Umræða fréttir

Vorfundur Alþjóðafélags lækna. Jón Snædal kjörinn formaður siðanefndar

Á vorfundi stjórnar Alþjóðafélags lækna (WMA) sem haldinn var í Divonne-les-Bains í Frakklandi dagana 15.-18. maí gerðust þau tíðindi að fulltrúi Læknafélag Íslands sigraði í kosningum um formennsku í einni af þremur fastanefndum samtakanna. Næstu tvö árin verður Jón Snædal því formaður í siðanefnd WMA sem er mikilvægasta nefnd samtakanna.

Skipulag WMA er með þeim hætti að stjórnarmenn skiptast í þrjár fastanefndir sem halda fundi tvisvar á ári. Í þessum nefndum eru öll mál samtakanna til umfjöllunar og þar fer mestöll vinna við þau fram. Mál eru síðan afgreidd á haustfundum sem eru aðalfundir WMA en þar er þó yfirleitt um einfalda handauppréttingu að ræða nema upp komi ágreiningur sem ekki tekst að leiða til lykta í nefndunum.

Jón Snædal hefur setið í stjórn WMA undanfarin tvö ár sem annar tveggja fulltrúa norrænu læknasamtakanna. Þegar kom að kjöri formanns siðanefndar bárust tvö framboð og í fyrstu umferð voru Jón og læknir frá Suður-Afríku með jafnmörg atkvæði. Því varð að kjósa aftur og þá hafði Jón betur.

Jón segir að þetta sé tvímælalaust heiður fyrir LÍ og íslenska lækna. "Við höfum verið virkir í samtökunum undanfarin ár eða frá því gagnagrunnsmálið var til umræðu. Við höfum svo fylgt því máli eftir og verið sýnilegir í starfi samtakanna."

Verkefni formanns siðanefndar eru þau að undirbúa og stjórna tveimur fundum hennar sem haldnir eru að vori og hausti. Síðan þarf að gera skýrslu um starfið og leggja hana fyrir stjórnina. Formaðurinn er einnig í forsvari fyrir WMA um þau mál sem undir nefndina heyra og tekur við fyrirspurnum sem samtökunum berast, einkum í gegnum blaðafulltrúa WMA í Lundúnum. Loks þarf formaður nefndarinnar að mæta á fundi og ráðstefnur fyrir hönd WMA þegar svo ber undir.

"Svo gæti farið að ég þyrfti að koma oftar fram fyrir hönd WMA en forverar mínir. Það stafar af því að samtökin kusu sér formann frá Ísrael, Yoram Blachar, en margir höfðu efasemdir um að það væri heppilegt eins og málum er komið í veröldinni. Þessi niðurstaða gæti orðið til þess að fleiri málum verði vísað til nefndanna og annir okkar nefndaformannanna þar með aukist," sagði Jón.



Taívan haldið utan WHO

Starfsemi fundarins í Divonne var með hefðbundnum hætti en þó bar þar á góma málefni Taívans svo bergmálaði í fjölmiðlum. Þannig er að stjórnvöld á Taívan hafa lagt á það mikla áherslu á undanförnum árum að fá áheyrnarfulltrúa í stjórn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þær tilraunir hafa ekki borið árangur og er þar um að kenna andstöðu Kínverja sem viðurkenna ekki sjálfstæði Taívans heldur líta á landið sem hluta Kínaveldis. Hefur meirihluti aðildarþjóða WHO og þar með taldir Íslendingar stutt þessa afstöðu Kínverja og ávallt hafnað umsókn Taívans.

Alþjóðafélag lækna áréttaði á fundinum í Divonne þá stefnu samtakanna að Taívan beri að fá stöðu áheyrnarfulltrúa hjá WHO. Human Delon framkvæmdastjóri WMA sagði eftir fundinn að útbreiðsla HABL sýndi glöggt nauðsyn þess að Taívanar geti sótt stuðning og sérfræðiaðstoð til WHO. "HABL breiðist út á Taívan og við höfum áhyggjur af því að læknastétt landsins skuli vera útilokuð frá samstarfi við heilbrigðisstéttir heimsins ... Við ættum að forðast að leggja stein í götu samskipta vísindamanna WHO við lækna á Taívan," sagði Delon.

Á allsherjarþingi WHO sem haldið var í Genf í vikunni á eftir fundi WMA var umsókn Taívans ekki á dagskrá en afstaða Íslands er óbreytt hvað hana varðar. Við styðjum ekki aðild Taívans að Sameinuðu þjóðunum né neinum undirstofnunum þeirra.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica