Umræða fréttir

Íðorð 155. Audit

Hildur Harðardóttir, kvensjúkdómalæknir, sendi fyrir nokkru síðan beiðni um umfjöllun um heitið audit, einkum í samsetningunni perinatal audit. Heitið vísar til þess að fram fer endurskoðun á árangri tiltekinnar starfsemi, í þessu tilviki þeirrar sem fram fer í tengslum við burðarmál og fæðingu.

Uppruna orðsins audit má rekja til latnesku sagnarinnar audire, að heyra, og nafnorðsins auditio, heyrn. Hin sögulega skýring er vafalaust sú að "opinber" endurskoðun fór upphaflega fram í heyranda hljóði og að gert var munnlega grein fyrir því sem endurskoða átti. Af sama uppruna er auditorium, staður þar sem yfirheyrt er eða hlustað, en það heiti er nú oftast notað um sal til fyrirlestrahalds, tónlistarflutnings eða yfirheyrslu.Hljóðfræðiorð

Flest fræðiorð af þessum uppruna, sem birt eru í læknisfræðiorðabókum, vísa til heyrnar, eyrna eða hljóðfræði, til dæmis audiogram, heyrnarrit, audiometer, heyrnarmælir, auditognosis, hljóðskyn, auditory canal, eyrnagöng, auditory nerve, völundarhússtaug, auditory reflex, heyrnarviðbragð, og auditory tube, kokhlust.Endurskoðun

Í læknisfræðiorðabók Stedmans má þó finna skilgreiningu á hugtakinu audit: prófun eða endurskoðun sem staðfestir að hve miklu leyti ástand, ferill, eða frammistaða samræmist fyrirfram ákveðnum stöðlum eða skilmerkjum. Latneska nafnorðið auditio var notað á svipaðan hátt um hlustun eða yfirheyrslu. Hagfræðiorðasafn Íslenskrar málnefndar (Rvík 2000) þýðir heitið audit alltaf með íslenska orðinu endurskoðun.Rýni

Undirritaður svaraði Hildi með hraði að audit merkti endurskoðun, en að hann gæti sætt sig við samsett orð sem endaði á -rýni, til dæmis burðarmálsrýni.

Kvenkynsnafnorðið rýni virðist hafa unnið sér fastan sess í gæðastjórnun, hugbúnaðarfræði og verkefnastjórnun og er þar notað um kerfisbundna yfirferð á ferli eða gögnum til að sannreyna hvort samræmi sé við tilgreindar kröfur. Einnig er til karlkynsnafnorðið rýnir og er það notað um þann sem annast slíka rýni. Íslensk orðabók Eddu tilgreinir meðal annars sögnina að rýna sem merkir: 1 skoða (vandlega), gagnrýna, rannsaka, 2 tala vinmæli við e-n, 3 ráða rúnir. Gaman er að velta einnig fyrir sér tilgreindum merkingum nafnorðsins rýnir: 1 beinhákarl, 2 athugari, rannsakandi, 3 gagnrýnandi, 4 það linsukerfi sem er næst auga athugandans. Uppruni þessara orða er ekki fyllilega ljós, en samkvæmt Orðabók Háskólans má finna einstök dæmi um notkun þeirra allt frá 17. öld.Læknisfræðileg rýni

Gera má ráð fyrir að skoðun á árangri og frammistöðu tiltekinnar læknisfræðilegrar starfsemi verði í vaxandi mæli beitt sem þætti í gæðastjórnun á heilbrigðisstofnunum. Þörf er því fyrir lipurt heiti. Rýni er gott heiti á þeirri kerfisbundnu yfirferð sem beita þarf og fer vel í alls kyns samsetningum, til dæmis aðgerðarýni, meðferðarrýni, rannsóknarýni, rýnifundur og sjúkraskrárrýni.Vegetative state

Frá Íslenskri málstöð barst fyrirspurn vegna þess sem nefnt er á ensku: persistent vegetative state, en þessi samsetning finnst ekki í Íðorðasafni lækna. Þýðingar á einstökum orðum má finna eftir öðrum leiðum: persistent langvarandi, linnulaus, varanlegur, viðvarandi; vegetative ómeðvitaður, ósjálfráður, óvirkur, sljór, viljalaus; state aðstæður, ástand, hagur, staða.

Lýsingarorðið vegetative er dregið af nafnorðinu vegetation, sem er samheiti fyrir plöntu- og jurtagróður. Í ofangreindu samhengi vísar það til lífs án vilja, hugsunar eða meðvitundar. Heitið persistent vegetative state mun hafa verið sett fram árið 1972 til að lýsa ástandi þeirra sjúklinga sem eru algerlega meðvitundarlausir og skynja ekki umhverfi sitt, en viðhalda ósjálfráðri starfsemi, svefn- og vökumynstri og geta sýnt viss viðbrögð við ytra áreiti. Þetta ástand kemur fram þegar æðri heilastöðvar, fyrst og fremst í heilaberki, eru óstarfhæfar en þær lægri eru virkar. Talið er víst að þessir sjúklingar séu alveg án sjálfsvitundar og skynji ekki sársauka þrátt fyrir fyrrgreind, ósjálfráð viðbrögð.

Til að koma umræðunni af stað bjó undirritaður strax til nokkur heiti: viðvarandi dauðadá, viðvarandi meðvitundardá, viðvarandi lífsvitundardá og viðvarandi tilvitundardá. Í stað "viðvarandi" má einnig setja "varanlegt". Gaman væri nú að fá viðbrögð frá þeim sem telja sig málið varða.Meira um incidentaloma

Í tölvupósti bárust tvær tillögur til viðbótar því sem áður hafði verið sett fram um heiti á hnútum eða fyrirferðaraukningum, sem stundum finnast í líffærum við rannsóknir af öðru tilefni. Nýju tillögurnar eru hulinshnútur og hulinshnykill.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica