Fræðigreinar

Ágrip erinda 1-15

E - 01 Holsjáraðgerðir í nefi og skútum nefs á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

Gunnhildur M. Guðnadóttir, Kristín Pálsdóttir, Hannes Petersen



Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi

gunnhgud@landspitali.is



Inngangur: Holsjáraðgerðir á nefi og skútum nefs (functional endoscopic sinus surgery) hafa notið vaxandi vinsælda síðastliðinn áratug og hafa að mestu leyst af hólmi eldri aðgerðir á afholum nefs. Helstu ábendingar fyrir þessum aðgerðum eru langvinnar skútabólgur og miðar aðgerðin að því að bæta afrennsli úr skútum með minnstu mögulegri röskun á eðlilegu slímflæði í nefinu. Þetta er ýmist gert með því að stækka náttúruleg afrennslisop afhola nefsins eða fjarlægja aðrar orsakir fyrir stíflum, svo sem sepa og stækkaðar nefskeljar. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá nokkra yfirsýn yfir fjölda þeirra hér á landi, helstu ábendingar og fylgikvilla.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og var farið yfir sjúkraskrár allra sjúklinga sem gengust undir holsjáraðgerðir á nefi og skútum nefs á tímabilinu 1990-2000.

Niðurstöður: Alls fóru 484 sjúklingar í aðgerð á þessu tímabili, 257 karlar (53%) og 227 konur (47%). Heildarfjöldi aðgerða á tímabilinu var 586 og var meðalaldur við fyrstu aðgerð 43,2 ár, bil 6-87 ár. 78 sjúklingar fóru tvisvar og þar af 21 sjúklingur þrisvar eða oftar í aðgerð. Helstu ábendingar fyrir aðgerð voru langvinnar bólgur í nefi og skútum (74%) og separ í nefi (49%). Meðallegutími var 1,65 dagur (bil 0-8 dagar). Tveir sjúklingar þurftu endurinnlögn vegna blæðingar nokkrum dögum eftir aðgerð og tveir (0,4%) greindust með intracranial (innan höfuðkúpu) loft eftir aðgerð, annar þeirra var einnig með mænuvökvaleka og fór aftur í aðgerð. Í einu tilviki brotnaði snerilhnífur í aðgerð og brot sat eftir í kinnholu.

Ályktun: Holsjáraðgerðir á nefi og afholum nefs hafa fest sig í sessi á Íslandi eins og víðar. Aðgerðin er örugg og lítið um alvarlega fylgikvilla. Nokkuð stór hluti sjúklinga þarf þó á fleiri en einni aðgerð að halda.



E - 02 Sjúkdómar í nefi og skútum nefs greindir við holsjáraðgerðir á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala

Kristín Pálsdóttir, Gunnhildur M. Guðnadóttir, Hannes Petersen



Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala Fossvogi

gunnhgud@landspitali.is



Inngangur: Holsjáraðgerðir á nefi og skútum nefs (functional endoscopic sinus surgery) hafa notið vaxandi vinsælda síðastliðinn áratug og hafa að mestu leyst af hólmi eldri aðgerðir á afholum nefs. Helstu ábendingar fyrir þessum aðgerðum eru langvinnar skútabólgur og miðar aðgerðin að því að bæta afrennsli úr skútum með minnstu mögulegri röskun á eðlilegu slímflæði í nefinu. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga helstu sjúkdómsgreiningar þeirra sem fóru í holsjáraðgerðir á nefi og skútum þess á tímabilinu 1990-2000 á Háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturvirk og var farið yfir sjúkraskrár allra sjúklinga sem gengust undir holsjáraðgerðir á nefi og skútum nefs á tímabilinu 1990-2000. Einnig voru fengnar upplýsingar úr gagnagrunnum Rannsóknarstofu háskólans í meinafræði og Sýkladeild Landspítala.

Niðurstöður: Alls fóru 484 sjúklingar í aðgerð á þessu tímabili, 257 karlar (53%) og 227 konur (47%). Helstu ábendingar fyrir aðgerð voru langvinnar bólgur í nefi og skútum (74%) og separ í nefi (49%). Ætlunin er að skoða nánar svör úr vefjagreiningum og þróun í fjölda sýna á fyrrnefndu tímabili. Einnig verða skoðuð ræktunarsvör og fjöldi sjúklinga með ofnæmi og asma svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður verða kynntar á skurðlæknaþingi.

Ályktun: Holsjáraðgerðir á nefi og skútum nefs hafa fest sig í sessi á Íslandi eins og víðar. Algengustu sjúkdómsgreiningar þeirra sem fara í þessar aðgerðir eru langvinnar bólgur í nefi og skútum og separ í nefi.



E - 03 Aldursstöðluð beinbrotatíðni í Eyjafirði

Jón Torfi Halldórsson1, Þorvaldur Ingvarsson1, Björn Guðbjörnsson2,3



1Slysadeild og 2Beinþéttnimóttaka FSA, 3Rannsóknarstofa í gigtarsjúkdómum, Landspítala

jontorfi@fsa.is



Inngangur: Beinbrot eru algeng komuástæða á bráðamóttöku. Eðli og tíðni beinbrota eru mismunandi eftir aldri og kyni. Meðferð þeirra er oft kostnaðarsöm og þau skerða lífsgæði. Hækkandi meðalaldur þjóðarinnar vekur spurningar um framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunnar. Það er því mikilvægt að hafa áreiðanlegar upplýsingar um aldursstaðlaða beinbrotatíðni, en þær liggja ekki fyrir hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Á 12 mánaða tímabili (01.09.01-31.08.02) var upplýsingum safnað saman um öll beinbrot sem skráð voru hjá slysadeild FSA. Ennfremur var leitað í útskriftargreiningum allra legudeilda. Íbúar í Eyjafirði 01.12.02 voru 21.627. Upplýsingar um aldursdreifingu voru fengdar hjá Hagstofu Íslands.

Niðurstöður: Alls greindust 668 beinbrot, þar af 449 hjá Eyfirðingum (67%), sem samsvarar að nýgengi beinbrota við Eyjafjörð sé 208/10.000/ár. Beinbrot voru algengari meðal karla (59%), en kvenna (41%). Nýgengi brota var hæst meðal áttræðra og eldri (542/10.000/ár) og meðal barna á aldrinum 10-19 ára (392/10.000/ ár). Lægst var nýgengið hjá konum á aldrinum 30-39 ára (38/10.000/ ár), en hæst meðal elstu kvennanna (845/10.000/ár). Karlar höfðu hins vegar hæstu brotatíðnina meðal 10-19 ára drengja (533/10.000/ ár) og lægstu hjá 50-59 ára körlum (117/10.000/ár).

Beinþynningarbrot voru meira en helmingur allra brota eftir fimmtugt og yfir 80% allra brota hjá áttræðum og eldri.

Ályktun: Rannsóknin staðfestir aldursbreytilegt nýgengi beinbrota og að ungir karlar hafi háa beinbrotatíðni sem líklega skýrist af atvinnutengdri áhættu eða háskalegri hegðun. Frekari rannsóknir þar sem beinþéttni þeirra sem brotna er metin eru nauðsynlegar til að unnt sé að draga ályktanir um sambandið milli beinbrota og beinþynningar hér á landi.



E - 04 Dempandi festingar í lendhrygg: Nýir aðgerðarmöguleikar við slitgigt í mjóbaki

Halldór Jónsson jr, Bogi Jónsson



Bæklunarskurðdeild Landspítala Fossvogi

halldor@landspitali.is



Inngangur: Á síðustu árum hafa ýmsir meðferðarmöguleikar þróast til aðgerða á slitgigt í mjóbaki. Má þar nefna hryggstólpa, gerviþófa og gerviliði. Þróunin hefur sérstaklega verið í þá átt að komast hjá spengingu og viðhalda hreyfingu í liðbilinu. Við viljum vekja athygli á dempandi festingum eða hryggdempurum sem kallast Dynesys (Dynamic Neutralization System for the Spine). Tækið á að endurskapa rétta stöðu í aflöguðu liðbili og létta um leið á aðklemmdum taugavef. Það er sett inn aftan í hryggsúluna og leyfir áframhaldandi hreyfingu í liðbilinu þar sem ekki fer fram nein beinígræðsla eins og við hefðbundna spengingu.

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturvirk rannsókn á annars vegar ástæðu aðgerðar, meinafræði liðbila og fjölda liðbila, og hins vegar tímalengd aðgerðar, blóðgjöf, legutíma og kostnaði tækis miðað við hefðbundna spengingu.

Niðurstöður: Á hálfu ári (01.09.02-28.02.03) fóru 10 sjúklingar (fjórar konur, sex karlar) í aðgerð, meðalaldur var 59 ár (34-75). Ástæðan var verkir í baki og/eða fótum vegna miðlægrar hryggþófabungunar (central disc protrusion) (fjórir) og eftir fyrri aftari spengingu (posterolateral fusion L3/4-S1) (sex). Fimm sjúklingar voru lagaðir á einu liðbili (L2 til S1), fjórir á tveimur liðbilum (L2-3 og L3-4 eða L3-4 og L4-L5) og einn á þremur liðbilum (L2-3, L3-4, L4-L5). Einn sjúklingur fékk taugarótarertingu sem gekk til baka.

Miðað við hefðbundna aftari spengingu var meðalaðgerðartími fyrir Dynesys 45 mínútur á liðbil sem er 15 mínútum lengur en við hefðbundna festingu; legutími var sex dagar sem er einum degi minna en við hefðbundna festingu og blóðgjöf var 0-2 einingar sem er um tveimur einingum minna en við hefðbundna festingu. Kostnaður á liðbil er um 224.000 sem er sambærilegt við hefðbundna festingu; það hækkar hins vegar um 85.000 á hvert aukaliðbil sem bætt er við. Allir sjúklingar upplifðu minni staðbundna verki heldur en þegar beintaka fer einnig fram og allir losnuðu strax við fótaverki án þess að þurfa aukalega laminectomiu (þynnunám) eða foraminotomiu.

Ályktanir: Demparaaðgerðir í lendhrygg hafa gefið jákvæða byrjunarreynslu. Það að losna við spengingu, hafa minni blóðgjöf og styttri legutíma eru allt framfaraskref miðað við fyrri möguleika til að auka lífsgæði slitgigtarsjúklinga. Árangur okkar hingað til er sambærilegur niðurstöðuviðmiði framleiðanda. Líklegt er að hryggstólpaaðgerðir í lendhrygg muni að mestu leyti víkja fyrir þessum aðgerðum.



E - 05 Meðfædd vélindalokun á Íslandi 1963-2002

Anna Gunnarsdóttir1,2, Guðmundur Bjarnason2, Ásgeir Haraldsson3,4



1Skurðdeild Háskólasjúkrahússins í Malmö, 2Barnaskurðdeild Barnaspítala Hringsins, 3Barnaspítali Hringsins, Landspítala Hringbraut, 4Læknadeild Háskóla Íslands

annagunn7@hotmail.com



Inngangur: Meðfædd lokun á vélinda er sjaldgæfur galli og er nýgengi um 1/3000-1/4500 fæddra barna. Meðferð gallans er aðgerð. Árangur aðgerða fer batnandi og er lifun 80-92% síðustu tvo áratugi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna nýgengi vélindalokunar á Íslandi og meta árangur aðgerða.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk og upplýsingar fengust úr sjúkraskrám þeirra sem greindust með meðfædda vélindalokun á Barnaspítala Hringsins 1963-2002. Fengnar voru upplýsingar meðal annars um meðgöngulengd, fæðingarþyngd, tegund galla og hvort aðrir fæðingargallar væru til staðar. Einnig var lagt mat á árangur aðgerða. Upplýsingar um fjölda lifandi fæddra á tímabilinu fengust frá Hagstofu Íslands.

Niðurstöður: 37 börn greindust með meðfædda vélindalokun á tímabilinu. Meðalfæðingarþyngd var 2626g, þar af 16 börn (43%) með fæðingarþyngd <2500g. 14 börn (38%) voru fyrirburar (<38 vikur). 34 börn (92%) höfðu algengustu tegund vélindalokunar með blindan nærenda á vélinda og fistil milli fjærenda og aðalberkju. 34 börn gengust undir aðgerð með lokun á fistli og sammynningu á vélinda. Tíu börn létust eftir aðgerð, þar af eitt barn eftir hjartaaðgerð ári eftir vélindaaðgerð. Algengasta dánarorsök var lungnabólga (70%). Lifun eftir vélindaaðgerð var því 74% á tímabilinu. Aðrir meðfæddir gallar voru algengir þar sem hjartagallar reyndust algengastir (32%). Nýgengi sjúkdómsins fór minnkandi á tímabilinu, frá 1/3737 á fyrstu tíu árunum í 1/10.639 á síðasta áratugnum.

Ályktanir: Athyglisvert er hversu nýgengi sjúkdómsins hefur farið lækkandi síðasta áratug og eru þetta lægstu tölur sem okkur er kunnugt um. Árangur aðgerða hefur batnað frá fyrri rannsókn en er þó heldur lakari en í nágrannalöndum okkar. Aðrir fæðingagallar eru algengir hjá þessum sjúklingahópi.



E - 06 Æðastíflubrottnám á vinstri framveggsgrein hjarta. Afturskyggn rannsókn á 196 sjúklingum

Tómas Guðbjartsson, Alex Karavas, Sari F. Aranki, Tom Mihaljovic, Lawrence H. Cohn, John G. Byrne



Hjartaskurðdeild Brigham and Women´s sjúkrahússins í Boston. Harvard Medical School.

tomasgudbjartsson@hotmail.com



Inngangur: Framfarir í æðavíkkunum (PCI) hafa gert það að verkum að sjúklingar sem gangast undir kransæðahjáveituaðgerð (CABG) eru oft með langt genginn þriggja æða kransæðasjúkdóm. Þegar ekki er hægt að opna stíflur í kransæðum með blásningu/röri er í vaxandi mæli gripið til skurðaðgerðar. Í slíkum tilvikum getur æðastíflubrottnám (TEA) reynst nauðsynlegt til að koma á flæði í kransæðinni. Kransæðin er opnuð, æðakölkunin fjarlægð en úthjúpur (adventia) æðarveggsins skilinn eftir og saumaður við hjáveitugræðling. Æðastíflubrottnám er tæknilega krefjandi og tíðni fylgikvilla, sérstaklega hjartadreps, er aukin. Markmið þessarar afturskyggnu rannsóknar var að kanna árangur æðastíflubrottnáms á vinstri framveggsgrein hjarta (LAD) við kransæðahjáveituaðgerðir.

Efniviður og aðferðir: Árin 1992-2000 gengust 196 sjúklingar á BWH undir æðastíflubrottnám á vinstri framveggsgrein. Í öllum tilvikum var aðgerðin framkvæmd sem hluti af kransæðahjáveituaðgerð með aðstoð hjarta- og lungnavélar. 10% aðgerðanna voru enduraðgerðir. Meðalaldur var 67 ár (bil 33-97). Rúmur helmingur sjúklinganna (52%) var með óstöðuga hjartaöng og 93% voru í NYHA flokki III eða IV. Sykursýki var greind hjá 89 sjúklingum (45%) og 28 (14%) voru með nýrnabilun fyrir aðgerð. Sautján sjúklingar (10%) voru með brátt hjartadrep (MI) og 33 (17%) höfðu fengið hjartadrep innan mánaðar fyrir aðgerð.

Niðurstöður: Fjöldi græðlinga var oftast þrír (miðgildi, bil 1-5). Vinstri brjóstholsslagæð (LIMA) var tengd við vinstri framveggsgrein hjá 151 sjúklingi (77%), en hjá 46 þeirra þurfti að auki bláæðabút til að loka kransæðinni. Hjá 45 sjúklingum (23%) var eingöngu notast við bláæðagræðling. Skurðdauði var 3% (n=6). Alls greindust 28 sjúklingar (15%) með nýtilkomið hjartadrep eftir aðgerðina og sex (3%) þurftu að fara í enduraðgerð vegna blæðingar. Lungnabilun greindist hjá 16 sjúklingum (8%) eftir aðgerðina og heilablóðfall hjá 11 (6%). Eins árs lífshorfur voru 94% (95% CI: 90%-97%) og fimm ára lífshorfur 74% (95% CI: 66%-80%).

Ályktun: Hægt er að framkvæma æðastíflubrottnám á vinstri framveggsgrein við kransæðahjáveituaðgerðir með lágri tíðni fylgikvilla og skurðdauða. Þó að stór hluti sjúklinga sé í áhættuhópi útbreidds kransæðasjúkdóms eru skammtímalífshorfur góðar eftir þessa tegund aðgerðar.



E - 07 Ósæðarlokuskipti hjá öldruðum með lífrænni Mitroflow®-loku - 13 ára eftirlit

Tómas Guðbjartsson, Johan Sjögren, Lars I. Thulin



Hjartaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð

tomasgudbjartsson@hotmail.com



Inngangur: Ósæðarlokuskipti eru á meðal algengustu hjartaskurðaðgerða og ábendingar fyrir aðgerð eru oftast þrengsli og/eða leki í ósæðarloku. Hjá sjúklingum yfir sjötugt er yfirleitt notast við lífrænar ósæðarlokur til að komast hjá ævilangri blóðþynningarmeðferð. Lífrænar hjartalokur eru yfirleitt fengnar úr svínum en Mitroflow®-lokan er búin er til úr gollurshúsi kálfa og hefur verið notuð víða um heim á síðustu tveimur áratugum. Fylgikvillar eftir ósæðarlokuskipti eru algengari hjá öldruðum en yngri sjúklingum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna árangur ósæðarlokuskipta með Mitroflow®-loku hjá öldruðum. Sérstaklega var litið á árangur aðgerða hjá einstaklingum með þrönga ósæðarrót.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1990-1993 gekkst 151 sjúklingur 75 ára (meðalaldur 79 ár, bil 75-91) undir ósæðarlokuskipti með Mitroflow®-loku í Lundi. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og eftirlit var 100%. Í helmingi tilfella var jafnframt framkvæmd kransæðahjáveituaðgerð og hjá þremur (2%) sjúklingum þurfti að víkka ósæðarrótina með bót. Sjúklingunum var skipt í tvo hópa; hóp A (n=85) með lokustærð 21 og hóp B (n=66) með lokustærðir 23, 25 og 27. Árangur í hópunum var borinn saman.

Niðurstöður: Skurðdauði (látnir <30 d.) var 2% (n=3). Fimm sjúklingar í hópi A og sex í hópi B greindust með bilun í lokunni við eftirlit og einn úr hvorum hópi gekkst undir enduraðgerð þar sem lokunni var skipt út. Aðrir fylgikvillar eins og rek/blóðsegi og lokuleki voru sömuleiðis sambærilegir í hópunum tveimur. Einn í hvorum hópi lést úr hjartaþelsbólgu/blóðeitrun. Eins, fimm og tíu ára lífshorfur voru sambærilegar í hópi A og B. Algengasta dánarorsök var hjartabilun.

Ályktun: Árangur ósæðarlokuskipta með Mitroflow®-loku í öldruðum er góður. Fylgikvillar og skurðdauði eftir aðgerð reyndust sambærilegir og við ósæðarlokuskipti hjá yngri sjúklingum. Árangur er ekki síðri fyrir sjúklinga með þrönga ósæðarrót.

E - 08 Áhrif nets á sáðstreng við nárakviðslitsaðgerðir

Fritz H. Berndsen1, Lars-Magnus Bjursten2, Mecius Siminaitis3, Agneta Montgomery4



1Handlækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi, 2Deild fyrir dýratilraunir, 3Meinafræðideild og 4Skurðdeild háskólasjúkrahússins í Malmö

fritz.berndsen@sha.is



Inngangur: Nárakviðslitsaðgerðir eru á meðal algengustu skurðaðgerða. Endurtekin kviðslit eru umfangsmikið vandamál sem sést best á því að 15-20% allra nárakviðslitsaðgerða eru framkvæmdar vegna endurtekins kviðslits. Með því að nota polypropylene net er hægt að fækka endurteknu kviðsliti verulega. Vitað er að netin valda ótilasvörun (foreign body reaction) með langvinnri bólgu en lítið hefur verið rannsakað hvort þessi svörun hafi áhrif á sáðstrenginn. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hvort netinnlögn hafi áhrif á sáðstrenginn og hvort munur sé á hefðbundnu polypropylene neti (Prolene®) og samsettu (polypropylene/polyglactin) léttvigtarneti (Vypro-II®).

Efniviður og aðferðir: 30 rottum var skipt í þrjá hópa. Aðgerð var gerð öðru megin og hinn nárinn notaður til samanburðar. Byrjað var á að fríleggja sáðstrenginn. Í hópi I var gerð nárakviðslitsaðgerð án nets, í hópi II var gerð aðgerð sem líkist Lichtenstein aðgerð með Prolene® neti en í hópi III var notað samsett léttvigtarnet (Vypro-II®). Eftir 90 daga var skuggaefni sprautað í sáðrás (vasography) og mælt testósterón frá eistabláæð báðum megin. Nárinn var skoðaður í smásjá, ummál sáðrásar mælt og bólga og bandvefsmyndun í kringum netin metin. Annars vegar var hópur I borin saman við hóp II og III en hins vegar var gerður samanburður á hópi II og III.

Niðurstöður: Sáðrásin var opin í öllum tilvikum eftir 90 daga. Í hópi III (Vypro-II®) var testósterón (miðgildi) frá eistabláæð marktækt lægra (83 nmol/L á móti 127 nmol/L, p = 0,008) og ummál (miðgildi) sáðrásarinnar minna (158 pixels á móti 187 pixels, p = 0,022) sömu megin og netið. Þessi munur sást ekki í hópi I og II. Bólgusvörun og bandvefsmyndun var marktækt aukin í hópi II og III samanborið við hóp I. Hins vegar var ekki munur milli hópa II og III. Polyglactin þræðir sáust í öllum sýnum í hópi III.

Ályktanir: Samsett léttvigtarnet (Vypro-II®) veldur lækkun á testósteróni eistabláæðar og minnkun á ummáli sáðrásar eftir nárakviðslitsaðgerð hjá rottum. Hins vegar var ekki munur á bólgusvörun og bandvefsmyndun eftir notkun hefðbundins polypropylene nets og samsetts léttvigtarnets (polypropylene/polyglactin).



E - 09 Samanburður á mismunandi aðferðum til að mæla þrýsting í kviðarholi

Fjölnir Freyr Guðmundsson, Asgaut Viste, Hjörtur Gíslason, Knut Svanes



Kirurgisk Forskningslaboratorium, Haukeland Universitets Sykehus í Bergen

ffgudmun@broadpark.no



Inngangur: Þrýsting í kviðarholi er hægt að mæla með ýmsum aðferðum. Algengast er að mæla þrýsting í þvagblöðru sem endurspeglar vel kviðarholsþrýsting. Markmið þessarar rannsóknar var: a) að bera saman þrýsting í þvagblöðru, neðri meginbláæð og bláæð læris við beina mælingu á þrýstingi í kviðarholi, b) að bera saman blóðflæði í neðri meginbláæð og bláæð læris, og c) að meta hæfilegt magn vökva sem hafa skal í þvagblöðru við mælingu á þrýstingi.

Efniviður og aðferðir: Átta svín voru svæfð. Þrýstinemum var komið fyrir í þvagblöðru, neðri meginbláæð, bláæð læris og inni í kviðarholi. Flæðinemum var komið fyrir umhverfis neðri meginbláæð og bláæð læris. Þrýstingur í kviðarholi var aukinn með Ringerslausn í þrepum upp í 40 mmHg og síðan stiglækkaður og þrýstingur og blóðflæði mælt. Í lok rannsóknar mældum við hve mikinn vökva þurfti að setja inn í þvagblöðru til að auka blöðruþrýsting um 2 mmHg við <8 mmHg og við 20 mmHg þrýsting í kviðarholi.

Niðurstöður: Þrýstingur sem mældur er í þvagblöðru, neðri meginbláæð og bláæð læris endurspeglar mjög vel kviðarholsþrýsting. Blóðflæði í bláæð læris endurspeglar vel blóðflæði í neðri meginbláæð. Minni vökva þurfti til að fá aukningu um 2 mmHg í þvagblöðru við 20 mmHg kviðarholsþrýsting.

Ályktun: Óbeinar mælingar á kviðarholsþrýstingi í þvagblöðru, neðri meginbláæð og bláæð læris eru áreiðanlegar. Einungis 10-15 millilítra af vökva ætti að setja í þvagblöðru áður en þvagblöðruþrýstingur er mældur.



E - 10 Áhrif endothelins og angiotensin II á nýrnablóðflæði og þvagmyndun við aukinn kviðarholsþrýsting

Fjölnir Freyr Guðmundsson, Asgaut Viste, Ole Myking, Leif Bostad, Ketil Grong, Knut Svanes



Kirurgisk Forskningslaboratorium, Haukeland Universitets Sykehus í Bergen

ffgudmun@broadpark.no



Inngangur: Alvarlegir sjúkdómar, svo sem brisbólga, geta valdið auknum þrýstingi í kviðarholi. Verulega aukinn kviðarholsþrýstingur veldur minnkuðu nýrnablóðflæði og þvagmyndun. Við höfum áður sýnt fram á að angiotensin II og endothelin-1 sem valda æðasamdrætti finnast í auknum mæli við aukinn kviðarholsþrýsting. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif lyfja sem draga úr verkun á endothelin-1 og angiotensin II á nýrnablóðflæði og þvagmyndun.

Efniviður og aðferðir: Þrjátíu svín voru svæfð og eftir skurðaðgerð var kviðarholsþrýstingur aukinn með Ringerslausn upp í 30 mmHg og haldið í þrjár klukkustundir. Tíu dýr fengu endothelin-1 hemjandi lyf, tezosentan, tíu dýr fengu angiotensin II hemjandi lyf, losartan, og tíu dýr voru í viðmiðunarhópi. Við könnuðum nýrnablóðflæði, renín-virkni, blóðþéttni aldósteróns og endothelin-1 og þvagmyndun.

Niðurstöður: Í viðmiðunarhópi var nýrnablóðflæði stöðugt, æðamótstaða jókst, blóðþéttni aldósteróns jókst og þvagmyndun minnkaði. Losartan jók nýrnablóðflæði, hindraði æðamótstöðu, kom í veg fyrir aukningu í blóðþéttni aldósteróns og þvagmyndun hélst óbreytt. Tezosentan olli því að blóðþrýstingur féll, nýrnablóðflæði minnkaði og þvagmyndun minnkaði verulega samanborið við viðmiðunarhóp.

Ályktun: Æðasamdráttur í nýrum við aukinn kviðarholsþrýsting orsakast af aukinni framleiðslu á angiotensin II og minnkuð þvagmyndun er að hluta til vegna aukinnar endurupptöku á natríum og vatni í nýrnapíplum vegna aukins aldósteróns.

Tezosentan olli verulegu blóðþrýstingsfalli og varasamt er að nota það við þessar aðstæður. Losartan virðist hins vegar bæta nýrnablóðflæði og þvagmyndun.



E - 11 Árangur sogskafaðgerða í handarkrika við hyperhydrosis axillae á St. Jósefsspítala frá 1990-2002

Andri Már Þórarinsson1, Jens Kjartansson2



1Skurðsviði, 2Lýta- og brunadeild Landspítala Hringbraut

jenskj@landspitali.is



Hyperhydrosis axillae er ástand sem lýsir sér með mikilli svitamyndun í handarkrikum. Primary hyperhydrosis á höndum, fótum eða í handarkrika hrjáir um 1% fólks í hinum vestræna heimi, en ekki hafa fundist tíðnitölur fyrir handarkrika eingöngu. Ástandið veldur þolendum oft nokkurri hömlun þar sem þeir telja sig ófæra í mörgum þáttum mannlegra samskipta, til að geta stundað ákveðin störf og svo framvegis.

Ástandið hefur verið meðhöndlað með ýmsum hætti, allt frá ákveðnum efnum sem borin eru á húðina til þess að húðin í handarkrikum hefur verið fjarlægð í heilu lagi (en bloc).

Nokkuð er síðan fyrstu greinarnar fóru að birtast þar sem lýst er svokölluðu sogskafi, en það er fitusogstækni notuð til að fjarlægja hluta af subcutant (undir húð) vef gegnum lítinn inngang framanvert í handarkrikanum, upp að dermislínu. Við þetta fækkar svitakirtlum á svæðinu til muna og ástandið lagast. Þessi aðgerð hefur verið framkvæmd á 41 sjúklingi á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og kannar rannsóknin árangur af aðgerðinni hjá þessum hóp.

Haft var samband símleiðis við 36 þessara einstaklinga en fimm voru fluttir af landi brott. Lagður var fyrir spurningalisti þar sem þeir voru spurðir út í ýmsa þætti fyrir og eftir aðgerð, svo sem fataskipti, félagsleg samskipti, lykt, örmyndun, verki, hártap og hvort enduraðgerðar hafi verið þörf.

Niðurstöður eru í tölfræðilegri úrvinnslu og verða kynntar á ársþingi Skurðlæknafélagsins.



E - 12 Meðferð og fagrýni ristilkrabbameins

Anna Sverrisdóttir



Queen's Hospital, Burton upon Trent, Staffordshire, Englandi

asverris@hotmail.com



Inngangur: Mikil þörf er talin á að staðla og miðstýra meðferð við ristil- og endaþarmskrabbameini. Queen's Hospital er sjúkrahús í Mið-Englandi sem þjónar 280.000 manns. Um 100-120 ristil- og endaþarmskrabbamein greinast árlega og eru einungis meðhöndluð af tveimur skurðlæknum. Hér er lýst meginatriðum í meðferð og gagnasöfnun/gæðaeftirliti í Mið-Englandi.

Aðferðir: Umönnun allra ristil- og endaþarmskrabbameinssjúklinga er í höndum þverfaglegra teyma þar sem auk lækna og hjúkrunarfræðinga eru starfsmenn sem sjá um gagnasöfnun og úrvinnslu. Teymin tengjast Colorectal Cancer Modernisation Project sem er í fararbroddi í Bretlandi hvað varðar þróun og framfarir í meðferð ristil- og endaþarmskrabbameina. Meginmeðferð er með TME-aðferðinni (Total Mesorectal Excision). Teymin hafa fengið ítarlega þjálfun þar sem markmiðið er að allir sjúklingar með krabbamein í endaþarmi fái sömu meðferð hvað varðar alla þætti hennar. Spítalarnir taka þátt í fagrýni (audit). Skoðað er: a) notagildi segulómunar við TNM stigun fyrir aðgerð, b) tölvumyndataka af öllum ristil- og endaþarmssýnum ef TME var beitt, þar sem tveir óháðir skurðlæknar skoða sýnin til að meta hvort langtímaárangur tengist gæðum TME-aðgerðarinnar, c) gæði vefjarannsókna og d) gæði áætlana um geislameðferð, e) þörf á tveimur sérfræðingum við aðgerð og f) svör við spurningalista um lífsgæði (Functional/Quality of Life Questionnaire) fyrir aðgerð og eftir sex og 12 mánuði, varðandi blöðru- og garnaeinkenni og kynlíf. Upplýsingabæklingar um aðgerðir, rannsóknir, spítalalegu og hugsanlega fylgikvilla hafa verið gerðir og samband við heimilislækna bætt til muna.

Ályktun: Eftir ofangreindar breytingar er umönnun mun betri en fyrir aðeins fáeinum árum. Bæði sjúklingar og aðstandendur vita mun meira um sjúkdóminn og meðferðina. Upplýsingaflæði er skilvirkara og ekki eins háð útskýringum skurðlæknisins sjálfs.

Miklar vonir eru bundnar við nýjungar í meðferð. Nú þegar öll skurðmeðferð er einungis í höndum lækna með sérfræðimenntun í skurðaðgerðum neðri hluta meltingarvega er áformað að bera saman niðurstöður við uppgjör sem gert var fyrir tíu árum.



E - 13 Bætt lifun ristil- og endaþarmskrabbameins

í Svíþjóð

Helgi Birgisson, Mats Talbäck, Ulf Gunnarsson, Lars Påhlman, Bengt Glimelius



Handlækningadeild háskólasjúkrahússins Uppsölum og Faraldsfræðideild sænsku krabbameinsskrárinnar í Stokkhólmi

helgi.birgisson@telia.com



Inngangur: Lifun ristil- og endaþarmskrabbameins hefur batnað síðustu áratugi. Fyrir endaþarmskrabbamein má ef til vill rekja þennan ávinning til geislunar fyrir aðgerð og aðgerðarinnar TME (total mesorectal excision). Í Uppsölum var þessi meðferð tekin upp árið 1985 og voru frumkvöðlar hennar í Svíþjóð. Markmið þessarar rannsóknar er að rannsaka lifun ristil- og endaþarmskrabbameins í Svíþjóð og Uppsalaléni.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar voru fengnar frá sænsku krabbameinsskránni um alla sjúklinga sem greindust með kirtilfrumukrabbamein á árunum 1960-1999. Fimm ára "relativ" lifun var reiknuð og samanburður gerður milli tímabila, ristil- og endaþarmskrabbameins og Uppsalaléns og annarra léna Svíþjóðar.

Niðurstöður: Fimm ára "relativ" lifun ristilkrabbameins hefur aukist frá 39,6% 1960-64 til 57,2% 1995-99 og fyrir endaþarmskrabbamein frá 36,1% til 57,6%. Lifun sjúklinga með endaþarmskrabbamein í Uppsölum jókst tímabilið 1985-89 og áframhaldandi lifunaraukningu mátti sjá fyrir tímabilin 1990-94 og 1995-99.

Umræður: Lifun sjúklinga með bæði ristil- og endaþarmskrabbamein í Svíþjóð hefur batnað síðustu áratugi. Bætta lifun sjúklinga með endaþarmskrabbamein í Uppsölum er ef til vill hægt að skýra með tilkomu geislameðferðar og TME-skurðaðgerða.





E - 14 Stent við þarmastíflu af völdum ristil-

og endaþarmskrabbameins

Helgi Birgisson, Kennet Smedh



Handlækningadeild, Centrallasarettet Västerås, Svíþjóð

helgi.birgisson@telia.com



Inngangur: Hefðbundin meðferð við þarmastíflu af völdum ristil- og endaþarmskrabbameins er úrnám ristils/endaþarms og stóma. Nú er einnig hægt að leggja stent (stoðlegg) til að leysa stífluna tímabundið, til dæmis fyrir komandi aðgerð eða endanlega í líknandi tilgangi. Hér verður lýst fyrstu reynslu stent ísetningar við Centrallasarettet í Västerås.

Efniviður og aðferðir: 22 sjúklingar með hótandi eða fullgengna þarmastíflu af völdum krabbameins í bugaristli eða endaþarmi á tímabilinu 1. október 1999 til 1. október 2002. Notað var sjálfútvíkkandi möskva stent (Boston microvasive`) sem er 9 cm langt með 22 mm innanmál. Stentið var lagt með buga- eða ristilspeglun í röntgengegnumlýsingu.

Niðurstöður: Stent ísetning tókst hjá 18 sjúklingum, tíu körlum og átta konum, með meðalaldur 78,5 (52-96) ár. Ellefu endaþarms- og sjö bugaristilkrabbamein voru meðhöndluð, fjarlægð æxlis frá endaþarmsopi var 12,5 (6-30) cm og aðgerðartími 38 (25-100) mínútur. Fylgikvillar voru þrombótíseruð gyllinæð (n=2), blæðing (n=1) og sýking í pung (n=1). Stentið losnaði hjá fjórum sjúklingum og fékk einn sjúklinganna nýtt stent með góðum árangri. Fjórtán sjúklingar voru meðhöndlaðir í líknandi tilgangi og varð líkn góð í níu tilfellum. Af fjórum sjúklingum sem síðar gengust undir læknandi aðgerð höfðu tveir endaþarmskrabbamein.

Umræður: Stent ísetning við þarmastíflu af völdum ristil- og endaþarmskrabbameins er góður valkostur þar sem losna má við stómaaðgerð. Nota má stent sem líknandi meðferð en einnig er hægt er að undirbúa sjúklinga fyrir læknandi valaðgerð.



E - 15 Smáæðablóðflæði í þarmaslímhúð

Samstarfsverkefni LSH - HI og UniBE #1

Gísli H. Sigurðsson1, Vladimir Krejci2, Luzius Hiltebrand2



1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild, Inselspital háskólasjúkrahúsi í Bern, Sviss

gislihs@landspitali.is



Inngangur: Laser Doppler blóðflæðismælingar og smásjármælingar í líffærum (intravital microscopy) hafa sýnt að smáæðablóðflæði (microcirculation) sveiflast reglulega frá lágflæði til háflæðis (flowmotion - nokkrum sinnum á mínútu) í sumum vefjum líkamans, svo sem húð, munnslímhúð og fleira. Þetta fyrirbrigði hefur til dæmis í vöðvum verið tengt ófullnægjandi blóðflæði (ischaemia). Þetta hefur ekki verið rannsakað í kviðarholslíffærum nema í ómentum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort sveiflur væru á blóðflæði í smáæðum þarmaslímhúðar við eðlilegar aðstæður eða við sjokkástand.

Efniviður og aðferðir: Smáæðablóðflæði var mælt stöðugt í nýrum, lifur, brisi og maga-, smáþarma- og ristilslímhúð með laser Doppler flæðimæli (LDF) í 20 svæfðum svínum. Einnig var smáæðablóðflæði "kvikmyndað" í slímhúð smáþarma með cytoscan tækni. Súrefnismettun í þarmaslímhúð var stöðugt mæld með near-infrared spectoroscopy (NIRO).

Helstu niðurstöður: Á laser Doppler mælinum sáust reglulegar sveiflur í smáæðablóðflæði (microcirculatory flow motion) í slímhúð maga, smáþarma og ristils í öllum dýrunum sem voru rannsökuð bæði við stöðugar aðstæður og í sjokkástandi. Aðeins mjög alvarlegt sjokk virtist trufla þessar sveiflur. Tíðni sveiflnanna var 2,2-7,0 á mínútu og gat hún verið mismunandi frá einum stað til annars þótt aðeins nokkrir millimetrar væru á milli. Með NIRO mældust mótsvarandi sveiflur í súrefnismettun í slímhúðinni eins og sáust á laser Doppler mælinum. Ennfremur sáust mótsvarandi sveiflur í smáæðablóðflæði á cytoscan "kvikmynd" og var greinilegt að tíðni sveiflnanna gat verið mismunandi í tveimur aðliggjandi villi í smáþörmunum.

Ályktanir: Þessi rannsókn staðfestir að smáæðablóðflæði sveiflast milli lágflæðis og háflæðis í þarmaslímhúð 2-7 sinnum á mínútu bæði við eðlilegar aðstæður og við sjokkástand. Þessar sveiflur í blóðflæði virðast vera undir stjórn gangráðs sem liggur mjög langt úti í smáæðum (peripherally). Þessar sveiflur í flæði valda mótsvarandi sveiflum í súrefnismettun í þarmaslímhúð. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að kanna tilgang þessa fyrirbrigðis.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica