Umræða fréttir

Frá Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Þjóðminjasafni: Styrkur Jóns Steffensen

Á aðalfundi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar 2001 var stjórn félagsins falið að leita samstarfs við Þjóðminjasafn Íslands um að félagið og safnið byðu í sameiningu fram styrk til háskólanema sem vildu skrifa námsritgerð um efni tengt sögu heilbrigðismála á Íslandi. Styrkurinn skyldi kenndur við prófessor Jón Steffensen og veittur til að minnast framlags hans til safnsins og til rannsókna í sögu læknisfræðinnar. Tilgangur með styrkveitingunni skyldi vera að vekja athygli ungra og upprennandi íslenskra sagnfræðinga og annarra háskólastúdenta á þeim mörgu og spennandi verkefnum sem enn eru óunnin á sviði sögu heilbrigðismála.

Forsvarsmenn Þjóðminjasafnsins tóku málaleitan stjórnarmanna afar vel. Í október 2001 var skrifað undir samning þar sem Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Þjóðminjasafn Íslands skuldbundu sig til að veita námsstyrk í þrjú ár, 2001, 2002 og 2003. Styrkupphæðin var ákveðin 200 þús. kr. í hvert skipti. Þar af greiðir félagið 50.000 kr. en safnið 150.000 kr. Þriggja manna nefnd úthlutar styrknum. Í nefndinni sitja tveir fulltrúar frá Þjóðminjasafni/ Nesstofusafni, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Kristinn Magnússon og einn frá Félagi áhugamanna um sögu læknisfræðinnar, Ólafur Þ. Jónsson læknir.

Styrknum fyrir árið 2001var úthlutað 12. febrúar 2002. Tvær umsóknir bárust og ákvað úthlutunarnefndin að skipta styrknum á milli umsækjenda. Umsækjendur voru Kolbrún S. Ingólfsdóttir til ritgerðarinnar: Nesstofa. 70 ár í heilbrigðissögu Íslands 1763-1833 og Þórunn Guðmundsdóttir til ritgerðar um störf yfirsetufólks á 18. öld.

Fjórar umsóknir bárust um styrkinn árið 2002. Úthlutunarnefndin ákvað að veita hann Unni Birnu Karlsdóttur til að skrifa um sögu ófrjósemisaðgerða á Íslandi 1938-1975.

Í lok þessa árs verður Jóns Steffensen-styrkurinn veittur í síðasta skipti samkvæmt áðurnefndu samkomulagi. Það er trú þeirra sem að styrknum standa að hann hafi stuðlað að því að beina sjónum háskólanema að efni tengdu sögu heilbrigðismála á Íslandi. Til að halda þessu góða verki áfram væri æskilegt að finna leið til að viðhalda styrknum enn um sinn.Kristinn Magnússon

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica