Umræða fréttir

Heilbrigðismál á kosningavetri: Hvað greinir flokkana á um? - Lausleg úttekt á stefnu flokkanna í heilbrigðismálum sem ekki hafa verið ýkja áberandi í kosningabaráttunni

Í undanförnum tölublöðum Læknablaðsins hefur verið rætt við lækna um heilbrigðismál og hvað þeir telja brýnast að lagfæra í þessum umfangsmikla málaflokki. Hér á eftir verður dregið saman það helsta sem viðmælendur blaðsins hafa nefnt til sögunnar og borið saman við þá stefnu sem stjórnmálaflokkar og frambjóðendur þeirra hafa haldið á lofti í kosningabaráttunni.

Fyrst verður þó að segja þá sögu eins og hún er að blaðamanni finnst furðu lítið hafa farið fyrir umræðu um heilbrigðismál í þessari kosningabaráttu. Umræða um skatta, sjávarútveg og velferðarmál önnur en heilbrigðismál hafa verið mest áberandi, að ógleymdum deilum um stríðið í Írak og starfshætti í stjórnarráðinu. Þetta tómlæti um heilbrigðismál hlýtur að sæta furðu þar sem enginn málaflokkur kostar skattgreiðendur jafnmikið. Rekstur heilbrigðiskerfisins gleypir fjórðung ríkisútgjaldanna og ef tryggingamálin eru tekin með fer hlutfallið upp í 40% eða þar um bil.

Því er þó engan veginn þannig farið að flokkarnir þegi þunnu hljóði um þennan málaflokk. Í stefnuskrám þeirra allra og öðrum kosningaplöggum er að finna misítarlegar yfirlýsingar og útfærslur á því hvað þeir hyggjast fyrir nái þeir að komast til áhrifa í stjórn landsins. Hér á eftir verður stuðst við slík plögg, auk þess sem vitnað verður til ummæla sem féllu á fundi sem Læknaráð Landspítalans boðaði til í byrjun apríl og bauð til fulltrúum alla flokka.





Heilsugæslan, aldraðir og nýr spítali

Þegar litið er yfir viðtölin við læknana fjóra sem birst hafa hér í blaðinu stendur eitt atriði upp úr: Það verður að efla heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Allir læknar finna fyrir því að þar er pottur brotinn, meira að segja þeir sem starfa á hátækniskurðdeild Landspítalans lenda oft í því að sinna fyrrverandi sjúklingum sem leita til þeirra með ólíklegustu vandamál vegna þess að þeir eru eini snertiflöturinn sem þeir hafa við heilbrigðiskerfið. Stór hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins hefur ekki greiðan aðgang að heimilislækni sem er að sjálfsögðu óviðunandi ástand.

Annað atriði sem allir viðmælendur blaðsins nefndu var nauðsyn þess að taka á í öldrunarmálunum. Hátt á annað hundrað sjúkrarúma á Landspítalanum (og raunar einnig á FSA) er á hverjum tíma upptekið af öldruðu fólki sem með réttu ætti að liggja á hjúkrunarheimili en kemst ekki að vegna þess að uppbygging slíkra heimila gengur hægar en skyldi. Þetta setur að sjálfsögðu strik í reikning spítalans því plássið og vinnukraftinn sem þarf til að sinna þessu fólki mætti nýta á annan hátt.

Þriðja atriði sem oft var nefnt í viðtölunum við læknana er framtíð Landspítalans en eins og kunnugt er hefur verið tekin um það ákvörðun að hann skuli vera við Hringbraut. Þar blasir við að reisa þarf ný hús og laga önnur til fyrir nokkra tugi milljarða. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvenær hafist skuli handa við byggingarframkvæmdir.

Ýmis fleiri atriði bar á góma í viðtölum við læknana, svo sem að mörkuð verði stefna um það hvar eigi að veita hvaða þjónustu. Einkarekstur og verktaka lækna er þeim líka hugleikin, einkum að stjórnvöld leiti nýrra leiða og opni fyrir ný rekstrarform. Þeir voru hins vegar ekki endilega á því að einkarekstur væri ávallt hagkvæmari og betri en opinber en að úr því yrði ekki skorið fyrr en látið yrði reyna á það.





Allir sammála um meginmarkmiðin

Sá lauslegi samanburður sem blaðamaður gerði á skoðunum læknanna fjögurra og flokkanna fimm sýnir að um mörg veigamestu atriði heilbrigðismála ríkir furðumikil eindrægni. Vissulega greinir menn og flokka á um leiðir og aðferðir en meginmarkmiðið er það sama: Allir telja það skyldu ríkisvaldsins að tryggja öllum þegnum jafnan rétt til og aðgang að heilbrigðisþjónustu og að hún skuli vera sú besta sem völ er á hverju sinni.

Sömuleiðis eru allir þeirrar skoðunar að heilsugæsluna þurfi að bæta, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Og enginn efast um réttmæti þess að byggja myndarlega yfir Landspítalann við Hringbraut. Á fundinum sem áður er vitnað til gættu fulltrúar núverandi stjórnarflokka þess vel að nefna engar tímasetningar. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru einnig varkárir en þó nefndu Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrigrænna og Guðmundur Árni Stefánsson þingmaður Samfylkingarinnar að raunhæft væri að ákvarðanataka og undirbúningur framkvæmda tæki tvö til fjögur ár, framkvæmdir gætu hafist fyrir lok þessa áratugar og lokið á fimm til 10 árum.

Þótt stöku maður hafi gælt við þá hugsun að opna fyrir þann möguleika að sjúklingar geti keypt sig framhjá biðlistum þá er ekkert slíkt að finna í kosningastefnuskrám flokkanna. Þar eru hins vegar alls staðar yfirlýsingar um að biðlistar séu óviðunandi og að þá beri að stytta. Framsóknarflokkurinn vill stefna að því að hámarksbið verði aldrei lengri en sex mánuðir og Vinstrigrænir nefna sérstaklega biðlista eftir langtímameðferð vímuefnaneytenda og greiningu og meðferð barna og unglinga með geðraskanir.



Ágreiningur um leiðir

Vilji menn finna hvar flokkana greinir á er rétt að skoða leiðirnar sem þeir vilja fara að markmiðunum. Þó ber að geta þess að á Landspítalafundinum voru allir sammála um réttmæti kostnaðargreiningar og þörfina á því að breyta fjármögnun spítalarekstrarins. Þegar fulltrúar flokkanna voru spurðir um hvort þeir væru reiðubúnir að leita nýrra leiða til að fjármagna byggingu framtíðarspítalans skildu leiðir. Stjórnarflokkarnir vildu ekki útiloka að einkaframkvæmd eða alútboð gætu flýtt framkvæmdum en stjórnarandstaðan var nokkuð sammála um að réttast væri að ríkið fjármagnaði framkvæmdina af fjárlögum eða með lántöku.

Einn fundarmanna gat hins vegar ekki stillt sig um að benda fulltrúum flokkanna á að loforð þeirra um skattalækkanir færu langleiðina í að fjármagna byggingu spítalans í einum rykk.

Sama máli gegnir um leiðir til að efla heilsugæsluna. Þar eru skoðanir flokkanna töluvert skiptar. Sjálfstæðisflokkurinn "leggur sérstaka áherslu á fjölbreytt rekstrarform og valmöguleika í heilsugæslu". Hinn stjórnarflokkurinn vill efla heilsugæsluna "sem grundvöll heilbrigðisþjónustu í landinu og ljúka uppbyggingu hennar á höfuðborgarsvæðinu. Rekstrarformum í heilsugæslunni verði fjölgað til að styrkja þjónustuna og stuðla að hagkvæmni í rekstri."

Samfylkingin segir að rekstrarform þurfi að velja með tilliti til aðstæðna hverju sinni og bætir svo við: "Forsenda verktöku og rekstrar einkaaðila á þessum sviðum (heilbrigðis- og menntamálum) er ætíð að ekki sé hægt að kaupa sér forgang, þjónusta rýrni ekki, kostnaður sjúklinga aukist ekki og kostnaður ríkisins minnki." Frjálslyndir ræða ekki um rekstrarform í stefnuskrá sinni en Margrét Sverrisdóttir sagði á Landspítalafundinum að einkarekstur leiddi ekki endilega til aukinnar hagkvæmni. Vinstrigrænir vara hins vegar við "einkavæðingu sem hefur í för með sér bæði mismunun og lélega nýtingu fjármuna í heilbrigðiskerfinu".



Hver á að hjúkra öldruðum?

Eins og áður segir eru flokkarnir sammála um nauðsyn þess að fjölga hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Þjóðin sé að eldast og við því þurfi að bregðast. Hins vegar eru meiningar nokkuð deildar um það hver eigi að bregðast við.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti ályktun þess efnis að ábyrgð á öldrunarþjónustu eigi að vera hjá sveitarfélögunum. Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði á Landspítalafundinum að sveitarfélögin hefðu hag af því í núverandi kerfi að ýta öldruðum úr heimaþjónustu yfir í önnur og dýrari þjónustuform. Þetta væri ekki heppilegt og brýnt að setja einhverjar reglur um það hver bæri ábyrgð á þjónustu við aldraða og hvar hún væri veitt. Ef niðurstaðan yrði sú að hún væri best komin hjá sveitarfélögunum þyrftu þau að fá fjármuni til að standa undir kostnaði við hana. Einnig væri athugandi að setja reglur um það hver eigi að borga fyrir þá einstaklinga sem ekki eru á réttum stað í kerfinu.

Aðrir fulltrúar flokkanna tóku undir þau orð að skoða þyrfti verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði öldrunarþjónustu en höfðu fyrirvara á því að það gæti gerst mjög hratt.

Jónína Bjartmarz frá Framsóknarflokki sagði brýnt að ákvarða hvað ætti að gera hvar og hélt því fram að forsenda slíkrar stefnumótunar væri að kostnaður við heilbrigðisþjónustu væri greindur og fjárframlög til stofnana löguð að því. Formaður Vinstrigrænna tók undir nauðsyn þess að setja skýrar reglur um hvað ætti að gera hvar.



Hver ræður?

Í lokin má nefna að einn fundarmanna varpaði fram þeirri fyrirspurn hvort stjórnmálamenn væru reiðubúnir að deila ábyrgðinni með heilbrigðisstéttum á þeim ákvörðunum sem þær taka upp á eigin spýtur núna. Jú, þeir voru svo sem ekki andvígir því en sáu þó þann hæng á að heilbrigðisstéttirnar væru margar og oft afar ósammála sem gerði stjórnmálamönnum erfitt fyrir um að ákveða hvað réttast væri að gera.

Þetta svar segir kannski mest um það hver ræður ferðinni í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Ef þeir sem starfa í heilbrigðisþjónustunni bera gæfu til að standa saman að stefnumótun er engin hætta á því að stjórnmálamenn og flokkar þeirra þvælist verulega fyrir. Sameinaðir stöndum vér, eða hvað?

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica