Umræða fréttir

Lækningamáttur ljóðsins

Hin íslensku bókmenntaverðlaun fyrir árið 2002 hlaut Ingibjörg Haraldsdóttir fyrir ljóðabók sína, Hvar sem ég verð. Í ávarpi hennar við verðlaunaafhendinguna kom fram sú skoðun skáldsins að ljóðið væri hvergi nærri dautt úr öllum æðum þrátt fyrir þrálátan orðróm þess efnis, það væri mannbætandi á alla lund og hefði ótvírætt uppeldisgildi. Óumdeilanlegastur væri þó lækningamáttur ljóðsins, gott dæmi um þetta væri sjálfur Egill Skallagrímsson og sá óbrotgjarni minnisvarði Sonatorrek. Talað er um að fólk skrifi sig eða yrki frá innri sársauka, og flestir þekkja líka af eigin raun hvað það yljar um hjartarætur að syngja saman eða að fara með eitthvað fallegt einsog sagt var í minni sveit. Listmeðferðarfræðingar (art therapists) starfa í þessum anda inni á sjúkrahúsum og víðar með það að leiðarljósi að fá sjúkum og sorgmæddum bata með því að láta þá taka þátt í listsköpun af ýmsum toga; til dæmis myndlist, dansi, leiklist og ritun.

- En ljóðið, og máttur þess og megin gagnvart kvölum og plágum? Eina meinsemdin sem mig hefur hrjáð um dagana er svæsin tannrótarbólga á yngri árum: sokkin augu, bólgnir kjálkar, hræðilegar vítiskvalir. Mér vitraðist á vísindalegan hátt að sá sem a) gúffar í sig gotterí seint og snemma, b) ber ekki skynbragð á burstun tanna, c) stígur ekki fæti sínum inn fyrir dyr hjá tannlækni árum saman þrátt fyrir þrotlausa tannpínu - hann fær að lokum tannrótarbólgu! Þvermóðska mín leyfði ekki að ég borðaði magnyl og þrautalending móður minnar eftir talsverðan grát og gnístran var að kveða fyrir mig rímur. Mamma (f. 1920) skildi ekki baun í Andrési önd, mér fundust þjóðsögurnar fúlar og þýddar dömubókmenntir kostuðu endalaus komment frá mömmu meðan á lestri stóð: "Núnú á maður svo að trúa því að hún verði skotin í þessu greifafífli." Og rímur reyndust hafa ótvíræðan lækningamátt: rímurnar eftir Örn Arnarson um Odd sterka á Skaganum voru bara einsog ópíum fyrir mig í tannrótarkrísunni, ég slefaði af vellíðan: Meira, meira, þegar mamma sýndi merki þess að hún ætlaði ef til vill að snúa sér að öðrum verkefnum en að kveða rímur. Bótin fólst mest í rytma og resónansi í stuðlum, höfuðstöfum og rími, þetta var sefjandi, kjálkinn féll niður, enginn vöðvi strekktur, og hin djúpa slökun ýtti sársaukanum burt. Mjög skrítið en afar áþreifanlegt. Þarna vann saman efni, form og flutningur, rímna-pakkinn af Oddi sterka var á við allt heimsins parkódín, jafnvel forte, um það getur síðasta vísan í rímnaflokknum borið fagurt vitni:



Kveðum hátt uns dagur dvín,

dýran hátt við baugalín,

Venus hátt í vestri skín,

við skulum hátta elskan mín.



Kvæðamenn geta ef til vill linað kvalir fólks án nokkurra aukaverkana eða vanabindingar, það er talsvert verkjastillandi að hlýða á kveðskap um Odd sterka og alveg áreiðanlega er öflugur lækningamáttur falinn í því að lesa ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur.

Vegsummerki



Á miðjum veginum

einsog bíll hafi stansað

og einhver hafi hlaupið

yfir skurðinn inn í skóginn

einsog bíllinn hafi rokið af stað

með rassaköstum

skrensandi

og skilið það eftir

og nú liggur það hér

í kyrrðinni sem lagðist

yfir veginn skurðinn skóginn

þegar bíllinn var farinn



þetta rauða hjarta

á miðjum veginum

og slær



Úr ljóðabókinni Hvar sem ég verð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica