Umræða fréttir

Formannafundur LÍ. Nýja læknadeild en ekkert tilvísanakerfi

Formannafundur Læknafélags Íslands var haldinn í húsakynnum félagsins í Kópavogi 11. apríl. Slíkir fundir eru haldnir á hverju vori og hafa þann tilgang að taka sólarhæðina á miðju starfsári stjórnar milli aðalfunda. Þangað mættu að vanda formenn svæðafélaga og sérgreinafélaga, gáfu skýrslur um starfsemi félaganna og hlýddu á skýrslur stjórnar og formanna nefnda.

Oft hefur verið brugðið á það ráð á þessum vorfundum að efna til málþings um eitthvert það efni sem brennur á læknum en svo var ekki nú heldur fór mestur tíminn í að ræða starf félagsins. Að sjálfsögðu komu þó til umræðu ýmis þau mál sem uppi eru í tíðinni, svo sem deilan um heilsugæsluna á Suðurnesjum.

Að umræðu um félagsstarfið slepptri kom þó tvennt til tals sem fundarmönnum lá allnokkuð á hjarta. Sigurbjörn Sveinsson formaður fjallaði um tilvísanakerfi sem skaut upp kollinum í umræðu um íslensk heilbrigðismál snemma í kosningabaráttunni þegar Alþýðusamband Íslands lagði fram tillögur sínar um endurbætur á velferðarkerfinu. Einn liður í tillögum ASÍ var ný útgáfa af tilvísanakerfi sem nefnd hefur verið valfrjálst stýrikerfi.

Sigurbjörn greindi frá fundi sem heimilislæknar og fleiri héldu á Egilsstöðum í byrjun apríl en þar voru menn sammála um að miðað við núverandi ástand í heilsugæslunni væri tómt mál að tala um tilvísanakerfi, það myndi einfaldlega ekki virka þegar aðgangur almennings að heimilislæknum er jafntakmarkaður og raun ber vitni. Undir þetta tóku fundarmenn og Þórir B. Kolbeinsson formaður Félags íslenskra heimilislækna sagði tilvísanakerfi eða annað ámóta stýrikerfi alls ekki á stefnuskrá heimilislækna.

Ýmis önnur rök voru færð gegn tilvísanakerfinu, svo sem þau að uppbygging heilbrigðisþjónustunnar væri öðruvísi hér en í öðrum löndum, ekki síst hvað varðar þjónustu annarra sérfræðinga en heimilislækna. Vísað var til erlendra rannsókna, meðal annars í Bandaríkjunum, sem hafa leitt í ljós að tilvísanakerfi eins og um hefur verið rætt, það er að fólk fari fyrst til heimilislæknis sem vísar því áfram til sérfræðiþjónustunnar, leiðir ekki til sparnaðar og er alls ekki ódýrari, hvorki fyrir sjúklinga né samfélagið.

Það var því á fundarmönnum að heyra að þeir hefðu engan áhuga á að taka þátt í að koma á tilvísanakerfi af fjárhagslegum ástæðum. Öðru máli gegndi um faglegar ástæður enda væri á öllum sjúkrahúsum við lýði strangt tilvísanakerfi og það væri af hinu góða. Landlæknir átti lokaorðið í þessari umræðu og tók hann undir með mönnum um að ávinningur af tilvísanakerfi væri í besta falli mjög óljós. Hins vegar þyrfti að bæta samskipti heimilislækna og annarra sérfræðinga, ekki síst hvað varðar upplýsingaflæði um sjúklinga, en þau væri hægt að laga. Hann sagði lækna eiga næsta leik í því að koma á umbótum í kerfinu, það stæði þeim miklu nær en ASÍ.

Hitt málið sem gerði fundarmönnum heitt í hamsi kom upp í kjölfar frásagnar Ófeigs Þorgeirssonar af stjórnarfundi LÍ á Hótel Rangá (sjá frásögn hér að framan). Þar var varpað fram þeirri spurningu hvort ekki væri athugandi að koma á fót annarri læknadeild hér á landi sem veitt gæti þeirri sem fyrir er samkeppni og aðhald.

Flestir þeirra sem tjáðu sig um þetta mál tóku hugmyndinni vel, það veitti ekki af að skerpa á læknanáminu. Ný læknadeild þyrfti þó ekki endilega að lúta nákvæmlega sömu lögmálum og sú sem fyrir er, það væri hægt að byggja hana upp með allt öðrum hætti. Bent var á að eftir stofnun háskólasjúkrahússins væri sú tilhneiging áberandi að reyna að halda öllu þar innan veggja. Það væri hins vegar í hrópandi ósamræmi við þá þróun sem orðið hefur í ferliverkum þar sem stór hluti léttari og smærri aðgerða færi fram utan sjúkrahússins á stofum lækna. Þetta væri farið að hamla kennslu læknanema sem ekki fengju að spreyta sig á ferliverkum. Fram kom að Læknasetrið í Mjódd hafi boðið fram aðstoð sína við kennslu læknanema en að því hefði verið hafnað. Sömu viðtökur hlaut einnig tilboð frá sjálfstætt starfandi skurðlæknum.

Greinilegt var þó að mörgum þótti það jaðra við drottinssvik að ganga í berhögg við lærifeðurna í deildinni sem fóstrað hefur að heita má alla íslenska lækna. Samt var eins og menn sæju nauðsyn þess að hrista upp í námi verðandi lækna ef læknastéttin vildi standa undir nafni í framtíðinni.

Að loknum fundi bauð formaður fundarmönnum heim til sín.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica