleika.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica