Umræða fréttir

Íðorðasafn lækna á netinu

Fyrir kemur að hringt er á skrifstofu Læknablaðsins og spurt hvort ekki sé hægt að nálgast Íðorðasafn lækna á tölvutæku formi. Því er til að svara að safnið er hluti af Orðabanka Íslenskrar málstöðvar og hefur þar frá upphafi en hann má nálgast á heimasíðu stofnunarinnar www.ismal.hi.is

Á þessari heimasíðu er að finna Íðorðasafn lækna eins og það var gefið út á bók fyrir hálfum öðrum áratug. Reyndar var hluti þess uppfærður árið 1996 þegar sjúkdómaflokkunin ICD-10 var þýdd. Á heimasíðu Læknablaðsins http://lb.icemed.is má einnig má nálgast Íðorðapistla Jóhanns Heiðars Jóhannssonar sem gefnir voru út árið 2001 sem fylgirit nr. 41.

Íðorðasafn lækna hefur að sjálfsögðu úrelst nokkuð frá því það kom út enda síðustu ár ákaflega viðburðaríkur tími í læknavísindum. Þess vegna hefur það verið til umræðu í íðorðanefnd LÍ hvort ekki væri þörf á að endurskoða orðasafnið og færa það fram til nútímans á netinu.

Að sögn Jóhanns Heiðars hafa nefndarmenn vissulega látið sig dreyma um nýja útgáfu en þeir draumar hafa ekki ræst og helstu ástæður fyrir því tími og peningar, eða öllu heldur skortur á þessu tvennu. Þegar Íðorðasafn lækna var gefið út á níunda áratugnum var ráðinn íslenskufræðingur til að ritstýra því og annast hina praktísku hlið útgáfunnar. Meginvinnan við orðabókargerðina var hins vegar í höndum fjölmenns hóps lækna úr öllum greinum læknisfræðinnar sem söfnuðu orðum, þýddu og skráðu.

Jóhann Heiðar segir að mönnum hrjósi hugur við þessu mikla verki því erfitt gæti reynst að finna þann hóp sem þarf og er reiðubúinn að fórna tíma sínum í svona verkefni. Hann taldi að endurskoðun íðorðasafnsins myndi taka að minnsta kosti ár ef reiknað er með að hóparnir sem að því ynnu hittust einu sinni í viku. "Það virðist því miður vera svo að menn eru ekki eins fúsir til að leggja á sig mikla sjálfboðavinnu og áður var," segir Jóhann Heiðar.

Á meðan verið er að safna liði verða menn að láta sér nægja útgáfu Íðorðasafns lækna frá 1986-1989 sem liggur fyrir á bók og heimasíðu Íslenskrar málstöðvar.

-ÞH

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica