Umræða fréttir

Krafa um lækkun skattlagningar ávöxtunarhluta lífeyrisgreiðslna fyrir dómi

Margir læknar búa við lélegar lífeyrisgreiðslur og skattlagning þeirra greiðslna skiptir þá máli. Einn félagsmanna í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) hefur stefnt ríkinu vegna skattlagningar lífeyrisgreiðslna. Þetta er prófmál og var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. október 2002 og er málinu enn ekki lokið.

Í stefnunni er þess krafist að álagning tekjuskatts á stefnanda árið 2002 vegna tekjuársins 2001 verði fellt úr gildi, en með henni voru lífeyrisgreiðslur hans skattlagðar með almennu tekjuskattshlutfalli, það er 38,78% skatti, og á það bæði við um inngreidd iðgjöld og uppsafnaða vexti. Samkvæmt lögum um fjármagnstekjuskatt frá 1996 skal hins vegar greiða 10% skatt af öllum öðrum fjármagnstekjum en vöxtum af iðgjöldum í lífeyrissjóðum, svo sem vöxtum, arði, leigu og söluhagnaði.

Byggt er á því í fyrsta lagi að mismunandi skattprósenta á samkynja tekjur, það er fjármagnstekjur, feli í sér mismunun sem ekki fái staðist nema málefnaleg sjónarmið liggi henni að baki. Slík aðgreining mismuni stefnanda, en honum hafi verið lögskylt að greiða í lífeyrissjóð.

Í öðru lagi að skattareglurnar mismuni stefnanda vegna þess að áður en öllum varð skylt að greiða hluta launa sinna í lífeyrissjóð hafi aðrir en launþegar getað lagt fyrir til efri áranna, til dæmis með fjárfestingu í hlutabréfum. Stefnandi sem hafi verið launþegi hafi ekki haft þetta val. Hann standi nú frammi fyrir því að greiða 10% skatt af öllum fjármagnstekjum öðrum en ávöxtunarhluta lífeyrisgreiðslna.

Því er haldið fram að þessi mismunun brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. og eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, svo og 1. gr. I viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 14. gr. sáttmálans sem var lögtekinn hér á landi með lögum 62/1994, enda séu skattareglurnar ekki reistar á neinum málefnalegum sjónarmiðum sem réttlætt geti þessa mismunun.

Samkvæmt gögnum í málinu námu uppsafnaðir vextir og verðbætur 81% af útborguðum lífeyri stefnanda árið 2001. Ef fallist verður á sjónarmið hans ættu skattgreiðslur hans að lækka um 33% vegna tekna á árinu 2001.

Ríkið skilaði greinargerð í janúar síðastliðnum og er þess nú beðið að dómari ákveði hvenær munnlegur málflutningur fari fram. Krafa um gjafsókn var samþykkt.Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica