Umræða fréttir
  • Tafla I
  • Tafla II

Allsherjarathugun héraðslækna og Krabbameinsfélagsins 2002. Reykingar grunnskólanema minnkuðu um meira en þriðjung á fjórum árum. Innan við 7% nemenda á aldrinum 12-16 ára reykja

Um 6,8% grunnskólanema á aldrinum 12-16 ára reykja samkvæmt könnun sem héraðslæknar gerðu í fyrravor í samvinnu við Krabbameinsfélag Reykjavíkur og með stuðningi Tóbaksvarnanefndar. Þessi tala var 11,4% árið 1998 og hefur því lækkað mikið. Í Reykjavík var hlutfallið 7,7% árið 2002 en hafði verið 32,0% árið 1974.

Könnunin var gerð í apríl 2002, náði til rúmlega tuttugu þúsund nemenda á aldrinum 10-16 ára um land allt og var sambærileg við kannanir sem gerðar hafa verið á fjögurra ára fresti, á landsvísu síðan 1990 og í Reykjavík síðan 1974.

Helstu niðurstöður fyrir landið í heild sýna að nú reykja 7,0% pilta og 6,5% stúlkna í aldurshópnum 12-16 ára miðað við allar reykingar. Ef aðeins er litið á daglegar reykingar lækkar hlutfallið hjá piltum í 5,4% og hjá stúlkum í 3,7%.

Minnst er reykt á Vestfjörðum (3,6%) og frá könnuninni fjórum árum áður hafa reykingar minnkað alls staðar nema á Austurlandi. Af einstökum kaupstöðum koma Seltjarnarnes, Ísafjörður og Vestmannaeyjar best út, þar reykja innan við 2% nemenda á aldrinum 12-16 ára.

Eins og gefur að skilja er meira um reykingar í eldri aldurshópunum heldur en þeim yngri. Innan við 1% tólf ára nemenda reykja en 17% þeirra sem eru sextán ára. Fleiri piltar en stúlkur reykja í flestum aldursflokkum.

Um 51% nemenda á aldrinum 10-16 ára komu frá heimilum þar sem hvorki nemendur né aðrir reyktu. Fjórum árum áður var hlutfallið 48% og enn lægra áður, eins og sjá má af því að árið 1974 var þetta hlutfall 17% í Reykjavík. Könnunin sýnir að ef einhver á heimili reykir eru 50% meiri líkur á að börnin reyki.

Einnig var spurt um munn- og neftóbaksnotkun í könnuninni. Sögðust 1,8% nemenda á aldrinum 10-16 ára nota það oft en 7,4% einstaka sinnum. Svo virðist sem dregið hafi úr munn- og neftóbaksnotkuninni í heild síðustu ár. Þeir sem reykja ekki nota yfirleitt ekki heldur munn- og neftóbak.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur staðið fyrir skipulegri tóbaksfræðslu í grunnskólum síðan 1975. Fyrir fimm árum varð sú breyting að Krabbameinsfélagið og Tóbaksvarnanefnd þýddu og gáfu út norskt námsefni, Vertu frjáls - reyklaus, og dreifðu því til allra skóla á landinu. Haldin eru námskeið fyrir kennara til að leiðbeina um notkun námsefnisins og undanfarin ár hefur verið kannað hvort skólarnir nota það eða ekki. Hefur komið í ljós að meira en sjö af hverjum tíu nemendum fá kennslu sem byggist á þessu fræðsluefni. Norskar rannsóknir sýna að í þeim skólum þar sem stuðst er við þetta námsefni eru reykingar nemenda helmingi fátíðari heldur en þar sem námsefnið er ekki notað.

(Frétt frá Krabbameinsfélaginu)

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica