Umræða fréttir

Heilsugæslan á Suðurnesjum. Sjálfseignarstofnun eða útibú frá Reykjavík?

Heilsugæslan á Suðurnesjum hefur verið töluvert til umræðu eftir að heimilislæknar sem þar störfuðu sögðu upp störfum sínum og gengu út þann 1. nóvember síðastliðinn. Eins og kunnugt er var boði þeirra um að endurráða sig eftir að viljayfirlýsing heilbrigðisráðherra lá fyrir í lok nóvember ekki tekið og því hefur heilsugæslan á Suðurnesjum verið fámenn og ekki getað haldið uppi viðunandi þjónustu.

Heilsugæslan hefur síðan verið starfrækt með einum eða tveimur læknum en sérfræðingar af sjúkrahúshluta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa létt undir með þeim. Þetta gat kannski gengið í einhvern tíma vegna þess að læknarnir höfðu unnið fram fyrir sig. Íbúar Suðurnesja hafa líka leitað annarra leiða til að fá úrlausn sinna mála. Þeir hafa meðal annars í vaxandi mæli leitað ásjár á Læknavaktinni í Reykjavík og heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur auglýst stöður heilsugæslulækna lausar til umsóknar án árangurs. Það hefur enginn sótt um þessar stöður og það er ekki fyrir tilstuðlan eða áeggjan samtaka lækna. María Ólafsdóttir sem var í hópi læknanna sem sögðu upp í haust segir að áhugaleysi lækna stafi fyrst og fremst af þeirri stefnubreytingu sem varð í rekstri stofnunarinnar í haust og leiddi til þess að starfskröftum sjö sérfræðinga var hafnað.

Ólík rekstrarform undir einu þaki

Eftir að þessi staða kom upp hefur umræðan snúist um að finna nýjar aðferðir við að leysa þann hnút sem reksturinn er kominn í. Meðal þess sem rætt hefur verið er stofnun sjálfseignarstofnunar sem gæti tekið að sér rekstur heilsugæslu. Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur varpaði fram þeirri hugmynd að stéttarfélög, sveitarfélög, samtök sjúklinga og eldri borgara, félög atvinnurekenda, fyrirtæki og einstaklingar legðu í púkk til að koma slíkri stofnun á laggirnar.

Hugsunin að baki slíkum rekstri er að stofnunin geri þjónustusamning við ríkið um að annast heilsugæslu á svæðinu. Hún réði síðan til sín það starfsfólk sem þarf og væri óbundin af opinberum kjarasamningum í þeim ráðningum. Þannig væri svigrúm til að ráða lækna sem venjulega launamenn en einnig sem verktaka að hluta eða að þeir leigðu húsnæði af stofnuninni og rækju þar sína eigin stofu sem væri hluti af starfsemi heilsugæslunnar. Með því móti gætu ýmis rekstrarform þrifist undir sama þaki.

Ef um hagnað væri að ræða af starfseminni yrði hann ekki greiddur út til eigendanna heldur yrði honum varið til að byggja stofnunina upp, styrkja eigið fé hennar eða til að gera betur við starfsfólkið.

Hugmyndasmiður þessarar lausnar er Skúli Thoroddsen lögmaður í Keflavík en hann hefur reynslu af rekstri sjálfseignarstofnunar í Svíþjóð og hefur skrifað um málið í staðarblaðið Víkurfréttir. Hann segir að þetta rekstrarform nýti hagkvæmni einkarekstrar í þágu almennings.

Reykvísk yfirtaka?

Þegar þessi hugmynd var til umræðu manna á meðal á Suðurnesjum bárust fréttir af því að heilbrigðisráðuneytið hefði farið þess á leit við Heilsugæsluna í Reykjavík að hún hlypi undir bagga með heilsugæslunni í Keflavík. Það var kominn upp inflúensufaraldur og mikið álag á heimilislæknum um allt land.

Þessi ósk hlaut takmarkaðan hljómgrunn meðal heilsugæslulækna sem ekki vildu ganga inn í störf við stofnunina meðan ríkjandi stefna stjórnenda hennar er við lýði. Þá kom fram sú hugmynd hvort ekki væri rétt að Heilsugæslan í Reykjavík tæki einfaldlega yfir rekstur heilsugæslunnar á Suðurnesjum. Ef af verður mun heilsugæsluþátturinn verða skilinn frá öðrum rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og honum stjórnað frá Reykjavík. Um þetta var rætt þegar Læknablaðið fór í prentun og óljóst hvort sú yrði niðurstaðan.

Maríu Ólafsdóttur leist vel á þessa hugmynd ef hún þýddi að staðlar Heilsugæslunnar í Reykjavík myndu taka gildi í Keflavík og heilsugæslan þar yrði rekin á sömu forsendum og stuðst er við annars staðar. "Það yrði sigur fyrir heimilislækningar í landinu því með því væri ráðuneytið að viðurkenna þá staðla sem eru í gildi og að heilsugæslan væri grunnþáttur heilbrigðisþjónustunnar," sagði María.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica