Umræða fréttir

Broshornið 37. Af tækni og útliti

Á tímum tækninnar

Fjórir skurðlæknar voru að leika golf saman. Þeir þekktust allvel en þó var ekki alveg á hreinu hver væri þeirra fremstur. Allt í einu heyrist hringing og einn fjórmenninganna káfar ofan í golfpokann, dregur upp farsíma og talar í eina mínútu. "Það er alveg rosalega mikilvægt að hægt sé að ná í mann hvenær sem er," segir hann að loknu símtalinu og setur símann aftur í pokann.

Skömmu seinna heyrist aftur hringing og annar læknir ber hendina upp að eyranu. "Það nýjasta í farsímatækninni, herrar mínir, hátalari á þumlinum og hljóðnemi á litla fingri, hvort tveggja ósýnilegt."

Nokkru síðar nemur þriðji skurðlæknirinn staðar og byrjar að tala. "Þetta er nú það allra nýjasta, hátalari græddur inn í eyrað á mér og hljóðnemi fyrir aftan aðra framtönnina. Fyrirhafnarlítið, ekki satt?" Félagarnir voru hæfilega hrifnir og héldu áfram spilamennskunni.

Skyndilega leggur fjórði læknirinn frá sér kylfurnar og afsakar sig um leið og hann hverfur bak við runna. Eftir allnokkra stund kemur að því að félögum hans hættir að standa á sama og einn þeirra gægist bak við runnann. Þar sér hann manninn sitjandi á hækjum sér og buxurnar á hælunum. "Ekki hafa áhyggjur af mér, gefið mér eins og eina mínútu í viðbót. Ég á nefnilega von á faxi."

Þú gætir verið læknir ef ...

- þú getur sofið standandi með opin augun.

- þú hefur heyrt sjúkling segja: "En ég get ekki verið ófrísk. Hvernig ætti ég að geta átt von á barni?"

- þú ert viss um að hafa séð það á skurðstofunni eldsnemma um morguninn sem er á boðstólum í matsalnum í hádeginu.

- þú telur veitingastað vera góðan ef þú getur fengið sæti til að borða matinn þinn.

- þú átt þá ósk heitasta að fá koffeinið beint í æð.

- þú hefur einhvern tíma þurft að beita sjúkling fortölum til að fá að vinna vinnuna þína.

- þér dettur strax í hug að sjúklingur sé að misnota lyf ef hann kvartar um mígreni, bakverk eða ofnæmi fyrir alls konar lyfjum nema parkódín forte.

- þú margfaldar með þremur það sem einhver segist nota af áfengi á degi hverjum.

- þú átt lausa helgi fyrir sjálfan þig og fjölskylduna eftir eitt ár.

- þú telur grænmeti ekki til fæðutegunda fyrir sjálfan þig.

- þú óskaðir þess að hjúkkurnar í vinnunni hjá þér litu út eins þær í sjónvarpinu.

Spyrjandi tannlæknar

Hefur nokkur tekið eftir því hve tannlæknar eiga erfitt með að spyrja spurninga þar sem svarið er annaðhvort "já" eða "nei"?

Maður með útlit

"Guðrún, ég verð að segja þér eins og er, en mér líst ekki á manninn þinn."

"Ekki mér heldur, læknir, en hann er góður við börnin."

Heim með lækninum

Símon læknir var kominn til ára sinna og var þekktur fyrir að vera bæði glöggur en á stundum viðutan. Hann þótti vera reffilegur karl og geislaði af kyntöfrum. Kvöld eitt eftir langan vinnudag kom hann við á barnum til að fá sér drykk. Næst honum sat ákaflega fönguleg og leitandi ung kona sem bað Símon um að bjóða sér upp á eitthvað að drekka honum til samlætis. Símon bauð í glas.

"Ertu kvæntur?"

"Nei," svaraði Símon læknir.

"Áttu heima hér í grenndinni?" spurði konan.

"Já."

"Gætir þú hugsað þér að ég kæmi heim með þér?"

"Hvað kostar það?"

"Fimm þúsund fyrir klukkutímann. Átta þúsund fyrir tvo tíma. Tuttugu þúsund fyrir allt kvöldið."

"Gott og vel," sagði læknirinn, "þá er best að drífa sig af stað."

Þegar heim var komið segir konan undurblítt við lækninn: "Á hverju viltu að ég byrji?" Hann leit á hana og sagði: "Ætli það sé ekki best að þú byrjir á að þrífa gluggana."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica