Umræða fréttir

Íðorð 154: Miltisbrandur

Martha Hjálmarsdóttir, meinatæknir, vakti athygli á íslenska heitinu miltisbrandur og bað um að uppruni þess yrði skoðaður.

Erlenda heitið, anthrax, er komið úr grísku og merkti upphaflega kol eða viðarkol. Benda má á heitið anthracosis, sem notað er um kolalitun lungna eftir langvarandi reykmengun og hefur sama uppruna. Heitið anthrax er einnig notað um vissa tegund af drepkýli, sem á latínu nefnist carbunculus, en latneska orðið merkir lítill kolamoli. Skýringin er vafalaust sú að það form sjúkdómsins sem fram kemur í húð manna, cutaneous anthrax, einkennist af drepkýli sem síðar verður að sári með kolsvörtu hrúðri. Önnur helstu form sjúkdómsins stafa af sýkingu í meltingarvegi, gastrointestinal anthrax, öndunarvegi, inhalational anthrax, eða heilahimnum, meningeal antrax. Það eru eiturefni sýkilsins, Bacillus anthracis, sem valda bjúg, blæðingum og vefjadrepi.

Sjúkdómurinn berst til manna frá sýktum dýrum (hrossum, nautgripum og sauðfé), einkum til þeirra sem meðhöndla afurðir þeirra eða úrgang. Hnitmiðaða sjúkrasögu má finna í bókinni Hjúkrun sjúkra frá 1923 eftir Steingrím Matthíasson, héraðslækni á Akureyri: Karl skar kú sína, sem drepist hafði úr miltisbrandi. Læknir bannaði honum að hirða kjötið. Hann óhlýðnaðist, sauð sér til matar, sýktist og dó.

Sagt er að bólga og drep komi fram í milti dýranna og af því er fyrri orðhlutinn vafalítið dreginn. Síðari hlutinn, brandur, merkir samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu: 1 eldur, logi 2 (logandi) skíði, eldiviður 3 skáld 4 svæðið framan við hlóðir 5 sverð, sverðsblað. Líklegt má telja að hálfbrunninn og kolsvartur lurkur geti gefið hina sjónrænu ímynd drepsins.



Önnur heiti

Leitað var í Orðabók Háskólans og þar kemur fram að sjúkdómurinn var einnig nefndur miltisbruni, miltisdrep, miltisbráðdauði, pest, bráðapest eða skinnapest. Benda má á að orðið bruni var á fyrri öldum oft notað um sótthita og að drep var einnig nefnt kolbrandur.

Við leitina komu í ljós heitin miltisveiki og miltissýki, sem stundum voru notuð um ímyndunarveiki, hypochondria, hjá karlmönnum á svipaðan hátt og heitið móðursýki, hysteria, hjá konum. Forvitnilegt væri að fá upplýst hvernig miltið tengist þeirri veiki.

Af erlendum samheitum má nefna cacantrax, charbon (Fr), carbuncular fever, milzbrand (Þ), splenic apoplexy og splenic fever. Íslensku heitin draga sýnilega nokkurn dám af þeim. Skemmtilegt sögulegt yfirlit um 100 ára feril sjúkdómsins á Íslandi má finna í grein eftir Pál Agnar Pálsson, dýralækni, á bls. 545 í Bók Davíðs frá Háskólaútgáfunni 1996.





Pólitísk einkavæðing

Þó ekki hafi verið ætlunin að leggja íðorðapistlana undir pólitíska umræðu verður ekki hjá því komist að hnýta lítils háttar við það sem áður var sagt. Umræðan í tilefni af bréfi Ólafs Arnar (Lbl 2003; 89: 157) átti að gefa til kynna að orðið einkavæðing merkti einfaldlega það að ríkið hætti rekstri tiltekinnar starfsemi og að einkaaðilar taki við honum. Ríkið getur eftir sem áður kostað reksturinn og séð til þess, með lögum, reglugerðum eða samningum, að einstaklingar fái viðeigandi þjónustu gegn sömu greiðsluhlutdeild og áður eða jafnvel án greiðslu. Dæmi Sigurbjörns Sveinssonar í síðasta blaði (Lbl 2003; 89: 263) sýna að auðvelt er að flækja þetta einfalda mál og það gerir hann með því að gefa í skyn að réttur einstaklinga til að fá heilbrigðisþjónustu verði fyrir borð borinn í einkavæddu kerfi. Skyldi einkavæðing bankakerfisins tákna að einstaklingar eigi ekki lengur rétt á bankaþjónustu? Jafnframt virðist hann hafa það innifalið að einstaklingarnir greiði ekki neitt fyrir þjónustuna nema í því kerfi sem einkavætt er "til beggja enda".

Vandamálið við hina pólitísku umræðu um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu er einmitt oft það að menn nota orð með víðfeðma merkingu og ákveða hver fyrir sig hvað er innifalið í hugtakinu. Orðið sjálft segir ekki til um slíkt. Um hugtökin að baki orðunum þarf því að vera samkomulag ef fagleg umræða á að skila árangri. Vísvitandi hugtakaskekking er að auki eitt af einkennum hinnar pólitísku umræðu.

Hvað merkir til dæmis "einkavæðing heilsugæslunnar"? Merkir það eingöngu að rekstur heilsugæslustöðva verði falinn einkaaðilum, að ríkið greiði kostnaðinn og að laun starfsmanna og greiðslur sjúklinga verði óbreyttar? Merkir það hugsanlega að ríkið hætti öllum afskiptum af heilsugæslu, selji stöðvarnar einkaaðilum, leggi niður sjúkratryggingar og hætti að hlutast til um hvað einstaklingar greiða fyrir þjónustuna? Það er ekki ljóst af orðunum einum, en getur skipt meginmáli í heitri umræðu.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica